Leita í fréttum mbl.is

Hvers vegna er heiminum svona illa við hvalveiðar?

Afstaðan til hvalveiða sýnir vel muninn á afstöðu Íslendinga og annarra þjóða til umhverfisins. Íslendingar hafa haldið fram rétti sínum til að nýta sjávarspendýr eins og aðrar auðlindir sjávar og lands. Þeir benda réttilega á góða stjórnun á auðlindum sjávar borið saman við aðrar þjóðir. Sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins (CFP, Common Fisheries Policy) er dæmi um rányrkjustefnu af versta tagi. Það þýðir ekki að Íslendingar geti ekki gert betur. Reynslan hefur sýnt að það er auðvelt að ganga á stofna sjávar. Það er auðveldara hvað varðar sjávarspendýr heldur en fiska. Aukin veiði hefur oft glapið fólki sýn og verið undanfari stofnhruns.

Þegar sjávarspendýr urðu auðveiðanleg var hægt að ganga mjög hratt á stofna þeirra eins og sést til dæmis á hvalveiðum við Ísland 1883–1915. Þá samþykki Alþingi lög um algert veiðibann á hvölum við landið. Það var sjálfgert. Á 32 árum hafði norskum hvalveiðimönnum tekist að gjöreyða stofnum bæði vestanlands og austan. Þeir hreyfðu ekki mótmælum við veiðibanninu enda var ekki lengur um neina veiði að ræða og þeir fluttu sig til Suður-Íshafsins. Í þá daga var notast við gufuknúna báta og sprengiskutla við hvalveiðar eins og enn er gert. Þó að bæði bátar, fjarskiptatækni, staðsetningartækni og veiðibúnaður hafi þróast eru grunnþættir veiðanna þeir sömu. Hvalirnir eru þó orðnir auðfinnanlegri en áður var.

Sprengiskutli má lýsa þannig að þríarma stjaka eða spjóti er skotið að skepnunni úr fallbyssu. Fremst á stjakanum er lítil sprengja sem líkist handsprengju. Þegar skutullinn hittir skepnuna springur þessi oddur og skutullinn á greiða leið inn í hold á skepnunni. Þegar inn er komið kippist dýrið við og leggur á flótta. Þá dragast armarnir út og festast í holdi hvalsins. Hvalurinn syndir af mætti og dregur stundum bátinn drjúga stund áður en hann deyr af blóðmissi. Sprengiskutlarnir eru notaðir til að veiða stórhveli eins og langreyði, sandreyði og búrhval. Í hópi stórhvela eru einnig aðrir skíðishvalir, þar á meðal steypireyðar sem ekki eru lengur veiddar. Skíðishvalir lifa að mestu á átu sem þeir ná í með því að gleypa áturíkan sjó og þrýsta honum út milli skíðanna. Sumir smærri hvalir, eins og hrefnur, eru veiddar með svokölluðum köldum skutli. Hann er með hvössum oddi en engri sprengju. Þá er skotkrafturinn notaður til að brjóta leið inn í hold á skepnunni. Hrefna er í hópi tannhvala sem lifa að mestu á fiski og öðrum sjávarspendýrum og eru langtum minni en stórhvelin sem áður voru talin upp.

Þegar hvalveiðibann var samþykkt 1986 taldi Hafrannsóknastofnun að hvalastofnar við Ísland þyldu þá veiði sem þá gerðist. Veiðin hafði þá minnkað mikið frá því sem mest var á sjöunda áratugnum. Rannsóknir hafa batnað mikið á þeim tuttugu árum sem eru liðin og nú má telja víst að ekki sé hætta á stofnhruni með þeirri veiði sem Hafró leggur til. Íslendingar halda því gjarnan fram að til séu endanleg rök fyrir veiðum sem er hvort stofn sé í hættu, sem greinilega eigi ekki við hér og nú. Ef fólk mótmælir hvalveiðum á þeirri forsendu að því þyki þær villimannslegar og viðbjóðslegar séu það ekki rök, heldur skoðun byggð á tilfinningu. Sumir tala um tilfinningarök. Hvort sem um er rætt telja margir Íslendingar þess konar umræðu ekki svaraverða, ekki fremur en maður deilir um smekk fólks.

Svona tilfinningar eru þó ekki ómerkilegri en svo að þær liggja að baki öllum grundvallarmannréttindum. Eitt sinn þótti í lagi að hneppa fólk í þrælahald en svo er ekki lengur. Til eru samfélög sem samþykkja sæmdarmorð og önnur hafa dauðarefsingu. Hver eru rökin sem ráða þegar fólk segir, þetta er viðbjóðslegt, þetta er viðurstyggilegt og ég samþykki þetta ekki? Sams konar afstaða liggur einnig að baki friðun á margs konar dýrum. Íslendingar borða ekki hunda- eða kattakjöt, skjóta ekki lóu í matinn eða svani. Þeir sem það gera fara að minnsta kosti ekki hátt með það og yrðu vafalaust fordæmdir. Íslendingar skjóta ekki naut á færi. Ef eina leiðin til að fella hreindýr væri að sprengja leið í hold dýrsins og draga það inn yrði væri búið að stöðva þær veiðar. Þessar tilfinningar, eða þessar skoðanir eru óumflýjanlegar í umræðunni. Það er þess vegna eftirtektarvert hversu lítið er rætt um þær hér á landi. Í dýraverndunarlögum stendur að ávallt skuli staðið að veiðum þannig að það valdi dýrunum sem minnstum sársauka. Styðjendur hvalveiða geta sagt að það sé ekki hægt að veiða hvali á annan veg og þá vaknar spurning andstæðinga veiðanna, til hvers þá? Þessi spurning er, eins og málin standa, spurning heimsins til Íslendinga.

Höfundur er upplýsingafræðingur.


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elías Halldór Ágústsson

Hér er ein lítil staðreyndavilla: hrefnan er skíðishvalur en ekki tannhvalur.

Reyndar efast ég stórlega um að nokkur  tannhvalur sé hæfur til manneldis, þeir eru það ofarlega í fæðukeðjunni. Talið er að marsvínin sem færeyingar borða séu svo menguð af kvikasilfri að jafnvel einn skammtur myndi flokkast sem eitur samkvæmt öllum manneldisstöðlum.

Elías Halldór Ágústsson, 11.6.2009 kl. 12:23

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sjö og ellefu?
Nota HTML-ham

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband