23.1.2008 | 09:14
35 ár frá gosbyrjun í Eyjum
Þegar ég var vakinn þennan morgun, 23. janúar 1973, snemma eins og flestir landsmenn, neitaði ég að trúa systur minni sem sagði að það væri byrjað að gjósa á Heimaey. Ef þú trúir því ekki, hlustaðu bara á útvarpið, sagði hún. Það var nóg til að sannfæra mig. Klukkan ekki orðin sex og útvarpið í gangi, það hlutu að vera stórtíðindi sem höfðu gerst.
Þegar er horft til baka sér maður hvað hefur breyst í viðbúnaði við gosi eins og þessu. Þar stendur upp úr að jarðskjálftamælakerfi segja okkur miklu meira en þeir fáu mælar sem sýndu hreyfingu 22. janúar 1973. Þá voru menn ekki vissir hvort hreyfingin væri við Veiðivötn eða í Vestmannaeyjum.
Mælingakerfið byrjaði að þéttast með sænska SIL-kerfinu sem náði yfir Suðurlandsundirlendið og Vestmannaeyjar á tíunda áratugnum. Síðar bættu Veðurstofan, Orkustofnun og aðrir aðilar við mælum, þannig að fréttastofa RÚV gat sagt frá því 26. febrúar 2000 að Hekla myndi byrja að gjósa innan hálftíma.
Heppnin var með Eyjamönnum þegar kom að því að bjarga mannslífum. Daginn áður var bræla en það hafði lægt með kvöldinu, þannig að flotinn lá inni og hægt var að flytja 5000 manns á örfáum klukkustundum. Bátarnir sigldu í slæmum sjó til Þorlákshafnar og undrafljótt gekk að skipa upp fólki þar, þannig að skipstjórar rétt renndu upp að og héldu við, og héldu frá um leið og síðasti farþegi var farinn frá borði. Þá tók við sigling aftur til Eyja og lítil hvíld hjá flestum þeirra. Nokkrir farþegar gátu komist með flugvélum í land en gosrásin var stutt frá enda annarrar flugbrautarinnar.
Svona heppni verður seint fullþökkuð en það er ekki hægt að treysta á að veðurguðirnir verði alltaf hagstæðir þegar tekur upp á því að gjósa, þannig að gott viðvörunarkerfi getur bjargað hundruðum mannslífa. Árið 1973 hafði síðast gosið í Heimaey um 5000 árum fyrr. Síðast gaus nærri Reykjavík fyrir um 1000 árum. Hér er ekki verið að spá um að nein slík tíðindi séu að gerast við Grindavík, en sunnanverður Reykjanesskaginn er virkt eldfjallasvæði.
Jörð skelfur við Grindavík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég var líka vakinn af minni systur. Tveimur árum áður höfðum við búið í Vestmannaeyjum og mér líkaði það alls ekki. Þannig að þegar hún kom askvaðandi inn í svefnherbergið mitt og hrópaði fréttirnar óðamála þá heyrðist mér hún segja "það var kosið í Vestmannaeyjum og allir urðu að flytja þaðan" ...
Ég hugleiddi þetta eitt andartak áður en ég sneri mér yfir á hina hliðina og hélt áfram að sofa. Ég sá fyrir mér alla Vestmannaeyinga safnast saman og hlýða á niðurstöður kosninganna: "það er þá ákveðið að hér er of dauf vist við að vera og skulum vér öll flytjast héðan á brott með allt okkar hafurtask."
Gat það verið? hugsaði ég með sjálfum mér. Gátu þeir hafa verið svona skynsamir? Mér fannst tilhugsunin ekki nógu athyglisverð, þannig að ég sneri mér aftur á hina hliðina og hélt áfram að sofa.
Elías Halldór Ágústsson, 23.1.2008 kl. 09:51
Eldgos í vestmannaeyjum? Hreinsunareldurinn, Guðs vilji.
Freyr Guðjónsson, 23.1.2008 kl. 11:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.