Færsluflokkur: Mannréttindi
7.4.2010 | 16:20
Útlandakjördæmið
Ef það er rétt, þá er kominn sístækkandi hópur fólks sem er afar langt frá miðstöðvum valdsins, sem eru Íslendingar með kosningarétt sem búa tímabundið erlendis. Þau eiga þá væntanlega að fá enn meiri kosningarétt, fjórfaldan eða sexfaldan miðað við Reykvíkinga og Kragabúa, sem eru með helming þess réttar sem Árborgarbúar, Keflvíkingar og Skagamenn hafa, eða um það bil.
Útlandakjördæmið með um 3-4000 kjósendur ætti þá að hafa þrjá til fjóra þingmenn.
22.3.2010 | 18:42
Vel hannaður upplýsingaleki
Það er augljóst að hægt er að setja upp ástand sem hreinlega býður upp á upplýsingaleka. Því lengur sem eftirsóttum upplýsingum er haldið frá því fólki sem þær eru ætlaðar, því líklegra er að upplýsingarnar leki.
Þá leka þær ekki allar í einu heldur aðeins ákveðinn hluti og sá hluti verður settur fram á þann hátt sem hentar þeim sem lekur. Þetta er ákveðin leið til að reyna að stjórna umfjöllun.
Þessi leið er ekki þjóðinni í hag. Það er ljóst að niðurstöður rannsóknanefndar þingsins eiga erindi við alla þjóðina. Þær eru tilbúnar til útgáfu og áttu að vera komnar á vef fyrir tveimur vikum. Með því eru þær aðgengilegar öllum þingmönnum og þorra þjóðarinnar. Nefndin glatar nú trausti með hverjum deginum sem líður.
Kannski er það ætlunin, þó það virðist ólíklegt við fyrstu sýn. Illt er tveimur herrum að þjóna, stendur í góðri bók.
24.4.2009 | 07:39
Dómur yfir stjórnmálamönnum
Margir halda því fram í mín eyru að þessi eða hinn stjórnmálamaðurinn hafi brotið lög undanfarin ár. Þar til ég fæ að sjá eitthvað handfast í þessu verð ég að leiða þetta hjá mér.
Ef ég hefði eitthvað í höndunum sem sýndi að stjórnmálamenn eða aðrir hefðu brotið lög myndi það ekki koma fram hér, heldur myndi ég snúa mér til þeirra sem rannsaka svona mál.
Hins vegar tel ég hægt að dæma stjórnmálamenn fyrir verk þeirra án þess að þeir hafi brotið lög. Það er einfaldlega sá dómur sem fellur nú á laugardag.
15.4.2009 | 06:31
Að fara verr með fé en fullur sjóari
Því er haldið fram að Íslendingar hafi haft stjórn á eigin gjaldmiðli síðan á þriðja áratugnum, í um 80 ár. Það er fullkomlega ofsagt.
Meðferðin á krónunni líkist aðeins svipugöngum. Þó að þetta hafi hjálpað til að halda uppi háu atvinnustigi í landinu þá gerir það ekki lengur, enda eru ástæður atvinnustigsins að hér búa fáir og lengi þurfti marga til að vinna úr fiski og öðrum auðlindum. Verðbólgan var látin hjálpa til að halda launum niðri sem gerði það auðveldara að ráða fólk.
Á þessum 80 árum hafa sambærilegir gjaldmiðlar á Norðurlöndum tapað gildi sínu en íslenska krónan hefur tapað verðgildi tvöþúsundfalt hraðar. Í árdaga heimastjórnar á Íslandi fóru fjárlög hér á landi í fyrsta skipti yfir milljón krónur. Það samsvarar 10.000 krónum í dag. Þó að framkvæmdir hafi verið margfalt minni voru þessar krónur notaðar til að greiða laun og eftirlaun hundraða, sumu af því hæst launaða fólki sem þá var á landinu.
Einhverjir hafa látið svo um mælt að krónan sé metin eins og Matadorpeningar. Það hefur þó ekki heyrst að þar standi til að skera tvö núll aftan af gjaldmiðlinum eins og gert var hér 1. janúar 1981, í tíð 50% verðbólgu. Þessi aðferð var notuð til að styrkja atvinnuvegina en þýddi að 3000% launahækkanir (30-földun) launa á 20 árum eyddist í 3000% verðbólgu. Þúsund króna laun hækkuðu í þrjátíuþúsund en á sama tíma varð hver þúsundkall þrjátíu sinnum minni að verðgildi, þannig að launþegar stóðu með sama kaupmátt eftir tuttugu ára baráttu og vinnu, gátu keypt það sama fyrir þrjátíuþúsundkallinn eins og þau höfðu getað gert tuttugu árum áður fyrir þúsundkallinn, fyrir sömu vinnu.
Afleiðingin tók nokkurn tíma að koma fram að fullu en endaði á því að enginn treysti gjaldmiðlinum. Þetta átti þátt í að þjóðin eyddi meiru en fullur sjóari, því sjóarinn hættir yfirleitt að eyða þegar peningarnir eru búnir, fer á sjóinn og reynir að afla meira. Þjóðin hélt áfram að eyða. Farið var fram á hengiflugið. Stjórnendur teymdu hana síðan fram af í október 2008.
Um stund var þjóðin í frjálsu falli en hugsaði að þetta væri ekki svo slæmt. Þetta verður ekki slæmt fyrr en þjóðin er kominn í botn gljúfursins. Landsmenn eru þessa stundina að sjá hluta af þessu falli á skattframtölum fyrir árið 2008. Þetta mun halda áfram á næsta skattframtali.
Það slæma við þetta er ekki bara rekstrarumhverfi þar sem það skiptir engu hvað fólk leggur sig fram, þá verða utanaðkomandi þættir yfirsterkari.
Það slæma er líka að gengisbreytingar krónunnar hafa ekki verið annað en dulbúin skattheimta og eignatilfærsla, framkvæmd af fólki sem átti að bera ábyrgð á ríkisfjármálum.
8.4.2009 | 20:27
Af sjónarhóli Sjálfstæðisflokksins
Það er eðlilegt að Sjálfstæðisflokkurinn telji allar breytingar á stjórnarskrá vanhugsaðar. Þetta er sá flokkur sem hefur einfaldlega ekki hugsað út í að það þyrfti neinar breytingar á stjórnskipulagi landsins undanfarin 18 ár.
Þetta er sá eini flokkur sem áttar sig ekki á að þegar Geir Haarde ákallaði æðri máttarvöld að hjálpa Íslandi fyrir sjö mánuðum, þá hugsuðu ekki allir - Guð minn góður, hvað er hægt að gera? Margir hugsuðu öllu frekar - Hvað er hægt að gera til að breyta þessu stjórnskipulagi? Hvernig getur þjóðin haft meiri áhrif á örlög sín?
Hjá flestum okkar var það ekki spurningin um hvort þjóðin ætti að hafa meiri áhrif á örlög sín heldur hvernig. Það er eðlilegt að fólk reyni að brjóta upp það stjórnmálakerfi þar sem tveir formenn stjórnarflokka ráða eða virðast ráða öllu um það sem gert er í landinu. Þó þjóðin sé smá er völ á fleirum.
Það er rík regla að stjórnskipun eigi ekki að breyta nema að vel ígrunduðu ráði. Það er enn ríkari regla að stjórnskipun landsins skuli vera í takt við það sem þjóðin kýs og ekki stjórnskipun sem endurspegli ástand sem er löngu liðið.
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar