Leita í fréttum mbl.is

Meistarar í aprílgöbbum

Á þessum degi er rétt að benda á Íslandsmeistara í að láta aðra hlaupa apríl. Þessir meistarar eru svo góðir að fólk hleypur árið um kring, ár eftir ár eftir vitleysunni. Hér eru bestu göbb þeirra:

Krónan er besti kosturinn fyrir Ísland. Láttu þig lifa í þeirri óvissu og við það gengistap sem fylgir krónunni árið um kring, ár eftir ár eftir ár. Þú átt ekki rétt á að búa við sterkari gjaldmiðil, því þú ert Íslendingur.

Hagsmunaaðilar að hverju máli á Íslandi eru aldrei þjóðin, heldur alltaf lítill hópur sem fær að sitja að starfsemi á hverju sviði fyrir sig og njóta ein afrakstursins.

Auðlindaskattar eru þjófnaður, eða í besta falli til þess fallnir að gera rekstur erfiðan. Það eru alltaf til ástæður fyrir að greiða ekki fyrir afnot af auðlindum landsins og hafsins.

Þjóðin getur ekki átt eign. Hópur eins og fjölskylda, eða fimmtíu fjölskyldur geta átt eign, en ekki fimmtíuþúsund fjölskyldur þó skrá yfir alla í hópnum sé færð frá degi til dags og aðgengileg á vef á margvíslegan máta.

---
Svo er rétt að rifja upp gömul aprílgöbb sem gengu ár eftir ár, árið um kring en eru núna orðin svolítið trosnuð. Þó má hugsa sér að nota þau síðar, eftir svona tuttugu ár þegar allir eru búnir að gleyma.

Innherjaupplýsingar eru ekki til á Íslandi af því að allir vita allt sem gerist í viðskiptum.

Spilling er engin á Íslandi. Þetta var svo augljóst að það þurfti ekki að færa nein rök að þessu alla tuttugustu öldina. Í versta falli var sagt að öll spillingin væri uppi á borðinu.

Hér er allt eins og best verður á kosið, nema að það vantar reyndar örlítið meira frjálsræði í viðskiptum. Þetta aprílgabb var ansi heitt á þessari öld allt fram til 2008.


Öryggið leyfir fólki að taka sjálft áhættuna

Öruggt þjóðfélag með öruggan efnahag leyfir einstaklingnum að taka áhættuna sjálfur en vera ekki leiksoppur þjóðaráhættunnar. Reynsla fyrsta áratugar þessarar aldar sýnir á hinn bóginn hvar þarf að herða reglur fyrir viðskiptalífið, sem hvorki tryggði hagsmuni eigenda né viðskiptavina.

Margir vilja draga stóru drættina í vestrænum heimi sem annars vegar evrópska þjóðfélagið með miklu félagslegu öryggiskerfi, iðnað og þjónustu í föstum skorðum þar sem stéttarfélög ráða miklu og hins vegar bandarísk-engilsaxneskt þjóðfélag með færri reglum og meira svigrúmi fyrir einstaklinginn til athafna.

Þetta mynstur hefur verið til um langa hríð og fólk hefur komið auga á nokkrar þversagnir í þessari mynd. Hvers vegna eru svo margir frumkvöðlar frá Svíþjóð, sem að margra mati var í fararbroddi þess sem hér er kallað evrópskt þjóðfélag um aldarskeið, þar á meðal ríkustu fjölskyldur Evrópu sem grætt hafa stórfé á snjöllum uppfinningum og hönnun? Án þess að hæla sænsku þjóðfélagi sérstaklega, þá sé ég einmitt ekki þversögn í þessu.

Við höfum búið við þjóðfélag sem aflétti reglum og opnaði fyrir viðskipti allt frá níunda áratugnum. Það var engin vanþörf á því og nú er leitun að fólki sem vill fara aftur til þeirra reglna sem þá giltu. Það er leitun að þeim en þau eru samt vel finnanleg í fleiri en einum stjórnmálaflokki. Með bættri fjármálastjórn hins opinbera á tíunda áratugnum horfði þetta allt til framfara. Það á að halda áfram á þeirri braut en ekki fara til baka.

Reynsla fyrsta áratugar þessarar aldar sýnir á hinn bóginn hvar þarf að herða reglur fyrir viðskiptalífið, sem hvorki tryggði hagsmuni eigenda né viðskiptavina. Þá kemur að örugga þjóðfélaginu sem hefur betur náð að tryggja þessa hagsmuni. Það hefur ekki komið í veg fyrir þróttmikið frumkvöðlastarf og nýsköpun á Norðurlöndunum, sem fleytir þeim núna í gegnum kreppuna án stóráfalla. Opinber sjóður með eignir upp á meira en ársframleiðslu Noregs hefur þýtt að norska þjóðin stendur núna með pálmann í höndunum í fjármálakreppunni. Þrátt fyrir það sem haldið hefur veirð fram á Íslandi er olíusjóðurinn norski alopinber og alls ekki einkarekinn.

Öryggið leyfir einstaklingnum að taka áhættu og gera hlutina sjálfur. Það þýðir einnig að einstaklingar og fyrirtæki sem reyna að byggja upp á eigin spýtur þurfa ekki að lifa við efnahagsástand þar sem utanaðkomandi áhrif hafa alltaf meiri áhrif en gerðir þeirra sjálfra.


Sumartími

Sumartími er kominn í Evrópu og Bandaríkjunum, þó að víða sé vorið komið skammt á veg. Nú munar einum tíma á okkur og Bretlandi og tveimur tímum á okkur og Mið-Evrópu. Fólk spyr af hverju er ekki komið á sumartíma á Íslandi og svarið er einfalt, það er sumartími árið um kring hjá okkur.

Yfirleitt er sumartími þannig við að klukku sé flýtt um einn tíma á sumrin, þannig að sólin komi upp um sjöleytið í stað þess að koma upp um sexleytið. Þá sest hún ekki fyrr en um sjöleytið í lok mars og um níuleytið í London í lok júní. Klukka hér er þannig árið um kring og kemur sólin upp klukkutíma á eftir raunverulegum tíma á Austurlandi, um klukkutíma og korteri á Akureyri og einum og hálfum tíma á eftir í Reykjavík. Ef við myndum flýta klukkunni í lok mars eins og Evrópuþjóðir værum við á því sem kallað er tvöfaldur sumartími. Sólin kæmi þá upp um áttaleytið í lok mars.

Nú berast fréttir frá Bretlandi sem segja frá baráttu fyrir slíku kerfi þar, svokölluð 10:10-hreyfing.

Einhverjir vinnustaðir auglýsa opnun klukkutíma fyrr á sumrin. Mér fannst merkilegt að heyra umræðu um að framhaldsskólanemar ættu erfitt með að koma sér á lappir í mesta skammdeginu. Þetta er einmitt það sem við ræddum um í MH fyrir 30 árum síðan og vildum að kennsla byrjaði klukkutíma seinna. Þá lærðist mér einföld íslensk rökfræði og ég á ekki við kennslubók Guðmundar Arnlaugssonar sem Eygló Guðmundsdóttir kenndi okkur. Nei, þá fengum við að vita að kennarar hefðu rætt þetta og vildu þetta ekki. Þar með var endir umræðu. Þó við vildum vita hvort kennarar gætu til dæmis unnið við annað en sjálfa kennsluna fyrsta klukkutímann var umræðan tæmd, búin.


Niðurskurður er góður fyrir aðra

Niðurskurður í heilbrigðis-, félags- og menntamálum er í góðu lagi meðan maður lendir ekki í honum sjálfur eða einhver sem stendur nærri manni.

Það er fyrst þegar á reynir og einhver nákominn lendir í að veikjast eða slasast, sem þú veist hvað það kostar að hafa ekki það sem til þarf til að koma fólki til heilsu.

Það er fyrst þegar þú lendir í því að veikjast, að þú finnur hvaða máli það skiptir að launþegahreyfingin hefur unnið í meira en hundrað að því að auka rétt þinn til launa og félagslegra styrkja, bæði utan þings og innan þess.

Það er fyrst þegar þú hugsar um hversu margir í þinni fjölskyldu luku háskólanámi fyrir hundrað árum og hversu margir gera það í dag, sem þú sérð muninn á því að geta lokið því sem margir telja sjálfsagt.

Ekkert af þessu er sjálfsagt, allt var það unnið með baráttu. Hvernig væri það núna ef við hefðum sjóði líkt og Norðmenn, til dæmis ef búinn hefði verið til Auðlindasjóður með framlagi fyrir afnot af fiskveiðum og orkulindum?

Skoðanir eða skálkaskjól

Það sem kallað er fræðileg umræða á Íslandi er alltof oft einfaldlega það að fólk skellir fram sínum skoðunum og reynir að finna rök að þeim eftir að hafa myndað sér skoðun. Það heitir einfaldlega friðþæging á íslensku.

Dæmi um þetta er þegar höfuðborgarbúar sem eru vanir að fara út á land einu sinni á sumri eða svo og hrökkva í kút ef þeir sjá einhverjar breytingar. Þá verður landið friðheilagt í þeirra augum, en aðeins ef það er utan suðvesturhornsins. Þá er hægt að friða land ef það er nógu langt frá Reykjavík meðan sams konar framkvæmdir ganga óhindrað ef þær gagnast Reykvíkingum. Það er ekkert jafnræði milli kosta og um leið enginn siðlegur grunnur, bara geðþóttaákvörðun sem er sett í mynd röklegrar umræðu.

Það er fallegt að eiga þá hugsjón að enginn hernaður ríki í veröldinni og enginn þurfi að verja sitt land. Það er annar handleggur þegar fólk lýsir því yfir að Ísland eigi að vera herlaust en vill um leið ekki að það sé varnarlaust. Þá er það búið að kalla eftir því að aðrar þjóðir sjái um að verja landið, helst þannig að þær komi þó aldrei hingað. Þetta hefur engan siðlegan grunn og verður ekki rætt röklega, þó að margir láti svo.
 
Svona má leika sér lengi og alltof margir þiggja laun fyrir leikinn. Sannleikurinn er að þegar fólk ætlar sér í stjórnmál til þess eins að gera upp á milli löglegra atvinnugreina, þá skyldu allir vara sig á þeim. Þá er búið að skipta út snarvitleysu gróðaáranna með viðskiptatrúnni, fyrir geðþóttaræði þar sem stjórnmálamenn ákveða hvaða atvinnugreinar skuli þóknanlegar og hverjar ekki. Fólk þarf hvorugan kostinn og á að kjósa hvoruga vitleysuna. Trú á geðþótta einstakra stjórnmálamanna er ekki betri en trú á tæra snilld viðskiptamanna, sem þóttust eiga fé.

Mikið af umræðunni á blogginu er undir sama hatti, en félagsleg útgáfa af friðþægingunni: Fólk finnur sér einhverja með svipaðar skoðanir og það sjálft og heldur að skoðanir verði sannari eftir því sem fleiri halda þeim fram.

Fræðin leysa ekki allan vanda ein og sér

Það er gott og gilt að fást við fræði. Margir telja að hægt sé að leysa öll vandamál með því að beita fræðilegri nálgun á allt. Nóg sé að ræða alla hluti þar til þeir eru leystir. En heimurinn er ekki kennslustofa í háskóla.

Gott háskólanám er gott vegarnesti, hjálpar þegar fólk er farið að vinna faglega vinnu. Fræðimennskan er hins vegar ekki fagleg vinna nema fyrir þau sem fást við kennslu eða rannsóknir. Það gera ekki allir, meira að segja ekki allir sem vinna í háskólum.

Því miður sé ég hér stóran hóp af fólki sem heldur að umræðan sé upphaf og endir alls. Það eru miklar takmarkanir á þessum hugsanagangi. Honum hefur fylgt hroki í garð framkvæmda, vinnu og sérstaklega iðnaðar, nema þá helst iðnaðar sem er orðinn nógu gamall (ekki verra ef fræðifólkið hefur alist upp við þennan iðnað) en allt sem er nýtt er ógnandi.

Ef þetta fólk gæti tekist á við þessa umræðu, komist að niðurstöðu og tekið ákvörðun væri þetta ekki slæmt, en margt af því er haldið ákvörðunarfælni á háu stigi, stigi sem nefna má ákvörðunarlömun (decision paralysis). Þetta fylgir þeirri stöðu þeirra sem þau hafa valið sér þar sem umræðan er viðfangsefnið og ekki nauðsynlegt að ná niðurstöðu í málinu þegar hægt er að ræða það áfram. Það getur jafnvel verið verra að ná niðurstöðu af einberum ótta við að umræðunni ljúki.

Það er einnig til spegilmynd þessa vandamáls, sem er framkvæmdagleðin sem hraunar yfir alla umræðu. Meðalvegurinn er vandrataður en hefur alltaf þann kost að vera gullinn, og þá á ég ekki við efnislega.

Viðskiptatrúin

Til er sú trú að allt sem hið opinbera framkvæmi komi verr út en ef einstaklingar framkvæma það. Þessi trú er útbreidd og væri ekki svo slæm nema fyrir það að það eru jafnmörg dæmi um að þetta sé rétt og að það sé rangt.

Það er til dæmis sagt að önnur viðmið gildi í opinberum rekstri og þess vegna verði hann óhagkvæmur. Það er skrýtin stjórnun sem ekki getur breytt viðmiðum. Ef rekstur er að þjóna einhverjum tilgangi er ekkert lögmál sem breytir árangrinum af honum, ef stjórnendurnir eru ekki starfi sínu vaxnir.

Stjórnmál eru aðeins til í samfélagi. Það þýðir lítið að kjósa fólk til forystu í stjórnmálum sem hefur andúð á samfélagsmálum eða lítur niður á þá vinnu. Ef það er gert, þá velst til forystu fólk sem er tilbúið að láta skipulagsmál í hendur framkvæmdaaðila, heldur að kaupmenn geti betur stjórnað umhverfinu á Laugavegi en til þess kjörnir fulltrúar og heldur að kaupsýslufólki sé best treystandi fyrir almannafé. Það segir að ekki sé til þjóðareign, þó að þjóðin sé vel skilgreindur hópur hverju sinni, að opinber rekstur sé alltaf verri en einkarekstur, þrátt fyrir að árið 2008 hafi komið og farið, og það er ekki fært um að stjórna sjálfu sér, hvað þá öðrum.

Góður kaupmaður getur stjórnað sinni eigin verslun vel. Kostir kaupmanna eru að bjóða verð sem hæfir vörugæðum, þjónusta viðskiptavini sína vel og veita starfsfólki sínu góð kjör og umbúnað. Kostir þeirra felast ekki í að skipuleggja miðbæ Reykjavíkur. Þar koma til hagsmunir kaupmanns, en góður kaupmaður veit að hagsmunir hans enda um þremur metrum frá innganginum að versluninni, þegar viðskiptavinurinn sér hvað er í boði og býst til að ganga inn.

Áþreifanlegt dæmi um þetta má sjá á yfirbyggðum Laugavegi. Hvaða yfirbyggða Laugavegi? Jú, þegar Kringlan var að verða að veruleika á níunda áratugnum átti að byggja yfir Laugaveg í samvinnu kaupmanna og borgaryfirvalda. Árangurinn má sjá á tveimur hliðum sem nú geyma auglýsingar og yfirbyggðri gangstétt fyrir framan Laugaveg 43. Bogaþakið átti að vera í sömu hæð og hliðin sýna.

Samkeppnin er kostur í verslun á Laugavegi og reyndar hvar sem er á Íslandi. Hún er enginn kostur í opinberum rekstri, þó stundum sé látið þannig. Samkeppni sveitarstjórna um lóðaúthlutanir kostaði íbúa höfuðborgarsvæðis milljarða. Fólk má gjarnan trúa öðru, en það þarf ekki að kjósa þannig fólk til forystu.

Hvers vegna verkafólk kýs Sjálfstæðisflokkinn

Ég velti því fyrir mér, eins og fleiri, hvers vegna svo margt verkafólk hefur kosið Sjálfstæðisflokkinn. Það er þó ekki heimska, að minnsta kosti ekki einber heimska, sem þessu veldur.

Það er þannig með alvöru verkafólk að það vill hafa vinnu. Því líður ekkert vel án vinnu. Þá má jafnvel kalla það verklaust fólk.

Þegar heyra má fulltrúa vinstri hreyfingar tala um að hjól atvinnulífsins sé klisja og þegar sama hreyfing finnur allt að flestum kostum til að fólk fái vinnu, þá er valið fremur einfalt.

Það er um hundrað milljarða króna gat (um hálf milljón á hvern fullorðinn Íslending) sem vantar upp á ef á að vera hægt að halda svipaðri félagslegri þjónustu, heilbrigðisþjónustu og menntastigi og við höfum haft undanfarin ár. Um leið gengur tólfta hver vinnufær manneskja atvinnulaus.

Það vinstrafólk sem hefur efni á að neita flestum framkvæmdakostum við þessa stöðu, með hugsjónina að vopni, það hefur með athöfnum sínum svarað spurningunni um hvers vegna verkafólk kýs svo margt Sjálfstæðisflokkinn.

Vel hannaður upplýsingaleki

Í orði kveðnu er upplýsingaleki brot á góðri stjórnsýslu. Það þarf þó ekki að fylgjast lengi með stjórnmálum til að renna grun í að þessu sé þveröfugt farið, að upplýsingaleki sé hluti af stjórnunarstíl margra, alltof margra stjórnmálamanna.

Það er augljóst að hægt er að setja upp ástand sem hreinlega býður upp á upplýsingaleka. Því lengur sem eftirsóttum upplýsingum er haldið frá því fólki sem þær eru ætlaðar, því líklegra er að upplýsingarnar leki.

Þá leka þær ekki allar í einu heldur aðeins ákveðinn hluti og sá hluti verður settur fram á þann hátt sem hentar þeim sem lekur. Þetta er ákveðin leið til að reyna að stjórna umfjöllun.

Þessi leið er ekki þjóðinni í hag. Það er ljóst að niðurstöður rannsóknanefndar þingsins eiga erindi við alla þjóðina. Þær eru tilbúnar til útgáfu og áttu að vera komnar á vef fyrir tveimur vikum. Með því eru þær aðgengilegar öllum þingmönnum og þorra þjóðarinnar. Nefndin glatar nú trausti með hverjum deginum sem líður.

Kannski er það ætlunin, þó það virðist ólíklegt við fyrstu sýn. Illt er tveimur herrum að þjóna, stendur í góðri bók.

Þetta er aðeins eitt land

Þetta er ekki nema eitt land, fimm byggilegar eyjar, þúsund mílur frá öllum löndum og hér búum við, rétt rúm þrjúhundruð þúsund.

Við erum ekki nema hundrað þúsund ferkílómetrar. Það tekur innan við klukkutíma að fljúga landshorna á milli, minna en tíu tíma að keyra á ystu nöf.

Við verðum að haga okkur eftir því. Allt sem er gert snertir aðra á landinu. Það er ekki til nein einkamál landsbyggðar eða höfuðborgar. Allar stórframkvæmdir verða að fara í eitt heildarskipulag ef við viljum eitthvert skipulag yfirleitt.

Ef við viljum að það búi fólk hér yfirleitt fremur en að allt besta fólkið flytji til landa sem betra er að búa í, þurfum við að gera landið lífvænlegt fyrir venjulegt fólk, en ekki aðeins fyrir útvalda.

Hér hafa öll stjórnmál gengið út á að þjóna hagsmunum ákveðinna Íslendinga, ekki allra, yfirleitt sem fæstra.

Landbúnaðarkerfið hyglir kjúklinga- og svínabændum og heldur uppi iðnaði þar sem fáir Íslendingar sjást nema þeir sem eiga búin. Núverandi kvótakerfi hefur tryggt að allur arður sem gæti orðið af sjávarútvegi renni til nokkurra hundraða. Fyrirtæki í almannaeigu borga ofurlaun en skila litlum eða engum arði til eigendanna, sem fá ekki að vita á hvaða kjörum afurðirnar eru seldar.

Það má merkja að það stjórnmálafólk sem ekki ætlar að skera upp stjórnskipun, skipulag og skiptingu arðs, breyta lífskjörum þannig að almenningur og fyrirtæki geti lifað við stöðugt verðlag og gert fyrirætlanir til nokkurra ára í senn, það er fólk sem ætlar að þjóna litlum hópum þjóðfélags.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband