Leita í fréttum mbl.is

Öryggið leyfir fólki að taka sjálft áhættuna

Öruggt þjóðfélag með öruggan efnahag leyfir einstaklingnum að taka áhættuna sjálfur en vera ekki leiksoppur þjóðaráhættunnar. Reynsla fyrsta áratugar þessarar aldar sýnir á hinn bóginn hvar þarf að herða reglur fyrir viðskiptalífið, sem hvorki tryggði hagsmuni eigenda né viðskiptavina.

Margir vilja draga stóru drættina í vestrænum heimi sem annars vegar evrópska þjóðfélagið með miklu félagslegu öryggiskerfi, iðnað og þjónustu í föstum skorðum þar sem stéttarfélög ráða miklu og hins vegar bandarísk-engilsaxneskt þjóðfélag með færri reglum og meira svigrúmi fyrir einstaklinginn til athafna.

Þetta mynstur hefur verið til um langa hríð og fólk hefur komið auga á nokkrar þversagnir í þessari mynd. Hvers vegna eru svo margir frumkvöðlar frá Svíþjóð, sem að margra mati var í fararbroddi þess sem hér er kallað evrópskt þjóðfélag um aldarskeið, þar á meðal ríkustu fjölskyldur Evrópu sem grætt hafa stórfé á snjöllum uppfinningum og hönnun? Án þess að hæla sænsku þjóðfélagi sérstaklega, þá sé ég einmitt ekki þversögn í þessu.

Við höfum búið við þjóðfélag sem aflétti reglum og opnaði fyrir viðskipti allt frá níunda áratugnum. Það var engin vanþörf á því og nú er leitun að fólki sem vill fara aftur til þeirra reglna sem þá giltu. Það er leitun að þeim en þau eru samt vel finnanleg í fleiri en einum stjórnmálaflokki. Með bættri fjármálastjórn hins opinbera á tíunda áratugnum horfði þetta allt til framfara. Það á að halda áfram á þeirri braut en ekki fara til baka.

Reynsla fyrsta áratugar þessarar aldar sýnir á hinn bóginn hvar þarf að herða reglur fyrir viðskiptalífið, sem hvorki tryggði hagsmuni eigenda né viðskiptavina. Þá kemur að örugga þjóðfélaginu sem hefur betur náð að tryggja þessa hagsmuni. Það hefur ekki komið í veg fyrir þróttmikið frumkvöðlastarf og nýsköpun á Norðurlöndunum, sem fleytir þeim núna í gegnum kreppuna án stóráfalla. Opinber sjóður með eignir upp á meira en ársframleiðslu Noregs hefur þýtt að norska þjóðin stendur núna með pálmann í höndunum í fjármálakreppunni. Þrátt fyrir það sem haldið hefur veirð fram á Íslandi er olíusjóðurinn norski alopinber og alls ekki einkarekinn.

Öryggið leyfir einstaklingnum að taka áhættu og gera hlutina sjálfur. Það þýðir einnig að einstaklingar og fyrirtæki sem reyna að byggja upp á eigin spýtur þurfa ekki að lifa við efnahagsástand þar sem utanaðkomandi áhrif hafa alltaf meiri áhrif en gerðir þeirra sjálfra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband