Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
20.3.2010 | 12:32
Það sem enginn frambjóðandi segir
Það blasir við þegar keyrt er um höfuðborgarsvæðið. Það æpir á þig og það vita það allir. Það var kapphlaupið að úthluta lóðum, kapphlaupið að þóknast athafnafólkinu, kapphlaupið að skipuleggja þannig að aðalskipulagi var umturnað á þriggja mánaða fresti, deiliskipulag beið eftir nýjasta útspili verktakanna og hundrað ára gömul hús áttu líf sitt undir stýrivaxtastiginu hverju sinni. Það er morgunljóst.
Svarið er augljóst öllum sem vilja hugsa en enginn má segja þetta. Að minnsta kosti hef ég ekki séð neinn af þessum fjölmörgu snjöllu frambjóðendum segja þetta. Það hljóta því að vera til reglur sem banna að minnst sé á þetta þó ég hafi ekki séð þær. Þau eru kannski í handbók sveitarstjórnarframbjóðenda.
Auðvitað þarf að sameina sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Svæðið er ein atvinnuheild, ein skipulagsheild. Það eru alveg nægjanleg rök að geta forðað því að aftur tapist þó ekki sé nema eins og nokkrir af þeim milljörðum sem fóru í súginn 2007 og 2008, þá verða þessi sveitarfélög að sameinast.
Ég hef heyrt fólk sem þekkir vel til segja að þar skapist of sterkt sveitarfélag miðað við landsbyggðina. Svarið er að það eru ekki til of sterk sveitarfélög og að hlutskipti landsbyggðarinnar er ekkert betra ef það eru 7 sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu fremur en eitt.
19.3.2010 | 17:03
Bankar og fé almennings
Tölur um hagnað bankanna á fyrsta áratugnum sýna að þar var búin til mynd af svo ævintýralega sniðugu fólki að það gat búið til virðisauka með einu símtali sem tekur venjulegt fólk meira en ævina að búa til í sinni vinnu. Þetta var barnslegur tilbúningur bankanna, engin mistök, enginn misskilningur. Allt var þetta gert til þess að stjórnendur bankanna gætu reiknað sér ævintýraleg laun sem voru ekki fengin með neinu öðru en virðisauka sem aðrir höfðu lagt til.
Hér verður ekki sagt að það sé ekki gáfað fólk í bönkunum. Bónusar upp á ein mánaðarlaun eða svo til venjulegra starfsmanna eru engan veginn röng í góðu gengi eins og var lengst af.
Það sem var og er rangt eru margföld heildarlaun venjulegs launafólks, fyrir það eitt að að vera í stöðu til að sjá um og meðhöndla fé. Margföld árslaun vísindafólks sem nýtur viðurkenningar um allan heim, margföld árslaun þeirra sem hafa byggt yfir okkur hús, vegi undir okkur eða veitur til okkar? Alrangt og ekkert nema tilbúningur.
Hvað gerir samfélagið við fólk sem reiknaði sér hagnað sem það átti að sjá um að ávaxta, til launa og bónusgreiðslna fyrir sjálft sig í stað þess að láta þá fá arðinn sem lögðu til féð?
Raunin varð mesta virðisminnkun sem sést hefur í mannkynssögunni, þrátt fyrir að allur gróði góðu áranna væri reiknaður með. Þegar upp var staðið hafði verið gengið í sjóði sem höfðu verið byggðir upp á löngum tíma til að fullnægja þörfinni fyrir ódýrt fjármagn. Með kostnaðinum af hruninu og því að vinna sig út úr vandanum er þetta svo mikil skuld við samfélagið að tjónið líkist langvinnri styrjöld.
18.3.2010 | 16:29
Bankar og fólk sem brýtur reglur
Þegar bankarnir hafa undanfarið samið við gamla eigendur stórfyrirtækja sem hafa getað tekið við vel niðurskrifuðum skuldbindingum til að halda áfram með rekstur, hefur verið sagt að ódæmdir menn verði að geta starfað í viðskiptum. Það er rétt.
Fólk getur þó brotið reglur án þess að það hafi farið á Hraunið fyrir bragðið. Það eru þau sem hafa brotið jafnræðisreglu almannahlutafélaga með gífurlánum sem tryggt var að yrðu lántakendum aldrei að tjóni. Það gildir um alla sem að þeim málum hafa komið, beggja vegna borðsins, svo ekki sé minnst á þá sem virðast hafa einmitt setið beggja vegna borðsins í einu og sama andartakinu (enn eitt staðfest dæmið um ofursnilli íslenskra fjármálamanna).
Eigendur fyrirtækja sem ekki skila ársreikningum hljóta smávægilega sekt fyrir. Þeir eigendur, umráðamenn og ábyrgðarmenn hafa einnig brotið reglur.
Ef stjórnir bankanna eru síðan komnar í þann leik að ákveða sjálfar hvaða brot teljast nógu alvarleg til að ekki sé hægt að skipta lengur við menn, verða yfirvöld að afturkalla starfsleyfi og láta erlenda banka um að taka við búinu. Almenningur mun á engan hátt skaðast.
17.3.2010 | 16:32
Siðleg ábyrgð fyrirtækja
Fyrirtæki er gott íslenskt orð, líkt og orðið félag. Bæði orðin lýsa því em ráðist er í. Ef fólk tekur sér eitthvað fyrir hendur, þá er það fyrirtæki. Ef fólk vill gera þessa starfsemi formlega stofnar það félag. Þá leggja það fé með öðrum i fyrirtækið.
Fólk er persónur að lögum, getur tekið á sig skuldbindingar og á réttindi. Það sama gildir um fyrirtæki og önnur félög, þau eru lögpersónur með réttindi og skyldur. Það standa rök til þess að mynda megi félög um áhættusaman rekstur og takast á hendur takmarkaðar skuldbindingar gagnvart þeim sem eiga viðskipti við fyrirtækið. Þeir gera sér grein fyrir þessari takmörkun og vinna eftir því. Það standa ekki rök til þess að fyrirtækið fái að haga sér á sama hátt gagnvart þeim sem það á ekki viðskipti við.
Samt hegða margir sér eins og það eitt að stofna fyrirtæki firri þá allri ábyrgð eða því sem næst. Þessu hafa verið gerð góð skil í bókinni The Corporation og í samnefndri mynd. Þar sem fyrirtæki eru mannanna verk hljóta forsvarsmenn þeirra að bera ábyrgð á þessum verkum sínum eins og öðrum. Takmarkaða ábyrgðin gildir bara í viðskiptum.
Ef gerðar eru kröfur um siðlegt framferði til einstaklinga í viðskiptum hljóta sömu kröfur að gilda um þau félög sem einstaklingarnir mynda. Þó mál verði aldrei jafn einföld þegar félag á í hlut eins og þegar einhver einn á í hlut, þá er hægt að miða við að framferði sem við myndum ekki leyfa einstaklingum, það leyfum við ekki sama fólki sem hefur gert það eitt að mynda félag. Þá erum við bara komin í tilbúning.
16.3.2010 | 17:24
Mest notaði rafbókalesarinn
Þegar umtalaðasta skýrsla síðari ára á þessu landi lítur dagsins ljós síðar í mánuðinum, velja flestir vefútgáfu hennar.
Rafbækur eru ekki bækur. Það er ein ástæðan fyrir því að þú heldur ekki á einni slíkri núna. Bækur eru fínar til síns brúks og eru ekkert að hverfa núna, ekki fremur en um síðustu aldamót þegar þú hefur kannski fengið að heyra að þær væru að hverfa.
Líkt og með pappírslausu skrifstofuna er stóra spurningin, til hvers? Þegar þú ert engu betur sett með rafbók en venjulega bók, þá kaupirðu hana ekki. Fyrst þarftu að setja pening í misdýra rafbókalesara eða að minnsta kosti fartölvu sem ræður við þetta. Helst viltu hafa græju eins og iPad, með alvöru skjá og sem ræður við meira en bara að birta bækur. Þar fóru 100 þúsund, og þú hefðir getað keypt 20 bækur í staðinn.
Svo er það spurningin um að eiga bækur. Allt viðskiptamódelið með rafbækur hefur gengið út á að fólk verði að kaupa sig inn í eitt eða tvö lokuð form, að sjálfsögðu þannig að fólk getur ekki afritað með góðu móti. Í raun kaupir fólk aðeins aðgangsréttindi að bókunum eða lesefninu. Dæmin hafa sýnt að bækur hverfa í orðsins fyllstu merkingu úr rafbókalesaranum þegar samningar milli dreifingaraðila bregðast. Það kórónaði kaldhæðni þeirra örlaga þegar bókin 1984 féll út af Kindle-lesurum eftir að Macmillan dró til baka leyfi til Amazon.
Mest notaði rafbókalesarinn er þó fyrir framan þig og þú ert að nota hann einmitt núna til að lesa þessi orð. Yfir 99% af öllu lesefni öðru en á pappír er lesið með vafra. Hann hentar vel til að lesa dæmigerðan texta á neti, þar sem fólk les stutta kafla og notar fremur til stuðnings en afþreyingar. Skáldsögur hafa alltaf verið mikill minnihluti þess sem fólk les hvort eð er, minna en 25% af bóksölu og aðeins örlítill hluti annars útgefins efnis. Það er gott að hafa í huga að metsölubók Íslands ár eftir ár (já það er Símaskráin) er núna að mestu notuð á neti. Þegar umtalaðasta skýrsla síðari ára á þessu landi lítur dagsins ljós síðar í mánuðinum, velja flestir vefútgáfu hennar.
Fólki er illa við að borga hátt verð fyrir lög, myndir eða texta sem er ekki til eignar. Búnaður fyrir aðgangsréttindi (Digital Rights Management, DRM) er ekki vinsæll hjá fjöldanum ef hann hamlar venjulegri notkun og afritun. Fólk vill ekki þurfa að nota sérstakt forrit eða sérstök tæki til þess eins að geta spilað lög, horft á myndir eða lesið texta. Fólki er illa við að borga jafnmikið fyrir rafræna útgáfu eins og prentaða bók. Fólk mun velja útgáfu sem það getur lesið og notað á hvaða tölvu sem er og þá er vafrinn hentugasta tækið. Útgefendur munu þurfa að finna verð, form og útgáfu sem er handhæg og aðlaðandi.
Tim O'Reilly segir hagnað af Safari-bókasafninu vera meiri en tölur sem oft sjást um heildarveltu rafbóka. Safari Books Online byggir á einfaldri áskrift, annað hvort að 10 bókum sem notandi velur í rafræna hillu í hverjum mánuði, eða aðgangi að öllu safninu. Að því leyti er þetta eins og áskriftarsöfnin sem borgarar í Bretlandi og Bandaríkjunum hafa rekið yfir tveggja alda skeið. Það virkar.
Dæmi um áskriftarsafn af gamla skólanum er London Library, 170 ára gamalt með um 7000 meðlimi. Áskrift kostar 395 pund á ári þegar þetta er skrifað. Safnið á gamlar og nýrri bækur og er auk þess með áskrift að rafrænum tímaritum og gagnasöfnum. Sjá http://www.londonlibrary.co.uk/.
Dæmi um áskriftarsafn á vef er Safari Books Online sem geymir tölvubækur O'Reilly, um 8000 titla og býður tvenns konar áskrift að rafbókum fyrir einstaklinga. Fyrir 23 dollara á mánuði má velja 10 bækur í sína hillu fyrir mánuðinn. Fyrir 43 dollara á mánuði má valsa um allt safnið auk þess að hafa aðgang að ýmsu stuðningsefni á vef. Nú er einnig í boði áskrift fyrir 20 dollara á mánuði að meira úrvali bóka og stuðningsefnis á vef. Sjá nánar á http://www.safaribooksonline.com.
6.3.2010 | 20:42
Iceland's referendum
Today, Iceland held its first national referendum since the republic was voted in 66 years ago. As I write this, an hour before voting closes, the Nays have it by about 80% or so. Nay is exactly how an Icelander says no, so you see how democratic we are. I said Yes.
Why did the Icelanders say Nay with such an overwhelming majority? Dagur Sigurðarson, the poet and painter, told me a story from the war one time. Two Finns had gone to Berlin on business. This was early on in the war, some time after the invasion of the Soviet Union. The Finns want to have a good time but the only thing they can find is some Russian vodka, so they settle down for some serious drinking and get properly smashed. That night after the Finns have gone to sleep, the first big air attack on Berlin destroys most of the neighbourhood, but miraculously leaves the hotel they stay in intact. In the morning, the first Finn wakes up and has a look out the window. He wakes up the other one and tells him, we can never pay for all of this.
This is how many Icelanders have felt about the Icesave affair. They simply see this as something for which they have no responsibility and do not intend to pay. I see the matter a bit more complicated than that. I surely had nothing to do with setting up any Icesave accounts and have no personal legal obligation. Collective responsibility is another thing and I don't think Iceland would get very far if all nations would have left account holders penniless in the big crunch of 2008. I believe Iceland actually has a vested interest in the European (yes that includes the UK) economy. Over half of our exports go to Europe and more than half of our imports come from there. This is how it's been for the last 100 years. If we were to give UK and the Netherlands the economic finger, more will follow. My reason for voting Yes is that I want to show an interest in getting a result in the matter. I believe we will have to try and get the payments renegotiated at a later stage.
Iceland is in dire need of capital in the next couple of years and we cannot act as if we are an island, even if we are one.
28.8.2009 | 07:12
Afneitun, reiði og söknuður á því herrans ári 2009
Afneitun, reiði, gremja yfir því hvað þetta er allt ósanngjarnt, að leita undankomuleiða, söknuður og hryggð, að sætta sig við það sem verður ekki umflúið. Þetta er bara kenning um þau fimm stig sem fólk gengur í gegnum þegar dauðinn er innan augsýnar, ef fólk fær ráðrúm til þess. Þetta hljómar nokkuð kunnuglega í öðru samhengi.
Einn hópur fólks er enn staddur á því herrans ári 2007 í anda að minnsta kosti. Allt sem gert var á Íslandi fram að þeim tíma var rétt að þeirra mati. Hrunið kom að utan, það var Seðlabankanum að kenna að vilja ekki lána bönkunum þegar á þurfti að halda (og taka sjálfir lán hjá Bayerische Landesbank þannig að Glitnir fékk ekki það sem áður hafði verið lofað), það var útrásarvíkingunum að kenna, að minnsta kosti ekki mér og mínum.
Annar hópur er staddur í tíma ársins 2008. Reiði og gremja yfir hvað þetta er allt ósanngjarnt ræður ríkjum hjá þeim. Það var farið illa með Ísland, beitt hryðjuverkalögum gegn friðsamri þjóð, ráðist á þá sem áttu í peningamarkaðssjóðum, ráðist á skuldara, ráðist á allt sem áður var heilagt.
Þriðji hópurinn er að leita undankomuleiða. Það var það sem gerðist 2009. Þá er reynt að semja við Icesave-skuldunauta til að kaupa andrúm í sjö ár. Hluti þjóðarinnar finnur undankomuleið í vinnu á Norðurlöndunum. Einhverjar aðgerðir eru hafnar að sætta skuldara við hlutskipti sitt svo að þeir hverfi ekki.
Við munum síðan taka á móti nýju ári með söknuði og hryggð. Þau sem eftir verða á landinu þreytast á því að ræða endalaust við þá reiðu um hvað allt sé ósanngjarnt, þreytast á þeim sem enn eru í afneitun og þreytast á því að hugsa um hvað lífið sé miklu betra á Norðurlöndunum. Þau munu finna sér hugsvölun í öllu því sem er nógu langt frá þessum leiða raunveruleika, dimma, rigningarfulla og skuldsetta veruleika. 2010 verður tími sögulegra skáldsagna, sætsúrra gamanleikja og fantasíubíómynda.
Svo kemur árið þar á eftir og árið þar á eftir og árið þar á eftir. Það verður náttúrulega að sætta sig við það sem hefur gerst. Það fer bara að verða erfiðara og erfiðara fyrir þann hóp fólks sem á að skilja eftir í súpu ársins 2008 með síhækkandi skuldir og engar leiðir út.
Kenningin sem vitnað er í er kennd við Elisabeth Kübler-Ross sem setti hana fram árið 1969 í bókinni On Death and Dying.
30.4.2009 | 18:58
Íslenska orðið kreppa komið á síður heimsblaða
Í Economist sem kemur út í London í fyrramálið er grein um nýliðnar kosningar hér. Löng ferð fyrir fyrrum flugfreyju, segir þar.
Íslenska orðið kreppa kemst þarna í heimsfréttirnar í óbrenglaðri mynd.
Economist kynnti lengi Davíð sem fyrrum skemmtikraft (former radio comedian) og nú er Jóhanna einnig kennd við fyrri verk sín þar.
24.4.2009 | 07:39
Dómur yfir stjórnmálamönnum
Margir halda því fram í mín eyru að þessi eða hinn stjórnmálamaðurinn hafi brotið lög undanfarin ár. Þar til ég fæ að sjá eitthvað handfast í þessu verð ég að leiða þetta hjá mér.
Ef ég hefði eitthvað í höndunum sem sýndi að stjórnmálamenn eða aðrir hefðu brotið lög myndi það ekki koma fram hér, heldur myndi ég snúa mér til þeirra sem rannsaka svona mál.
Hins vegar tel ég hægt að dæma stjórnmálamenn fyrir verk þeirra án þess að þeir hafi brotið lög. Það er einfaldlega sá dómur sem fellur nú á laugardag.
23.4.2009 | 10:49
Kvótinn, á að laga hann eða vilja menn bara meira
Aldrei hef ég séð kvótakerfið sem eitthvert undrakerfi heldur illskásta kostinn í stöðunni. Hér verður að vera veiðistjórnun og í sóknarkerfinu sem var hér lengi var alltaf veitt mikið fram yfir heildarkvóta.
Ég ber ekki mikla virðingu fyrir óréttlætinu sem felst í núverandi kerfi og sé ekki hvernig veiðireynsla þriggja ára á níunda áratugnum á að vera grundvöllur fyrir eignamyndun um aldur og eilífð.
Ég hef lagt sitthvað á mig til að finna hvað gagnrýnendur kvótakerfisins vilja setja í staðinn og hef helst séð tvennt, að nota færeyska kerfið og svo hörð krafa um miklu hærri kvóta. Um allan heim sé ég afleiðingar þess þegar látið er undan kröfum um hærri kvóta, með þeim ummælum að annars missi fólk vinnuna. Þá er stutt í að stofnar hrynji. Dæmin um þetta eru óteljandi og bætist stöðugt við á hverju ári í flestum löndum öðrum en Íslandi.
Einn versti galli núverandi kvótakerfis er óöryggi litlu plássanna um það hvar kvótinn verður næsta ár. Ég sé nokkrar leiðir sem geta bætt þetta að einhverju leyti, eins og að bátar yfir ákveðinni stærð fái aðeins að veiða utan ákveðinna marka, til dæmis 4, 6 eða 12 mílur. Innan þeirra fái aðeins bátar sem eru til dæmis undir 15 brúttótonnum að veiða en verði einnig undir kvóta þar.
Ég óska mínum örfáu lesendum gleðilegs sumars og vona að vetur eins og þessi komi ekki aftur!
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar