Færsluflokkur: Fjármál
19.4.2012 | 17:28
Economist notar Iceland og screwed í sömu setningu
Í umfjöllun um endurskipulagningu banka segir Economist:
As Simon Gleeson of Clifford Chance, a law firm, points out, no government will care as much about treating foreign creditors fairly as it cares about compensating its own people. Iceland, which screwed its banks foreign creditors in favour of domestic depositors, is a case in point. (Reshaping banking : The retreat from everywhere. Economist, 21 April 2012).
Ég geri ráð fyrir að orðalagið sé ættað frá hr. Gleeson en skilaboðin eru augljós.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.3.2012 | 09:01
Hagfræðingar og krónan
Fyrir hrun komu hingað til lands margir lukkuriddarar, ríkir og fátækir eftir ástæðum. Árið 2008 þornaði undan mörgum þeirra og þeir hurfu á aðrar slóðir. Eftir hrunið komu hingað lukkuriddarar af öðru tagi. Flestir þeirra voru vel meinandi og margir vildu hjálpa landi sem hafði lent í erfiðleikum. En sameiginlegt með þeim öllum var að þeir ætluðu að nota sér ástand sem hafði skapast sem síðan hefur endurtekið sig víða í Evrópu. Hér var þjóð sem hafði lent í áfalli.
Þá kemur að ævintýrinu um hagfræðingana og krónuna. Eftir hrun hefur aftur myndast það ástand í landinu að þó að landið hafi í orði kveðnu aðeins einn gjaldmiðil, hafa sumir aðgang að krónu á einu gengi en aðrir á öðru. Ég ólst upp við þetta ástand og þekki það í hörgul. Einhverjir hafa komið þessu ástandi á og það vegna þess að þeir hafa hag af því. Þar sem er hagur, þar eru hagfræðingar.
Þá skulum við segja söguna af hagfræðingunum fjórum, sem við köllum Sheldon, Leonard, Howard og Raj, vegna þess að við ætlum að segja söguna líka utan landsteinanna. Leonard verður félagi Sheldons og kynnist þess vegna gjaldmiðlinum sem flytur inn hinum megin gangsins, sem við skulum kalla Penny, svona eins og ein eða tvær krónur. Hagfræðingarnir eru allir snillingar en eiga í erfiðleikum með að aðlagast samfélaginu, sem er of ófullkomið fyrir snilldina í þeim.
Sheldon er seðlabankastjóri og hefur eigin skoðanir á flestu sem gerist í landinu og aðrir landsmenn deila ekki þeim skoðunum. Leonard er aðalhagfræðingur og reynir hvað hann getur að lifa í sátt og samlyndi við gjaldmiðilinn Penny. Howard er fjármálaverkfræðingur sem hefur verið fenginn til að sjá um peningaflæði í geimnum, og Raj er ofursnjall þjóðhagfræðingur sem rannsakar fjármagnshreyfingar inn og út úr landinu. Samskipti Sheldons við venjulegt fólk fara einungis fram þannig að hann minnir á hversu ofursnjall hann er og hversu lítið almenningur skilur. Raj getur ekki talað við aðra en hagfræðinga, nema að fá sér fyrst í glas. Howard er svo áfram um að sýna okkur geimhagfræðina sína að að er svolítið krípí. Leonard virðist eiga best með að eiga samskipti við fólk, en samskiptin milli hans og gjaldmiðilsins Penny markast af því að Penny finnst hún ekki alveg nógu sniðug fyrir svona snjallan hagfræðing.
Raunveruleikinn er allur annar, eins og allir þekkja sem hafa lesið þetta ævintýri. Í raun þoldi Leonard ekki Sheldon og flutti út viku síðar. Hinum megin við ganginn bjó stór og mikill klæðskiptingur og Leonard kynntist aldrei gjaldmiðlinum Penny.
Þannig er það líka með raunveruleikann á Íslandi. Verðbólgumarkmið er 2,5% en um leið og það næst er hún rokin upp aftur. Krónan er ekki tæk í viðskiptum utan landsteinanna. Ekki er hægt að fara með meira en 1900 pund úr landi öðruvísi en að fá uppáskrifað leyfi hjá landsfeðrunum. Allar neysluvörur sem eru að meira eða minna leyti keyptar erlendis frá urðu 40% hærri við hrun og munu hækka aftur ef höftum verður létt af krónunni, sem er raunástandið. Einnig innlendar vörur, því að íslenskt búfé nærist á innfluttu kjarnfóðri, bændur nota innfluttan áburð, innfluttar dráttarvélar og íslenskir útgerðarmenn verða að kaupa olíu, veiðarfæri og flestan tækjabúnað erlendis frá.
Raunveruleikinn er að við erum ofurháð viðskiptum við löndin í kringum okkur. Um og yfir helmingur tekna og útgjalda er fenginn með þessum viðskiptum, og af því eru tæp 75% með viðskiptum við lönd Evrópusambandsins. Það er hagur annarra en almennings sem ræður því að krónan er notuð hér á landi. Skylda löggjafans er að vinna fyrir hagsmuni Íslendinga. Það gera þúsundir hér á landi á hverjum degi og telja það sjálfsagt.
Höfundur lærði hagfræði hjá Seðlabankastjóra og er hluti af afar fámennum hópi sem náði prófi hjá honum.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.4.2010 | 14:53
Meistarar í aprílgöbbum
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2010 | 16:35
Öryggið leyfir fólki að taka sjálft áhættuna
Öruggt þjóðfélag með öruggan efnahag leyfir einstaklingnum að taka áhættuna sjálfur en vera ekki leiksoppur þjóðaráhættunnar. Reynsla fyrsta áratugar þessarar aldar sýnir á hinn bóginn hvar þarf að herða reglur fyrir viðskiptalífið, sem hvorki tryggði hagsmuni eigenda né viðskiptavina.
Margir vilja draga stóru drættina í vestrænum heimi sem annars vegar evrópska þjóðfélagið með miklu félagslegu öryggiskerfi, iðnað og þjónustu í föstum skorðum þar sem stéttarfélög ráða miklu og hins vegar bandarísk-engilsaxneskt þjóðfélag með færri reglum og meira svigrúmi fyrir einstaklinginn til athafna.
Þetta mynstur hefur verið til um langa hríð og fólk hefur komið auga á nokkrar þversagnir í þessari mynd. Hvers vegna eru svo margir frumkvöðlar frá Svíþjóð, sem að margra mati var í fararbroddi þess sem hér er kallað evrópskt þjóðfélag um aldarskeið, þar á meðal ríkustu fjölskyldur Evrópu sem grætt hafa stórfé á snjöllum uppfinningum og hönnun? Án þess að hæla sænsku þjóðfélagi sérstaklega, þá sé ég einmitt ekki þversögn í þessu.
Við höfum búið við þjóðfélag sem aflétti reglum og opnaði fyrir viðskipti allt frá níunda áratugnum. Það var engin vanþörf á því og nú er leitun að fólki sem vill fara aftur til þeirra reglna sem þá giltu. Það er leitun að þeim en þau eru samt vel finnanleg í fleiri en einum stjórnmálaflokki. Með bættri fjármálastjórn hins opinbera á tíunda áratugnum horfði þetta allt til framfara. Það á að halda áfram á þeirri braut en ekki fara til baka.
Reynsla fyrsta áratugar þessarar aldar sýnir á hinn bóginn hvar þarf að herða reglur fyrir viðskiptalífið, sem hvorki tryggði hagsmuni eigenda né viðskiptavina. Þá kemur að örugga þjóðfélaginu sem hefur betur náð að tryggja þessa hagsmuni. Það hefur ekki komið í veg fyrir þróttmikið frumkvöðlastarf og nýsköpun á Norðurlöndunum, sem fleytir þeim núna í gegnum kreppuna án stóráfalla. Opinber sjóður með eignir upp á meira en ársframleiðslu Noregs hefur þýtt að norska þjóðin stendur núna með pálmann í höndunum í fjármálakreppunni. Þrátt fyrir það sem haldið hefur veirð fram á Íslandi er olíusjóðurinn norski alopinber og alls ekki einkarekinn.
Öryggið leyfir einstaklingnum að taka áhættu og gera hlutina sjálfur. Það þýðir einnig að einstaklingar og fyrirtæki sem reyna að byggja upp á eigin spýtur þurfa ekki að lifa við efnahagsástand þar sem utanaðkomandi áhrif hafa alltaf meiri áhrif en gerðir þeirra sjálfra.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2010 | 17:03
Bankar og fé almennings
Tölur um hagnað bankanna á fyrsta áratugnum sýna að þar var búin til mynd af svo ævintýralega sniðugu fólki að það gat búið til virðisauka með einu símtali sem tekur venjulegt fólk meira en ævina að búa til í sinni vinnu. Þetta var barnslegur tilbúningur bankanna, engin mistök, enginn misskilningur. Allt var þetta gert til þess að stjórnendur bankanna gætu reiknað sér ævintýraleg laun sem voru ekki fengin með neinu öðru en virðisauka sem aðrir höfðu lagt til.
Hér verður ekki sagt að það sé ekki gáfað fólk í bönkunum. Bónusar upp á ein mánaðarlaun eða svo til venjulegra starfsmanna eru engan veginn röng í góðu gengi eins og var lengst af.
Það sem var og er rangt eru margföld heildarlaun venjulegs launafólks, fyrir það eitt að að vera í stöðu til að sjá um og meðhöndla fé. Margföld árslaun vísindafólks sem nýtur viðurkenningar um allan heim, margföld árslaun þeirra sem hafa byggt yfir okkur hús, vegi undir okkur eða veitur til okkar? Alrangt og ekkert nema tilbúningur.
Hvað gerir samfélagið við fólk sem reiknaði sér hagnað sem það átti að sjá um að ávaxta, til launa og bónusgreiðslna fyrir sjálft sig í stað þess að láta þá fá arðinn sem lögðu til féð?
Raunin varð mesta virðisminnkun sem sést hefur í mannkynssögunni, þrátt fyrir að allur gróði góðu áranna væri reiknaður með. Þegar upp var staðið hafði verið gengið í sjóði sem höfðu verið byggðir upp á löngum tíma til að fullnægja þörfinni fyrir ódýrt fjármagn. Með kostnaðinum af hruninu og því að vinna sig út úr vandanum er þetta svo mikil skuld við samfélagið að tjónið líkist langvinnri styrjöld.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2010 | 16:29
Bankar og fólk sem brýtur reglur
Þegar bankarnir hafa undanfarið samið við gamla eigendur stórfyrirtækja sem hafa getað tekið við vel niðurskrifuðum skuldbindingum til að halda áfram með rekstur, hefur verið sagt að ódæmdir menn verði að geta starfað í viðskiptum. Það er rétt.
Fólk getur þó brotið reglur án þess að það hafi farið á Hraunið fyrir bragðið. Það eru þau sem hafa brotið jafnræðisreglu almannahlutafélaga með gífurlánum sem tryggt var að yrðu lántakendum aldrei að tjóni. Það gildir um alla sem að þeim málum hafa komið, beggja vegna borðsins, svo ekki sé minnst á þá sem virðast hafa einmitt setið beggja vegna borðsins í einu og sama andartakinu (enn eitt staðfest dæmið um ofursnilli íslenskra fjármálamanna).
Eigendur fyrirtækja sem ekki skila ársreikningum hljóta smávægilega sekt fyrir. Þeir eigendur, umráðamenn og ábyrgðarmenn hafa einnig brotið reglur.
Ef stjórnir bankanna eru síðan komnar í þann leik að ákveða sjálfar hvaða brot teljast nógu alvarleg til að ekki sé hægt að skipta lengur við menn, verða yfirvöld að afturkalla starfsleyfi og láta erlenda banka um að taka við búinu. Almenningur mun á engan hátt skaðast.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2010 | 16:32
Siðleg ábyrgð fyrirtækja
Fyrirtæki er gott íslenskt orð, líkt og orðið félag. Bæði orðin lýsa því em ráðist er í. Ef fólk tekur sér eitthvað fyrir hendur, þá er það fyrirtæki. Ef fólk vill gera þessa starfsemi formlega stofnar það félag. Þá leggja það fé með öðrum i fyrirtækið.
Fólk er persónur að lögum, getur tekið á sig skuldbindingar og á réttindi. Það sama gildir um fyrirtæki og önnur félög, þau eru lögpersónur með réttindi og skyldur. Það standa rök til þess að mynda megi félög um áhættusaman rekstur og takast á hendur takmarkaðar skuldbindingar gagnvart þeim sem eiga viðskipti við fyrirtækið. Þeir gera sér grein fyrir þessari takmörkun og vinna eftir því. Það standa ekki rök til þess að fyrirtækið fái að haga sér á sama hátt gagnvart þeim sem það á ekki viðskipti við.
Samt hegða margir sér eins og það eitt að stofna fyrirtæki firri þá allri ábyrgð eða því sem næst. Þessu hafa verið gerð góð skil í bókinni The Corporation og í samnefndri mynd. Þar sem fyrirtæki eru mannanna verk hljóta forsvarsmenn þeirra að bera ábyrgð á þessum verkum sínum eins og öðrum. Takmarkaða ábyrgðin gildir bara í viðskiptum.
Ef gerðar eru kröfur um siðlegt framferði til einstaklinga í viðskiptum hljóta sömu kröfur að gilda um þau félög sem einstaklingarnir mynda. Þó mál verði aldrei jafn einföld þegar félag á í hlut eins og þegar einhver einn á í hlut, þá er hægt að miða við að framferði sem við myndum ekki leyfa einstaklingum, það leyfum við ekki sama fólki sem hefur gert það eitt að mynda félag. Þá erum við bara komin í tilbúning.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2009 | 07:12
Afneitun, reiði og söknuður á því herrans ári 2009
Afneitun, reiði, gremja yfir því hvað þetta er allt ósanngjarnt, að leita undankomuleiða, söknuður og hryggð, að sætta sig við það sem verður ekki umflúið. Þetta er bara kenning um þau fimm stig sem fólk gengur í gegnum þegar dauðinn er innan augsýnar, ef fólk fær ráðrúm til þess. Þetta hljómar nokkuð kunnuglega í öðru samhengi.
Einn hópur fólks er enn staddur á því herrans ári 2007 í anda að minnsta kosti. Allt sem gert var á Íslandi fram að þeim tíma var rétt að þeirra mati. Hrunið kom að utan, það var Seðlabankanum að kenna að vilja ekki lána bönkunum þegar á þurfti að halda (og taka sjálfir lán hjá Bayerische Landesbank þannig að Glitnir fékk ekki það sem áður hafði verið lofað), það var útrásarvíkingunum að kenna, að minnsta kosti ekki mér og mínum.
Annar hópur er staddur í tíma ársins 2008. Reiði og gremja yfir hvað þetta er allt ósanngjarnt ræður ríkjum hjá þeim. Það var farið illa með Ísland, beitt hryðjuverkalögum gegn friðsamri þjóð, ráðist á þá sem áttu í peningamarkaðssjóðum, ráðist á skuldara, ráðist á allt sem áður var heilagt.
Þriðji hópurinn er að leita undankomuleiða. Það var það sem gerðist 2009. Þá er reynt að semja við Icesave-skuldunauta til að kaupa andrúm í sjö ár. Hluti þjóðarinnar finnur undankomuleið í vinnu á Norðurlöndunum. Einhverjar aðgerðir eru hafnar að sætta skuldara við hlutskipti sitt svo að þeir hverfi ekki.
Við munum síðan taka á móti nýju ári með söknuði og hryggð. Þau sem eftir verða á landinu þreytast á því að ræða endalaust við þá reiðu um hvað allt sé ósanngjarnt, þreytast á þeim sem enn eru í afneitun og þreytast á því að hugsa um hvað lífið sé miklu betra á Norðurlöndunum. Þau munu finna sér hugsvölun í öllu því sem er nógu langt frá þessum leiða raunveruleika, dimma, rigningarfulla og skuldsetta veruleika. 2010 verður tími sögulegra skáldsagna, sætsúrra gamanleikja og fantasíubíómynda.
Svo kemur árið þar á eftir og árið þar á eftir og árið þar á eftir. Það verður náttúrulega að sætta sig við það sem hefur gerst. Það fer bara að verða erfiðara og erfiðara fyrir þann hóp fólks sem á að skilja eftir í súpu ársins 2008 með síhækkandi skuldir og engar leiðir út.
Kenningin sem vitnað er í er kennd við Elisabeth Kübler-Ross sem setti hana fram árið 1969 í bókinni On Death and Dying.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2009 | 08:11
Fram á brún hengiflugsins - og fram af
Maður var nefndur Hyman Minsky og hefur sagt fyrir um hvernig fjárfestingar ganga í góðæri. Ég endursegi hérna eina kenningu hans í tilefni viðburðaríks vetrar, sem nú kveður.
Í fyrsta þrepi vilja fjárfestar eiga borð fyrir báru og eiga bæði fyrir greiðslu vaxta og afborgunum af höfuðstól, og oft eitthvað að auki. Þetta má kalla gætnistig, sem Minsky nefnir hedge investors.
Þegar góðæri gengur lengra verða fjárfestar áhættusæknari og fara að auka skuldsetningu þannig að þeir eiga aðeins fyrir greiðslu vaxta en geta ekki greitt afborganir af höfuðstól að fullu. Þetta er tímabil áhættufjárfestinga sem Minsky kallar speculative investment. Þá þurfa fjárfestar stöðugt að endurfjármagna, taka ný lán til að greiða eldri. Kannast einhver við þetta?
Á þriðja stigi, sem Minsky kallar Ponzi finance, getur fjárfestir ekki greitt vaxtagreiðslur nema með lánsfé. Á þessu stigi verður fjárfestir að skuldsetja allar eignir í topp. Kannast einhver við þetta? Ponzi sem vísað er í er Charles Ponzi sem byrjaði eitt frægasta píramídafyrirtæki sögunnar.
(Sjá The Risk of Economic Crisis, s. 160-161).
Höfundur er ekki hagfræðingur en hefur áhuga á þessum málum af augljósum ástæðum.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2009 | 07:51
Of auðvelt að ruglast á frjálshyggju og græðgi
Margir kenna frjálshyggjunni um allt illt sem gerðist á Íslandi og í heiminum á þessum vetri. Ég held að hér sé verið að nota orðið frjálshyggja í staðinn fyrir það sem ég kalla fullkomna ágóðahyggju.
Ágóðahyggjan þýddi að allur rekstur, opinber, félagslegur og einkarekstur var settur undir þann hatt að hann ætti að skila sem mestum ágóða. Aðrir þættir voru skildir eftir, jafnvel taldir hjákátlegir. Svo varð ágóðahyggjan að meira og meira skammtímamarkmiði og öll meðul notuð til að þrýsta upp hlutabréfaverði með alþekktum afleiðingum.
Frjálshyggjan er ekki það sama og gróðahyggja. Það verður því miður að segja að það var auðvelt að rugla þessu saman síðustu 18 ár á Íslandi. Frjálshyggjufólk gekk í fararbroddi þessarar ágóðahyggju. Það gerði ekkert til að slíta sundur tengsl ríkisvalds og auðmanna sem ætti að vera einn af hornsteinum frjálshyggjunnar, heldur þvert á móti elfdi þessa samvinnu. Þá gerir lítið þó sumt gott fólk bendi á að ríkisábyrgð á skuldbindingum fyrirtækja eins og einkarekinna banka sé alger andstæða frjálshyggjunnar.
Helsta von hægrimanna er nú að vinstrimenn geri þau mistök að vilja aukinn opinberan rekstur. Það hefur verið reynt og var enn ömurlegra en rekstrarumhverfið í vetur.
Í öllum rekstri, einkarekstri, opinberum og félagslegum rekstri verður að taka tillit til fjár, félagslegra og siðferðilegra þátta allra í senn.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar