Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kosningin í öryggisráðið

Undanfarinn mánuð hafa orðið mikil tíðindi í efnahag landsins. Einhver hefur lýst því svo að þetta væri eins og að hafa búið með ofdrykkjumanni í mörg ár, sitja nú uppi með skuldirnar og þurfa að borga sukkið.

Þetta má til sanns vegar færa. Nú þegar rykið fellur til jarðar eftir efnahagshrunið verða nokkrar lexíur ljósar. Ein er sú að sannfæring Íslendinga um að þeir séu mestir og bestir þó þeir séu fáir, er stórhættuleg sjálfsblekking.

Hér eftir má taka allan vara á því í hvert skipti sem Íslendingar segjast nota sérreglur af því að þeir séu svo sérstakir. Nei, þið eruð það ekki og þið skuluð fylgja sömu reglum og aðrar Evrópuþjóðir.

Hluti þessarar sjálfsblekkingar er viðleitni í smáu samfélagi til að þagga niður alla gagnrýni. Hvort sem Íslendingar eru gagnrýndir af samlöndum sínum eða öðrum, þá ráðast þeir af krafti og persónulega á hvern þann sem leyfir sér að gera svo.

Sjálfsblekkingin nær um allt þjóðfélagið. Ummæli ráðamanna um möguleika Íslendinga á að komast í öryggisráðið sýna þetta.

Ef þjóðin er nýkomin úr sambúð með ofursukkara fjármálanna má hún ekki hlaupa beint í fangið á sömu manntegund stjórnmálanna.


6,1 segir USGS

Þessi skjálfti kom eins og högg hér í byrjun, en svo komu þrjár greinilegar bylgjur. Það var líkast því að vera í skipi þegar verið er að ræsa stóra aðalvél.

Þegar svona stórir skjálftar verða, eins og 17. og 21. júní 2000, þá er erfitt að greina stærð þeirra afar nálægt. Oft koma betri upplýsingar í byrjun lengra frá, en fræðingar eiga eftir að greina þetta betur.

Ég vildi á meðan vísa á Earthquake Hazards Program hjá bandarísku landmælingunum, U.S. Geological Survey. Þau gáfu upp stærðina 6,7 en hafa nú endurmetið þetta sem 6,1 (opnast í nýjum glugga).

Þau sem vilja lesa meira um skjálfta víða um heim geta litið á forsíðu þeirra (opnast í nýjum glugga).


mbl.is Afar öflugur jarðskjálfti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundaréttur verndar vinnu

Höfundaréttur er gerður til að vernda hugverk, vinnu sem lögð er í að setja saman verk sem byggir að miklu leyti á hugmyndum. Rétturinn þýðir að ýmsir sjá sér hag í að leggja í þá vinnu og gefa hana út. Ef ekki kæmi endurgjald, verndað af höfundarétti, yrði þessi flóra miklu fátæklegri og allir myndu bera skaða af.

Það líta ekki allir þannig á málið og sumir telja að höfundaréttur sé til trafala. Eins og má sjá á umræðu sem Salvör Gissurardóttir kveikti eftir fund Wikifólks á fimmtudaginn, þá sýnist sitt hverjum. Mér finnst meinlegt að sjá hversu margir sem þar tjá sig hafa lítið haft fyrir að kynna sér margslunginn heim höfundaréttar.

Þeir sem lesa þessi orðaskipti þurfa að hafa í huga að vilji margra stendur til að ekkert efni á Vefnum sé varið reglum höfundaréttar.


Hálfur sannleikurinn um dauða Díönu og Dodi

Í september skrifaði ég:

Díana prinsessa er aðalefni frétta í Bretlandi, 46 árum eftir fæðingu hennar og 10 árum eftir lát hennar. Réttarrannsókn á láti hennar hefst á þriðjudag og lýkur um hálfu ári síðar með þeirri niðurstöðu að bílstjórinn Henri Paul hafi verið undir áhrifum lyfja og kófdrukkinn að auki þegar hann ók á burðarsúlu í Pont d'Alma-göngunum á 100 km hraða á klukkustund að morgni sunnudagsins 31. ágúst 1997. Mohammed Al Fayed mun neita að horfast í augu við niðurstöðuna, en það eru fréttir komandi viku einhvern tíma á næsta ári, með hækkandi sól.

Jæja, ég náði að hafa þrjú atriði rétt þarna, en það fjórða bættist við. Nú er hækkandi sól, og Mohammed Al Fayed neitar að horfast í augu við niðurstöðuna, sem var að dauði Díönu og Dodi Al Fayed eru að kenna því að Henri Paul hafi verið undir áhrifum lyfja og kófdrukkinn en líka að papparassarnir hafi átt sinn þátt í drápi þeirra.


mbl.is Mohamed Al Fayed vonsvikinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blessað Vefritið

Nú þykir mér týra á skarinu hjá gamla manninum. Hvorki meira né minna en heilt vefrit vill verða bloggvinur. Með fullri virðingu fyrir því úrvals fólki sem fyllir þennan flokk hjá mér fyrir, þá er ekkert þeirra heilt vefrit.

Ég hef nokkrum sinnum gluggað í ritið en fór núna að skoða betur hverjir skrifa það. Ég þóttist vita áður að þarna færi ungt jafnaðarfólk en af einhverjum ástæðum segjast þau tengjast hvorki stjórnmálaflokkum né félagasamtökum. Gott og vel, en þau fáu nöfn sem ég þekki þarna er ungt jafnaðarfólk.

Veri þau velkomin öll, svo lengi sem ég þarf ekki alltaf að vera sammála þeim!

Samúð þeirra með sjálfum sér er takmarkalaus

Það er sérkennilegt að horfa á hópa mótmæla hækkandi eldsneytisverði, hópa sem reynast svo hafa borgað lægsta eldsneytisverðið í þjóðfélaginu. Hópa sem mótmæla lögum sem ætlað er að auka öryggi á vegum landsins. Hópa sem eiga í viðskiptum og hljóta að velta eldsneytisverðinu yfir á neytandann.

Það hefur síðan komið í ljós að hlutur hins opinbera er lægri hér á landi en á Norðurlöndum og öðrum nágrannalöndum, þannig að eldsneytisverðið er þar með lægra en þar.

Þannig blasir þetta við að fólk á eftir að eiga í viðskiptum við þá sem stöðvuðu umferð til að mótmæla annars vegar hækkandi heimsmarkaðsverði á eldsneyti og hins vegar almennum reglum sem ætlað er að varðveita líf og limi. Þannig reglur eru bæði í Bandaríkjunum, Kanada og í Evrópu. Hvernig íslensk mannslíf verða öðruvísi metin á þröngum vegum landsins er enn óútskýrt.

Hvenær skyldu verða tekin upp mótmæli gegn fólki sem hefur takmarkalausa samúð með sjálfu sér og er tilbúið að skurkast í þjóðfélaginu bara til að viðskiptastaða þess batni? Er ekki hætt við að það verði ansi tímabundið? Hver vill eiga viðskipti við þannig fólk? 


Þrjótagæskan

Það er talað um aumingjagæsku í þjóðfélaginu. Mér sýnist miklu meira um þrjótagæsku. Fyrir nokkrum árum hefði ég kallað þetta Kioísku, en núna er nær að nefna þetta Kallabjarnaísku.

Þá kemur þrjóturinn í sjónvarp og segist saklaus af öllum ásökunum. Svokallaðir fréttamenn hafa ekki fyrir að skoða sakirnar heldur leyfa þrjótunum að væla og setja sig í hvolpastellingar, horfa tárvotum augum framan í þjóðina og fá ofurskammt af samúð. 

Þetta er skylt því heilkenni þjóðarinnar að vera í orði kveðnu mótfallin afbrotum en dást undir niðri að afbrotamönnum ef þeir eru nógu töff. Fáir dásama kók- og spíttneyslu í orði, en sumir vita svo ekkert flottara en að hafa spítthaus nærri sér, gangandi mótormunn, einhvern sem aldrei hefur farið að sofa svo vitað sé.

Spíttararnir eiga meira að segja sinn eigin heimspeking sem skrifar eins og Kerouac á bensedríni um það hvernig þjóðfélagið er allt eins og Stalín spáði. Svo kemur hann í spjallþátt á RÚV. Þáttastjórnandinn, sem lítur út eins og Tweedledee fer að skríkja og segir að heimspekingurinn hafi hraðan heila. Heimspekingurinn má varla vera að því að þakka, nuddar á sér nefið í nítugasta skiptið á korteri og heldur áfram manískri ræðunni um allt og ekkert.

Afbrotamenn eiga skilda samúð og umönnun en það er engin þörf að lyfta þeim á stall. Spítthausar eru úldin tuska. Þrjótagæskan er ein hlið á löghlýðinni millistétt sem vill fá spennufíkn svalað með því að fylgjast með töffurum sem lifa svaðalegar en fólkið gerir sjálft. Önnur hlið á þeim peningi er að dást að listamönnum meira eftir því sem þeir lifa í meira sjálfskaparvíti.


Síðasti framsóknarmaðurinn

Það fer að verða líkt með síðasta framsóknarmanninn eins og fimmta Bítilinn: Þeir ætla engan endi að taka.

Reyndar lítur allt út fyrir að þessi einstaklingur verði ansi fjölmennur á suðvesturhorninu ef svo fer fram sem horfir, jafnvel fleiri en fimmtu Bítlarnir. Það er ekki allt sjálfum Framsóknarmönnum að þakka. Þeir hnakkrífast og gæðablóð eins og Guðjón Ólafur Jónsson og Björn Ingi Hrafnsson sjá rautt en ekki grænt þegar kemur að samflokksmönnum. Önnu Kristinsdóttur var ofboðið og stökk burtu þegar strákarnir fóru að slást. Fleiri ákváðu að þetta vær ekki það sem þeir ætluðu sér í pólitík og kvöddu.

Það er fólk úr öðrum flokkum sem kemur til bjargar, og Valgerður. Meðan hún var í ríkisstjórn skrúfaðist hún fastar og fastar saman þar til hún sagði varla orð. Við hver ráðherraskipti herptist munnurinn saman fastar þar til hann var orðinn örmjótt strik. Svo komu kosningar og Valgerður leystist úr læðingi.

Mér þykir reyndar oflof þegar Össur segir að andstæðingar skjálfi undan penna hennar. Stíll Valgerður er fremur unglingslegur ritarastíll og árásirnar bundnar við persónur fremur en málefni. Hún á hins vegar fína spretti í sjónvarpi. Það leiðir hugann að spurningunni hvort flokkurinn geti lokað á að Bjarni Harðarson komi í fleiri viðtöl.

Ólafur F. Magnússon safnar atkvæðum þessa stundina. Munurinn á lítt dulinni bræði hans gagnvart Tjarnarkvartettinum og rólegri framgöngu Óskars Bergssonar þýðir að atkvæðin safnast ekki hjá Ólafi, heldur Óskari.

Einhverjum kann að þykja þetta samfelld lofræða um Framsókn og ef ekki er fyrir annað skal ég stoppa núna. En það verður lífseigt í síðasta Framsóknarmanninum og hann verður fjölmennari í næstu kosningum en marga órar fyrir.


Fjarlægðin milli Geirs og Ingibjargar

Það er til fólk sem heldur því fram að það sé himinn og haf á milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Þetta fólk heldur fram að annað sé sáluhjálp og hitt sé dauði.

Mig undraði lengi þessar hatrömmu staðhæfingar þegar ég las Morgunblaðið, Herðubreið, Þjóðmál eða kjallaragreinar eftir Hallgrím Helgason. Svo heyrði ég um daginn viðtal við Stefán Jón Hafstein sem lýsti því hvaða bylting það var þegar Hallgrímur kom til starfa hjá honum á Rás 2 í lok níunda áratugarins.

Þá varð mér ljóst að þetta var afskaplega lítill heimur þar sem byltingarsinninn er um það bil sammála þeim sem er verið að bylta, bara aðeins hraðmæltari. Þetta er sá litli heimur þar sem pólitísk fjarlægð milli Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þýðir ódrepandi baráttu milli góðs og ills, veljið eftir því hvar þið standið.

Fyrir þeim sem standa fyrir utan þennan litla heim er þessi fjarlægð álíka og milli eyrnanna á meðalálitsgjafa á Íslandi. Einmitt þess vegna verður þetta fólk að vera svona hatrammt í málflutningi. Þetta er eins og auglýsingastríð milli sáputegunda. Þetta er skrifað meðan Geir og Ingibjörg fljúga til Búkarest. Þau eru ekki í þessum hópi, heldur geta ágætlega unnið saman. Því afkáralegri verður málflutningurinn um muninn á milli þeirra.


London kýs

Eftir mánuð, þann 1. maí, verður kosið um borgarstjóra í London. 10 hafa boðið sig fram en aðeins tveir eru taldir eiga möguleika, Ken Livingstone fyrir Verkamannaflokkinn og Boris Johnson fyrir Íhaldsflokkinn.

Af stjórnmálamönnum í fremstu röð að vera eru þeir báðir litríkir. Livingstone bauð sig fram árið 2000, í fyrsta skipti þegar þessar kosningar voru haldnar. Í prófkjöri fékk hann meirihluta flokksmanna á bak við sig en forystan valdi Frank Dobson sem opinberan frambjóðandia flokksins. Livingstone bauð sig engu að síður fram, sem óháður, og vann auðveldlega.

Steve Norris varð frambjóðandi Íhaldsflokksins í þessum kosningum þegar Jeffrey Archer var dæmdur fyrir að bera ljúgvitni. Honum gekk sæmilega en hafði ekki roð við Livingstone. Í kosningunum 2004 tókust þeir á og enn sigraði Livingstone.

Hann þótti of róttækur fyrir Verkamannaflokkinn árið 2000 en árið 2004 sá flokkurinn að hann var á sigurbraut og tók hann inn á ný. Það má þykja merkilegt að í jafn mikilli fjármálaborg og London skuli einn af þeim sem kallað var villta vinstrið (loony left) á níunda áratugnum sitja í borgarstjórastól. Livingstone hefur mært Castro og leitað samstarfs við Hugo Chavez þannig að hann er ekki hátt skrifaður hjá hægrisinnum. Þetta þykir mörgum íbúum London vænt um. Hann hefur beitt kröftum sínum að umferðarmálum sem eru stærsta vandamál stórborgarinnar.

Hann innleiddi umferðarskatt (congestion charge) í miðborginni, sem nú hefur verið færður út og nær yfir allan vesturendann. Féð af skattinum hefur verið notað til að bæta strætisvagna borgarinnar þar sem jarðlestakerfið annar ekki meiru en það flytur í dag.

Livingstone hefur meðal annars látið taka í notkun beygjustrætó, eða langa strætisvagna með liðamótum. Þeir taka 140 farþega á móts við 90 farþega sem geta farið með hefðbundnum tveggja hæða vögnum.

Nú vill Boris Johnson taka þessa beygjuvagna úr umferð og fjölga aftur tveggja hæða strætóum. Segja má að munurinn millli þessara höfuðandstæðinga í breskum stjórnmálum geti varla orðið minni og ekki líklegt að fólk flykkist bak við Johnson með svona stefnumál. Hann er sjarmatröll, með hár líkt og heysátu en á til að verða illilega fótaskortur á tungunni.200px Boris Johnson

Hann hefur verið ritstjóri Spectator en það er ekki að heyra á ræðumennsku hans. Hann á erfitt með að klára setningar og hljómar oft eins og hann viti ekki hvar hann ætli að enda.

Eins og mál standa virðist aðalbaráttuaðferð íhaldsmanna ætla að verða að halda Boris sem lengst frá því að lenda í kappræðum við Ken. Þeir hafa ráðið Lynton Crosby sem stýrði þremur árangursríkum kosningum í Ástralíu fyrir John Howard, en einnig þeirri sem hann tapaði nýlega. Crosby stýrði einnig kosningabaráttu íhaldsmanna í síðustu þingkosningum, sem ekki gekk vel.

Almennt má ætla að Livingstone vinni enn einu sinni. Hann er nú búinn að vera í pólitískri baráttu síðan á áttunda áratugnum. Hann fæddist á árs afmæli íslenska lýðveldisins, þó það hafi líklega ekki verið ofarlega í huga foreldra hans í Lambeth í lok styrjaldarinnar, í sundurskotinni borg. 19 árum og tveimur dögum síðar fæddist Boris Johnson í Bandaríkjunum með silfurskeið í munni, gekk í Eton og Oxford meðan Livingstone atti kappi við Thatcher. Hún lét leggja niður Greater London Council, borgarráð London þar sem Livingstone átti vígi sitt. Það var síðan Livingstone sem vann baráttuna um aldamótin meðan íhaldsmenn ganga enn eyðimerkurgöngu sína. Það kann að breytast í næstu þingkosningum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband