Leita í fréttum mbl.is

Að vinna forsetakosningar

Í nóvember kjósa Bandaríkjamenn um forseta, neðri deild þings, um þriðjung öldungadeildarþingmanna auk ríkiskosninga og kosninga um smærri atriði.

Það er því ekki skrýtið þó fólk leggi áherslu á forkosningar, sem formlega eru um forsetaframbjóðanda. Í raun getur farsæll frambjóðandi kallað fram góða kosningu til þings. Þá er talað um að þingmenn komist inn á jakkalöfum forsetans.

Aðeins um helmingur þeirra sem hafa rétt til að kjósa, gera það. Fólk þarf að skrá sig til að komast á kjörskrá. Þar sem oft er jafnt á milli repúblikana og demókrata er fólki í mun að ná til þeirra sem ekki myndu annars skrá sig, sérstaklega ungs fólks.

Eftir kosningarnar árið 2000, þegar þjóðin var skipuð í nærri jafnstórar fylkingar, varð þetta augljósara en áður en er ekki neitt nýtt í sögunni. Oft munar ekki nema um 10.000 atkvæðum til að vinna heil ríki og þar með allan kjörmannafjölda þeirra.

Repúblikanar hafa nú um þrjátíu ára skeið reynt að ná til tveggja stórra hópa til að tryggja sér sigur. Það eru íhaldsfólk í samfélagsmálum (social conservatives) sem berjast á móti fóstureyðingum og með vopnaburði almennings, svo nefnd séu dæmi, og frjálslyndir í markaðsmálum, sem vilja sem minnst afskipti ríkisins af viðskiptalífinu. Þessir hópar fylktu sér að baki Nixon, kusu Reagan og Bush-feðga. Hlutverk Karls Rove var ekki síst að tryggja fylgi þessara hópa. Þegar demókratar sóttu inn á miðjuna sóttu repúblikanar enn lengra til hægri. 

Demókratar höfðuðu til þeirra sem minna mega sín og reyndu að ná inn fylgi svartra þegar þeir tóku í auknum mæli þátt í kosningum á sjöunda áratugnum. Þeir reyndu líka að ná fylgi spænskumælandi fólks þegar sá hópur vann sér þegnrétt og stækkaði. Vel stætt fólk úr báðum þessum hópum hefur reynst kjósa repúblikana.

Engu að síður reyna báðir flokkar sífellt að sækja inn á miðjuna, sækja nýtt fylgi ungs fólks, og bæta við kjósendum sem ekki kæmu annars á kjörstað. Þess vegna skiptir kjörþokki miklu. Nú, þegar átta dagar eru til ofurþriðjudags eða sprengidagsins 5. febrúar, veðja margir á þann frambjóðanda sem er líklegastur til þessara verka.

Hjá repúblikönum á McCain betra tækifæri á þessu en Rudy Giuliani, sem nú kemur af krafti inn í baráttuna. McCain er enn í þeirri stöðu að safna fé til baráttunnar en Giuliani hefur digra sjóði. Romney er einnig vel settur með fé,en Huckabee síður. Allir fjórir eru enn í spilinu. Meðan umræðan á Íslandi virðist stundum gera ráð fyrir að frambjóðendur demókrata hljóti að vinna forsetakosningarnar, má minna á að undanfarin 40 ár hafa demókratar átt tvo forseta en repúblikanar fjóra, demókratar ríkt í 12 ár en repúblikanar í 28.

Hjá demókrötum eru línur skýrari en alls ekki ljóst hvort Clinton eða Obama eiga sprengikraftinn á sprengidaginn. Bæði sækja þau fylgi til hópa utan kjarnafylgis. Obama höfðar til fólks úr mörgum hópum þjóðfélagsins en Clinton meira til kjarnafylgis demókrata og til kvenna. Hún keppir nú að því að tryggja sér einnig atkvæði svartra í New York. Líklega á hún sterkt fylgi þar, bæði í Harlem þar sem skrifstofa hennar er, sem og annars staðar í ríkinu.

Aðrir stórir slagir á sprengidag eru í Kaliforníu, Illinois, New Jersey, Massachussets og 19 öðrum ríkjum. Í nokkrum þeirra kjósa bara demókratar og í einu þeirra bara repúblíkanar, en í 19 ríkjum kjósa báðir flokkar. Á öskudag verður ljóst hvernig um 40% kjörmanna dreifast.


mbl.is Obama sigraði í Suður-Karólínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband