Færsluflokkur: Lífstíll
21.12.2007 | 02:27
Aldrei treysta hippa
Aldrei treysta neinum yfir þrítugu, sögðu hipparnir á sínum tíma.
Það er fínt að hafa þetta yfir við þá í dag, komnir vel á sextugsaldurinn. Pappírstígrarnir.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.12.2007 | 00:01
Svo verðið megi haldast hátt
Verð á vöru skapast af framboði og eftirspurn. Aðstæður ráða hvor þátturinn verður ráðandi og þá hversu mikið.
Á Íslandi er núna eftirspurnarþjóðfélag. Allir eru með kaupæði og eru viljugir að borga meira en í gær. Launin hækka og það eru litlir möguleikar á því að þetta breytist neitt á næsta ári, nema þannig að verðið verður enn hærra.
Það er víst að kaupæði minnkar ekki.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.12.2007 | 21:28
Vinur Víkverja á förnum vegi
Sagt er að Víkverji Mogga sé næst-óheppnasti maðurinn á landinu. Sá óheppnasti sé vinur Víkverja.
Sem betur fer er það ekki alltaf sami maðurinn eða konan sem er Víkverji dagsins, og vinir Víkverja þannig fleiri en einn, af báðum kynjum, úr ýmsum stéttum og á ýmsum aldri.
Samt hefur maður á tilfinningunni að Víkverji og vinir hans séu í anda, ef ekki raunverulega, á aldrinum fimmtíu til sextíu eða svo. Lífinu virðist eitthvað vera í nöp við þá, en samt bara nóg til að stríða þeim.
Ég hitti kunningja á förnum vegi í dag og talið barst víða. Það kom í ljós að hann þekkir vel blaðamann á Mogga og hafði einmitt verið vinur Víkverja við fleiri en eitt tækifæri.
Sem betur fer var miklu skemmtilegra að hlusta á hann segja sögur af hræðilegri þjónustu á landsbyggðinni en að lesa þetta í Víkverja.
Ég hef þá hitt óheppnasta mann á landinu, að sögn.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 22:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2007 | 02:08
Jólafastan
Já, nú er gaman að sjá Íslendinga halda jólaföstu. Þá heldur fólk í við sig í mat og drykk og lætur ekki eftir fyrr en á jóladag.
Gott fólk.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2007 | 01:12
Menningin og viðskiptin
Það er til kenning um að lagaval sýni stemminguna hjá fólki. Þetta hljómar ekki sem langsótt kenning, eða hvað? Það má færa hana yfir á almenning og almannahag. Efnahagur sveiflast upp og niður og þau sem geta spáð fyrir um þannig hreyfingar með góðum fyrirvara ættu að vera vel stödd. Ein kenning gengur út á að sjá breytingar á efnahag landa með því að skoða hvaða lög eru vinsæl, hálfu ári fyrr.
Prince skrifaði lagið Nothing Compares 2 You árið 1984 og það var gefið út árið 1985 án þess að hljóta mikla hlustun. Allt annað var uppi á teningnum sumarið 1990. Útgáfa Sinéad O'Connor var spiluð í ræmur og fólk naut þess að líða illa. Um áramótin þar eftir lauk vaxtarskeiði sem hafði staðið í nokkur ár í Evrópu. Kenningin var að fólk hefði fengið sig fullsatt af góðu gengi og væri til í að láta sér líða illa.
Því miður er þessi kenning ekki nákvæmur mælikvarði. Það er ekki gott að finna skýringar á efnahag stórra svæða með einu lagi. Múrinn var fallinn og mikið fé fór í að byggja upp efnahag í fyrrum austantjaldslöndum. Sinéad var góð söngkona árið 1990. Prince var frábær lagahöfundur árið 1984. Myndbandið við lagið var glæsilegt.
Nú er spurningin hvort lagavalið fyrir þessi jól lýsi að einhverju hvert markaðurinn stefnir. Bretar telja að fasteignaverð fari lækkandi og neysla minnki um leið. Þetta hefur þegar haft áhrif á eignir íslensku auðmannanna sem fjárfestu af krafti í smásölukeðjum þar.
Með þetta í huga er það ekki fjarlæg spá að Malcolm Middleton eigi lagið efst á lista um þessi jólin, sem þá verður hið ömurlega We're all going to die. Malcolm kemur úr tvíeykinu Arab Strap, sem aldrei taldist til bjartsýnustu bandanna, en það er heldur ekki sérlega bjart yfir þessu lagi. Textadæmi: We're all going to die, so what if there's nothing, we all have to face this alone. Og: You're going to die, you're going to die, you're going to die alone, all alone.
Lagið er gott, svona ef fólk lætur textann ekki of mikið á sig fá. Þau sem vilja sjá þýðari og jólalegri útgáfu ættu að líta á myndband sem birtist á vef þáttar Colin Murray hjá BBC, með fiðlu og barnakór.
En þetta er nú bara kenning.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2007 | 12:38
Jólaóróinn í ár er jólastress
Á Íslandi safna margar jólaóróum, skreytingum frá Georg Jessen eða öðrum stórsnillingum. Ég verð var við þetta ef ég á leið úr landi á haustdögum, en verð að viðurkenna að á mínu heimili er enginn svona órói til. Það er í takt við annan jólaundirbúning á heimilinu. Í gær var ég að þvo gluggatjöldin, í morgun að strauja þau og hengja upp. Svo tekur við fremur tilþrifalítil þrif og eitthvað skraut finnst nú í geymslunni til að setja upp.
Mér flaug þó í hug hvort að jólaóróinn nái að fanga hinn sanna íslenska jólaanda. Til þess þyrfti að hafa jólastressið, jólageggjunina eða jólabrjálæðið. Ég skil þó að enginn vilji hengja það upp, það er eiginlega eins og að mála skrattann á vegginn.
Það er margt gott við jólaundirbúninginn á Íslandi. Reykjavík fær stórbæjarbrag allan desember. Verslanir eru opnar fram á kvöld og það sést fólk í bænum, fjölskyldufólk að versla. Svo fer allt í leiðindafarið strax að loknum jólum. Verslanir vilja helst ekki opna milli jóla og nýárs og fáir láta sjá sig í bænum í janúar.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2007 | 01:35
Kitschmas - gjafir sem minna á andlegu hlið jólanna
Skyldi það vera rétt sem mörgum finnst, að hinn sanni andi jólanna hverfi í kaupæði og almennu brjálæði? Hvers vegna ætli þetta sama fólk fari þá svona gjörsamlega úr sambandi fyrir jólin?
Ég kann ekki svar við þessu en kom auga á Kitschmas-síðuna sem tekur saman gjafir sem minna á hinn sanna anda jólanna. Þær gera þó ekki betur en bara að minna á hann. Hver vill ekki eignast minnislykil í mynd Maríu, nálapúðann heilagan Sebastian eða Jesús á mótorhjóli?
Maður þarf eiginlega að segja Jesús á mótorhjóli á ensku til að skilja gildi síðasttöldu gjafarinnar. Heilagur Sebastian var særður með örvum eins og þekkt er af arfsögninni.
Vatíkans-borðspilið, þar sem sex kardínálar keppa um páfatign, hlýtur að kóróna þessar gjafir. Það eru síðan níu aðrar gjafir á síðunni fyrir þau sem vilja forvitnast um jólagjafir trúrækinna.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 01:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.11.2007 | 00:03
Best að búa á Íslandi, en hvar á landinu?
Nú er ég forvitinn. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum er Ísland hæst á lista yfir lífsgæði þetta árið. En hvar á landinu skyldu lífsgæðin vera mest?
Það kann að velta á því hvort spurt er eftir mælikvörðum SÞ (ævilíkur, menntunarstig og framleiðsla á haus) sem leiðir okkur líklega á Nesið eða í Garðabæinn, eða hvort við leyfum okkur að leggja áherslu á aðra þætti.
Er betra að hafa greiðan aðgang að Kaffitári eða geta gengið um Grábrókarhraun? Ég veit ekki betur en að hver sveit sem ég hef komið í á Íslandi sé sú fegursta á landinu að mati heimamanna, og ég hef komið í þær flestar.
Skiptir það máli að hafa barnaskara í kringum sig? Margir staðir á landinu virðast miklir sælustaðir, en svo tekur maður eftir að það vantar unga fólkið, og þar með börnin.
Svo er rétt að taka fram að ég hef búið bæði á Nesinu og í Norðurárdalnum, í Hlíðunum, á Höfn og í Hornbjargsvita, Kvosinni og Kópavogi og þess utan unnið um allt land.
Ég ætla að sjá hvað fólki finnst með því að gera könnun á málinu, sjá efst til hægri á síðunni.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 02:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.11.2007 | 21:39
Unnið myrkranna á milli
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.10.2007 | 21:05
Án bíls?
Hjólreiðafólki lærist fljótt að á það er litið sem skemmtilega og skrýtna sérvitringa sem eigi þó hvorki að vera á gangstéttum né götum, heldur einhvers staðar þar á milli eða annars staðar. Borgaryfirvöld í Reykjavík hafa búið til stíga fyrir reiðhjól sem þræða lengstu leiðir í borgarlandinu. Hjólafólk á að deila þeim með gangandi og hlaupandi fólki. Það rennur upp fyrir þeim sem nota þessa stíga að þeir voru hugsaðir fyrir frístundahreyfingu en ekki sem samgönguleiðir. Þeir sem vilja nota hjólið til daglegra nota þurfa enn að deila gangstéttum og götum með vegfarendum þar. Það verður þó að taka fram að Reykjavík er framarlega í lagningu hjólreiðastíga, og að þetta verkefni er einnig á höndum samgönguyfirvalda í landinu.
Spurning Magnúsar Bergssonar á landsfundi VG fyrr á þessu ári um það hvernig fólk hefði komið á þann fund var ekki að ástæðulausu eins og svör fundargesta sýndu. Enginn notaði almenningssamgöngur, enginn kom gangandi á fundinn og enginn kom hjólandi nema Magnús og einn fundargestur sem gaf sig fram síðar. Skýringuna er meðal ananrs að finna meðal íslensks útivistarfólks sem nota sérstaklega stækkaða og breytta jeppa. Eigendur þannig jeppa segjast oft þurfa að eiga þá til að komast á fjöll þegar svo ber undir. Þegar nánar er að gáð eru eigendurnir í bæjum og borg meira en 330 daga á ári og nota þessi hálfvöxnu tröll til að komast þar á milli staða. Svokölluðum borgarjeppum (SUV, sports utility vehicles) fer nú fjölgandi og mun halda áfram meðan landsmenn hafa efni á þeim eða telja sig hafa efni á þeim. Fundargestir VG fara ekki endilega þar fremst í flokki en eru greinilega að minnsta kosti alveg jafn miklir einkabílanotendur og fólk í öðrum flokkum.
Umhverfisstefnan er meiri í orði en á borði.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar