Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009
28.8.2009 | 07:12
Afneitun, reiði og söknuður á því herrans ári 2009
Afneitun, reiði, gremja yfir því hvað þetta er allt ósanngjarnt, að leita undankomuleiða, söknuður og hryggð, að sætta sig við það sem verður ekki umflúið. Þetta er bara kenning um þau fimm stig sem fólk gengur í gegnum þegar dauðinn er innan augsýnar, ef fólk fær ráðrúm til þess. Þetta hljómar nokkuð kunnuglega í öðru samhengi.
Einn hópur fólks er enn staddur á því herrans ári 2007 í anda að minnsta kosti. Allt sem gert var á Íslandi fram að þeim tíma var rétt að þeirra mati. Hrunið kom að utan, það var Seðlabankanum að kenna að vilja ekki lána bönkunum þegar á þurfti að halda (og taka sjálfir lán hjá Bayerische Landesbank þannig að Glitnir fékk ekki það sem áður hafði verið lofað), það var útrásarvíkingunum að kenna, að minnsta kosti ekki mér og mínum.
Annar hópur er staddur í tíma ársins 2008. Reiði og gremja yfir hvað þetta er allt ósanngjarnt ræður ríkjum hjá þeim. Það var farið illa með Ísland, beitt hryðjuverkalögum gegn friðsamri þjóð, ráðist á þá sem áttu í peningamarkaðssjóðum, ráðist á skuldara, ráðist á allt sem áður var heilagt.
Þriðji hópurinn er að leita undankomuleiða. Það var það sem gerðist 2009. Þá er reynt að semja við Icesave-skuldunauta til að kaupa andrúm í sjö ár. Hluti þjóðarinnar finnur undankomuleið í vinnu á Norðurlöndunum. Einhverjar aðgerðir eru hafnar að sætta skuldara við hlutskipti sitt svo að þeir hverfi ekki.
Við munum síðan taka á móti nýju ári með söknuði og hryggð. Þau sem eftir verða á landinu þreytast á því að ræða endalaust við þá reiðu um hvað allt sé ósanngjarnt, þreytast á þeim sem enn eru í afneitun og þreytast á því að hugsa um hvað lífið sé miklu betra á Norðurlöndunum. Þau munu finna sér hugsvölun í öllu því sem er nógu langt frá þessum leiða raunveruleika, dimma, rigningarfulla og skuldsetta veruleika. 2010 verður tími sögulegra skáldsagna, sætsúrra gamanleikja og fantasíubíómynda.
Svo kemur árið þar á eftir og árið þar á eftir og árið þar á eftir. Það verður náttúrulega að sætta sig við það sem hefur gerst. Það fer bara að verða erfiðara og erfiðara fyrir þann hóp fólks sem á að skilja eftir í súpu ársins 2008 með síhækkandi skuldir og engar leiðir út.
Kenningin sem vitnað er í er kennd við Elisabeth Kübler-Ross sem setti hana fram árið 1969 í bókinni On Death and Dying.
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar