Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Deildi lögum með öðrum og þarf að greiða 13,8 milljónir

Jammie Thomas hefur verið dæmd til að greiða 222.000 dollara, eða sem samsvarar 13,8 milljónum króna fyrir að deila 24 lögum með öðrum með skráadeiliforriti (P2P).

Tónlistarútgefendur höfðuðu mál á hendur henni í Minnesota eftir að hún hafði neitað sakargiftum og ákveðið að verja mál sitt fyrir dómstólum. International Federation of the Phonographic Industries höfðar þetta mál og hefur kært 26.000 aðra fyrir svipaðar sakir. Flestir kjósa að ná sátt með því að greiða skaðabætur upp á nokkur þúsund dollara.

IFPI sakaði Thomas um að hafa deilt yfir 1700 lögum á Kazaa undir notendanafninu tereastarr@KaZaA. Thomas sér núna fram á að um fjórðungur tekna hennar fari í að greiða þennan sektardóm það sem eftir lifir af ævi hennar. Sjá frétt BBC um málið.

Það má segja að einu lögin sem megi örugglega setja í deilimöppuna séu þau sem fólk hefur búið til sjálft eða veit fyrir víst að séu ekki í höfundarétti. 

 


Fréttir komandi viku

Ég hef undanfarna tvo föstudaga komið með sérstaka þjónustu, sem ég hef kallað fréttir komandi viku.

Þetta hefur reynt mjög á hæfileika mína sem upplýsingafræðingur og útheimt gífurlega rannsóknarvinnu, þannig að ég bjóst við að fá einhver viðbrögð við svo einstakri þjónustu.

Þar sem viðbrögðin voru engin ætla ég að hvíla rannsóknarvinnuna sem liggur að baki svona spám.

Ég get þó sagt ykkur að Íslendingar hvíla sig á fréttum af illdeilum innan stjórnmálaflokka og flykkjast á lottósölustaði á laugardag.


Bókaútgáfa á Íslandi 1999 til 2005

Upp úr aldamótum skrifaði ég greinar þar sem ég hélt því fram að bókaútgáfa á Íslandi væri að aukast ár frá ári. Ég hafði þá upplýsingar til ársins 2000 á Íslandi úr Íslenskri bókaskrá og nýrri tölur erlendis frá.

Nú er til á vefnum Íslensk útgáfuskrá sem sýnir aðra þróun eftir aldamót. 


Eins og sjá má, hefur fjöldi skáldsagna haldist viðlíka og 1999 og jókst reyndar nokkuð 2004 og 2005. Fjöldi annarra bóka náði hámarki árið 2000 og hefur fækkað frá því.

Tölur íslenskrar útgáfuskrár eru þegar þetta er skrifað frá janúar 2007. Þá voru ekki komnar tölur fyrir árið 2006, sem líklega koma með næstu uppfærslu útgáfuskrárinnar.


Kaupmaður á hverju horni - bókarýni

Ég er að renna inn í fyrstu jólabókina þetta árið. Ég tel Mælingu heimsins ekki með því ég las hana á ensku í sumar, sjá þó stutta rýni mína um hana.

Það er Kaupmaður á hverju horni - Þættir úr sögu verzlunar á Ísafirði frá 1944 til 1993 eftir Jón Pál Halldórsson.

Jón Páll gjörþekkir efnið og fjallar um það án of mikils alvörubrags en rannsakar þetta samt í kjölinn. Myndavalið er glæsilegt. Eins og gerist með bækur af þessu tagi er nafnakallið (name-dropping) líkt og kliður í bjargi. Það er samt auðvelt að fletta upp einstökum verslunartegundum eða skoða framlag einstaklinga til þessarar flóru.

Mér kann að hafa yfirsést það, en ég sá ekki minnst á Boggu sem ég keypti nokkrum sinnum soðninguna hjá. Ég laga það á þessu bloggi ef þetta er rangt hjá mér.

Ísafjörður var í lok stríðs smástórbær líkt og Seyðisfjörður og Akureyri. 3.000 manns bjuggu á Eyrinni á svæði sem samsvarar Kvosinni í Reykjavík að stærð. Samgöngur voru vikulegar skipaferðir til Reykjavíkur eða Akureyrar og stöku sinnum lenti flugvél á Pollinum. Ísfirskir reyndu að njóta flestra gæða heimsins og fjöldi sérverslana og þjónustu spratt upp. Fjöldi verslana jókst á tímabilinu, öfugt við það sem maður hefur heyrt haldið fram. Breyttar samgöngur skiptu miklu um verslunarhætti.

  • Alger nauðsyn ef þú þekkir sögusviðið, annars góð handbók ef þú þarft að kynnast því. Gott hjá Jóni Páli. 

Ofanritaður er ekki bókmenntafræðingur.

Hafnarstræti ÍsafirðiMyndin er af Hafnarstræti á Ísafirði, líklega tekin um 1930, hér af vef Ljósmyndasafns Ísafjarðar.

The Ice Warrior

Útdráttur á Guardian Knowledge vekur löngun mína til að sjá smásöguna sem um ræðir, The Ice Warrior eftir Robin Chambers frá 1976.

Sagan ku fjalla um úrslitaleik á HM í fótbolta, sem þá er látinn gerast í framtíðinni. Liðin sem leika til úrslita eru Ísland og Zaire (sem nú kallast aftur Kongó). Hinir illu Íslendingar læða ísbolta inn í leikinn í stað raunverulegs bolta, sem fer illa með bera fætur Zaír-mannsins Odiwule. Hann lætur lífið þegar fótur hans brotnar á boltanum (!) og hinir illu Íslendingar vinna leikinn. 10 árum síðar er þjálfari hinna illu Íslendinga orðinn forsætisráðherra. Þá kemur draugur Odiwule og gerir honum lífið leitt.

Þegar bókin kom út var fjórða þorskastríðinu nýlokið og Íslendingar voru ekki hátt skrifaðir í Bretaveldi. Douglas Jardine sem er líkt við hinn illa þjálfara Íslendinga var fyrirliði enska krikketliðsins sem gerði illa ferð til Ástralíu 1933 að reyna að sigra frækið lið Ástrala sem skartaði meðal annars Don Bradman. Englendingar slógu hraða bolta sem virtist vera miðað til að skaða mótherjana fremur en að spila.

--- 

Úr Guardian Knowledge:

The Ice Warrior, from The Ice Warrior and Other Stories (published 1976) by Robin Chambers, tells how Zaire's star player is killed in a bizarre freezer-related accident. The all-conquering, efficient Iceland (a case of taking symbolism too literally) meet bare-footed and mercurial Zaire in the World Cup final - and the evil Iceland manager plots the downfall of Zaire's star player, Odiwule, who can, apparently, bend the ball 90 degrees. When Zaire are awarded a free-kick, Iceland's equivalent of Douglas Jardine swaps the ball with a special refrigerated one he had been keeping under the team bench (how he did this without anyone else seeing in unclear).

When the Zairean maestro strikes the ball his foot and leg shatter (it's those modern boots, you know) and he is killed instantly. The chilly northern cheats win the final. Fast forward 10 years and a vengeful ghost of the victim returns to haunt the Iceland manager, who has, rather unusually, become the county's prime minister.

---


Flokkar í sjálfseyðingu

Það er alltaf leitt að sjá fólk eyðileggja sjálft sig og það sem í kringum það er, hvort sem það er eitt og sér eða í félagi við aðra.

Nú hefur Framsóknarflokkurinn rifjað upp þá gömlu kenningu, að það sem gert er í landinu, sé betra ef það er ekki gert suður með sjó. Síðan þessi kenning var mótuð í Þingeyjarsýslum seint á 19. öld hefur landslýðurinn flutt suður með sjó.

Þegar Höskuldur Þórhallsson, nýr þingmaður Framsóknar, kynnir sig fyrir sama landslýð með því að mæla á móti framkvæmdum í Helguvík til að álver verði örugglega reist á Bakka, tekst honum að fæla frá alla þá sem höfðu hugsað sér að kjósa kannski flokkinn í nánustu framtíð. Keflvíkingar og nærsveitamenn hugsa flokknum líklega þegjandi þörfina, umhverfisverndarsinnar munu taka eftir ákafa þingmannsins að setja álverið á Bakka og fólk tekur eftir því að þingmaðurinn talar eins og stjórnvöld stjórni hraða framkvæmda hjá einkafyrirtækjum.

Skyldu Framsóknarmenn bíða til næstu kosninga áður en þeir muna að atkvæði fylgja fólki en ekki landi, og að fjórir af hverjum fimm Íslendingum búa suður með sjó? Eða hvað halda þeir að mörg þingsæti fylgi Hvanndölum?  Það er ekki gott ef þeir láta það villa sér sýn að uppbótarþingmaður náðist inn í Norðausturkjördæmi. Fylgi þeirra dróst meira saman þar en í Norðvesturkjördæmi.


Átök í peningaflóðinu

Með afrakstur ríkissjóðs upp á 140 milljarða ofan striks síðustu 2 ár, viðskiptahalla upp á fimmtu hverja krónu og millibankavexti í tveggja stafa tölu á sama tíma, hvað tekur nú við?

Með samninga lausa eftir þrjá mánuði mun umræðan snúast um hversu margar krónur hver á að fá, af meira kappi en nokkru sinni fyrr. Hluti samfélagsins mun þrýsta á sem mestar hækkanir (handa þeim með lægstu tekjurnar að sögn, en allir vita að hækkanir ganga upp skalann) og hluti mun reyna að tala kröfurnar niður.

Þetta mun endurspeglast í ríkisstjórninni. Hluti hennar mælir með aðhaldi í kröfum og hluti hennar mun tala um jöfnuð.

Allt þetta fer fram í mesta góðæri sem þjóðin hefur lifað. Öll vandamál sem koma upp virðast vera lúxusvandamál.


« Fyrri síða

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband