Færsluflokkur: Tölvur og tækni
16.3.2010 | 17:24
Mest notaði rafbókalesarinn
Þegar umtalaðasta skýrsla síðari ára á þessu landi lítur dagsins ljós síðar í mánuðinum, velja flestir vefútgáfu hennar.
Rafbækur eru ekki bækur. Það er ein ástæðan fyrir því að þú heldur ekki á einni slíkri núna. Bækur eru fínar til síns brúks og eru ekkert að hverfa núna, ekki fremur en um síðustu aldamót þegar þú hefur kannski fengið að heyra að þær væru að hverfa.
Líkt og með pappírslausu skrifstofuna er stóra spurningin, til hvers? Þegar þú ert engu betur sett með rafbók en venjulega bók, þá kaupirðu hana ekki. Fyrst þarftu að setja pening í misdýra rafbókalesara eða að minnsta kosti fartölvu sem ræður við þetta. Helst viltu hafa græju eins og iPad, með alvöru skjá og sem ræður við meira en bara að birta bækur. Þar fóru 100 þúsund, og þú hefðir getað keypt 20 bækur í staðinn.
Svo er það spurningin um að eiga bækur. Allt viðskiptamódelið með rafbækur hefur gengið út á að fólk verði að kaupa sig inn í eitt eða tvö lokuð form, að sjálfsögðu þannig að fólk getur ekki afritað með góðu móti. Í raun kaupir fólk aðeins aðgangsréttindi að bókunum eða lesefninu. Dæmin hafa sýnt að bækur hverfa í orðsins fyllstu merkingu úr rafbókalesaranum þegar samningar milli dreifingaraðila bregðast. Það kórónaði kaldhæðni þeirra örlaga þegar bókin 1984 féll út af Kindle-lesurum eftir að Macmillan dró til baka leyfi til Amazon.
Mest notaði rafbókalesarinn er þó fyrir framan þig og þú ert að nota hann einmitt núna til að lesa þessi orð. Yfir 99% af öllu lesefni öðru en á pappír er lesið með vafra. Hann hentar vel til að lesa dæmigerðan texta á neti, þar sem fólk les stutta kafla og notar fremur til stuðnings en afþreyingar. Skáldsögur hafa alltaf verið mikill minnihluti þess sem fólk les hvort eð er, minna en 25% af bóksölu og aðeins örlítill hluti annars útgefins efnis. Það er gott að hafa í huga að metsölubók Íslands ár eftir ár (já það er Símaskráin) er núna að mestu notuð á neti. Þegar umtalaðasta skýrsla síðari ára á þessu landi lítur dagsins ljós síðar í mánuðinum, velja flestir vefútgáfu hennar.
Fólki er illa við að borga hátt verð fyrir lög, myndir eða texta sem er ekki til eignar. Búnaður fyrir aðgangsréttindi (Digital Rights Management, DRM) er ekki vinsæll hjá fjöldanum ef hann hamlar venjulegri notkun og afritun. Fólk vill ekki þurfa að nota sérstakt forrit eða sérstök tæki til þess eins að geta spilað lög, horft á myndir eða lesið texta. Fólki er illa við að borga jafnmikið fyrir rafræna útgáfu eins og prentaða bók. Fólk mun velja útgáfu sem það getur lesið og notað á hvaða tölvu sem er og þá er vafrinn hentugasta tækið. Útgefendur munu þurfa að finna verð, form og útgáfu sem er handhæg og aðlaðandi.
Tim O'Reilly segir hagnað af Safari-bókasafninu vera meiri en tölur sem oft sjást um heildarveltu rafbóka. Safari Books Online byggir á einfaldri áskrift, annað hvort að 10 bókum sem notandi velur í rafræna hillu í hverjum mánuði, eða aðgangi að öllu safninu. Að því leyti er þetta eins og áskriftarsöfnin sem borgarar í Bretlandi og Bandaríkjunum hafa rekið yfir tveggja alda skeið. Það virkar.
Dæmi um áskriftarsafn af gamla skólanum er London Library, 170 ára gamalt með um 7000 meðlimi. Áskrift kostar 395 pund á ári þegar þetta er skrifað. Safnið á gamlar og nýrri bækur og er auk þess með áskrift að rafrænum tímaritum og gagnasöfnum. Sjá http://www.londonlibrary.co.uk/.
Dæmi um áskriftarsafn á vef er Safari Books Online sem geymir tölvubækur O'Reilly, um 8000 titla og býður tvenns konar áskrift að rafbókum fyrir einstaklinga. Fyrir 23 dollara á mánuði má velja 10 bækur í sína hillu fyrir mánuðinn. Fyrir 43 dollara á mánuði má valsa um allt safnið auk þess að hafa aðgang að ýmsu stuðningsefni á vef. Nú er einnig í boði áskrift fyrir 20 dollara á mánuði að meira úrvali bóka og stuðningsefnis á vef. Sjá nánar á http://www.safaribooksonline.com.
22.3.2008 | 00:19
Lífið er LAN
Þessa daga og nætur hittast hópar hér og þar. Þau gömlu tefla eða spila Trivial og fara snemma að sofa. Þau yngri halda uppi pizzugerð og kókframleiðslu (drykknum) í landinu og LAN-a.
Þá varð til þessi setning: Lífið er LAN. Og annar svaraði að bragði: Sem við spilum saman sjö. Og þá kom af sjálfu sér: Nótt eftir nótt.
Lifið heil.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 01:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2008 | 00:03
Internet Explorer 8
1.3.2008 | 00:31
Netscape gengið fyrir ætternisstapa
Í dag, 1. mars 2008, verður hætt að styðja við og þróa Netscape vefskoðarann. Það þýðir ekki að Netscape verði ónothæft um leið. Nýlega notaði ég vefskoðara sem hætt var að styðja við og þróa 1995, um svipað leyti og Netscape var að ryðja sér rúms.
Ætli það hafi ekki verið fyrir fimmtán árum sem nokkrir vinir mínir sem stóðu að rekstri Miðheima, sýndu mér framtíðina í netmálum. Það var Mosaic, fyrsti vefskoðarinn sem setti myndir inn á síðu, í stað þess að opna þær í sérglugga.
Mosaic varð óhemju vinsæll í stuttan tíma snemma á tíunda áratugnum. Haustið 1994 kom Netscape sem var miklu þægilegri í notkun og vann markaðinn. Microsoft fór að markaðssetja Internet Explorer ókeypis með Windows. Það, ásamt því að Netscape var ekki þróað mikið áfram, þýddi að færri og færri notuðu vefskoðarann.
Á grunni kóðans bak við Netscape var búinn til Firefox, sem er sá vefskoðari sem ég nota mest þessi árin.
18.2.2008 | 00:11
Starfsánægja á landsbyggðinni
Eitt af því sem skiptir miklu fyrir landið utan Reykjavíkur er að fá fleiri opinber þjónustustörf, hvort sem það er fyrir hámenntaða eða fólk án langrar skólagöngu.
Eitt verkefni sem er rakið dæmi að verður unnið betur á landsbyggðinni er að fara yfir upptökur umferðamyndavéla í Reykjavík. Þetta er starf sem kostar mannskap því að það er mannlegt auga sem verður að sjá og skrá brotið.
Á landsbyggð er meiri möguleiki að fá fólk til að haldast í vinnu, sætta sig við einhæft starf á föstum launum og að sekta Reykvíkinga.
Ég held að þetta síðastnefnda þýði að ánægja við vinnu haldist mikil og þarna sé innbyggður hvati fyrir marga starfsmenn á landsbyggð að halda sig við efnið. Með fullri virðingu.
Umferð fer vaxandi í Reykjavík um leið og lögregla hefur minni tími til að standa við göturnar í alls kyns veðrum, enda upptekin við að fanga brotafólk af alvarlegra tagi. Myndavélum mun því fjölga og um leið því fólki sem fer yfir upptökurnar úr þeim.
10.2.2008 | 22:04
Asus eee smáfartölvan
Fljótlega fer fólk að sameina utanáliggjandi harða diska og wi-fi búnað eins og gert er í Time Capsule frá Apple. Þá vistar fólk ekki lengur gögn á harðan disk í heimatölvunni, heldur vinnur öll gögn á disk sem liggur annars staðar. Þá koma aðrar kröfur um heimatölvuna en áður.
Asus smátölvan eee kostar minna en 30.000 krónur í Tölvuteki. Hún er ekki með hreyfanlega hluti og þolir þannig alls kyns meðferð sem aðrar tölvur þola ekki. Asus stefnir með henni á sama markað og $100-tölvan sem ætluð var fyrir fátækari hluta heimsins, en hefur slegið í gegn hvarvetna.
Asus eee er með 7" skjá, keyrir Open Office, Firefox, Skype og nokkra leiki á Linux. Fyrir alla almenna vinnu dugir hún ágætlega. Rafhlöðuending er ágæt og þyngdin undir kíló. Hún miðar greinilega við að gögn séu vistuð á utanáliggjandi disk, annað hvort með USB-tengi eða þráðlaust. Flestir munu láta sér nægja minnislykil eða ódýran utanáliggjandi harðan disk til að byrja með, en harður diskur með þráðlausum sendi hljómar einnig ágætlega.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2008 | 17:54
And-evrópskar leitarvélar og fleira gott
Um aldamótin hittust leiðtogar Evrópusambandsins í Lissabon, því þá fóru Portúgalar með leiðtogahlutverk, og settu fram Lissabon-áætlunina um samkeppnishæfni Evrópu. Í stuttu máli átti Evrópa að geysast fram úr Bandaríkjunum (þó þau væru ekki nefnd á nafn) og vera í fremstu röð í heiminum um samkeppnishæfni.
Því miður átti þetta að gerast fyrir tilverknað opinberra stofnana. Í huga margra klingdu orð Hrjúsjoffs (Krusjev), aðalritara Kommúnistaflokks Sovétríkjanna frá 1960 þegar hann lofaði að borgarar þar færu fram úr efnalegri velsæld vestan hafs.
Hér verður því ekki spáð að niðurstöðurnar verði jafn svakalegar og gerðust eystra. Þegar efnaleg velsæld var orðið keppikeflið, var ljóst hvor aðilinn hefði betur. Ef Evrópa ætlar að gera samkeppnishæfni að leiðarhnoða, þá má fara að beina sjónum annað.
Um tíma virtist að vel gengi í Evrópu með þessi markmið, eins og gerist oft í byrjun opinberra átaksverkefna. Peningum er dælt í þessi verkefni og eins og gera má ráð fyrir, eykst bjartsýni. Evran fór að taka við sér í hlutfalli við dollar.
Undir niðri voru engar breytingar. Ósveigjanleg atvinnupólitík þýðir að athafnafólk (ljótt orð í Evrópu) ræður ekki fólk til vinnu nema allt annað sé komið í óefni. Sérstaklega er slæmt að ráða ungt fólk. Það flykkist nú til Bretlands þar sem atvinnuöryggið er minna og betra að fá vinnu (ef þetta hljómar sem þversögn hjá einhverjum lesenda, er bent á að lesa svokallaða hagfræði). Hagvöxtur var mældur í prómillum og styrkjakerfið letur fyrirtæki til breytinga sem þjóna notendum, en hvetur til að þjóna opinberum markmiðum.
Fordildin hjá Evrópusambandinu kom best í ljós þegar ákveðið var að búa til svar við Google. Samkvæmt sambandinu þurfti evrópska leitarvél sem svar við Google. Nú hafði Google ekki verið sérlega and-evrópsk fram að þessu. Undirritaður og margir evrópskir kunningjar hafa notað Google einmitt vegna þess hversu auðvelt var að finna heimildir frá eigin landi þar. Fólk getur gert litla tilraun og slegið inn leitarorð úr þessari færslu í Emblu annars vegar og Google hins vegar og séð hvoru megin niðurstöðurnar birtast. Google var náttúrulega ekki spurning til Evrópusambandsins, heldur gott leitartæki, ætlað að auðvelda fólki lífið og skapa eigendum og starfsfólki sínu ágóða. Það var búið til af fólki árið 1998 sem vissi vel hvað Vefurinn var, lifði og starfaði með hann stöðugt á skjáborðinu. Hversu margir af leiðtogunum í Lissabon árið 2000 gerðu þetta? Svarið er þekkt, en engin verðlaun fyrir að svara 0.
Svo má minna á að markmið Lissabon-áætlunarinnar um samkeppnishæfni árið 2000 var hvorki meira né minna en að Evrópusambandið yrði samkeppnishæfnasta svæði í heimi árið 2010. Lítið á það.
16.1.2008 | 00:24
MacBook Hot Air
Það er þriðjudagskvöld og á heimili mínu er eitthvað að gerast. Ég birtist með venjulegt A4-umslag og opna það, og dreg út ... MacBook heimilisins.
Hún er í hvítu plasti og heilum sentimetra þykkari en tækniundrið sem Steve Jobs var að kynna fyrr í kvöld vestur í Kaliforníu. Auk þess er hún með hraðari gjörva (cpu), stærri harðan disk og jafnstóran skjá. Bíddu við, og kostar líklega rúman helming af því sem MacBook Air í sínu fína pússaða áli mun kosta.
Ef maður kaupir útgáfuna af MacBook sem kom í verslanir fyrir jól, má fá 2,2 Ghz Core 2 Duo gjörva með 800 Mhz braut, svokallað Santa Rosa chipset, fyrir 130.000 krónur. Það er í Apple-búðinni, sem mér skilst að sé ein okurbúlla.
Maður getur fengið sér Dell-fartölvu hjá EJS með sömu grunngerð, Dell Inspiron 1720, sem kostaði í haust 180.000 krónur. Hún kemur í fleiri litum. MacBook Air verður aðeins í pússuðu áli en verður varla ódýrari.
Kaupið, kaupið!
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 01:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.10.2007 | 04:01
Skrúfan hert á ólöglega miðlun efnis
Nú eru horfin af sjónarsviðinu TV links (tv-links.co.uk) og OiNK (oink.cd), sem ég hef ekki fyrir að búa til krækjur fyrir, enda til lítils.
Á TV links var hægt að horfa á þætti og síðan náði meira að segja kynningu í Morgunblaðinu. Þar var haldið fram þeim skilningi að það væri ekki ólöglegt að ná í efni á svona síðu, bara að setja efnið þangað. Dómstólar munu varla taka undir þennan skilning en skiljanlega er dreifingaraðilum meira í mun núna að ná í þá sem dreifa efni ólöglega, heldur en þann aragrúa sem skoðar efnið þar. TV links var lokað 19. október.
OiNK var svo lokað daginn eftir. Þar var hægt að ná í tónlist. Líkt og með Napster og KaZaA munu nú vera komnir nokkrir staðir á vefnum sem bera þetta nafn og reyna að feta í fótspor fyrirmyndarinnar.
Líklega verður líftími svona vefja, sem og P2P-síðna eins og torrent.is, æ styttri héðan í frá. Það þýðir ekki að þau hafi ekki áhrif. Þau verða ósýnilegri og meira milli fólks sem þekkist eða tengist á einhvern hátt, og fari ekki hátt út fyrir þann hóp.
Áhrifin eru einnig mikil á dreifingaraðila sem hafa átt í erfiðleikum með að finna kerfi sem hentar notanda. Eins og staðan er í dag, er það bæði dýrt og óþjált fyrir notanda að ná í efni á löglegan hátt miðað við það að ná í það á ólöglegan hátt. Kerfi til að sjá afnotarétt notanda (Digital Rights Management Systems, DRMS) eru Þrándur í Götu notandans. Þetta gengur ekki að eilífu og notandinn snýr sér annað. Þannig er til dæmis BBC farið að setja mikið af klippum á YouTube.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 04:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.10.2007 | 00:04
Karl Sighvatsson
Má þakka tækninni?
Já, ég held að margt smátt geri margt gott og tæknin er alltaf að hjálpa til með litlum þægindum.
Eitt dæmið er að geta hlustað á þátt um mesta organista íslenskrar dægurtónlistar, Karl Sighvatsson, næsta hálfa mánuðinn. Magnað.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 23:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar