19.1.2008 | 17:54
And-evrópskar leitarvélar og fleira gott
Um aldamótin hittust leiðtogar Evrópusambandsins í Lissabon, því þá fóru Portúgalar með leiðtogahlutverk, og settu fram Lissabon-áætlunina um samkeppnishæfni Evrópu. Í stuttu máli átti Evrópa að geysast fram úr Bandaríkjunum (þó þau væru ekki nefnd á nafn) og vera í fremstu röð í heiminum um samkeppnishæfni.
Því miður átti þetta að gerast fyrir tilverknað opinberra stofnana. Í huga margra klingdu orð Hrjúsjoffs (Krusjev), aðalritara Kommúnistaflokks Sovétríkjanna frá 1960 þegar hann lofaði að borgarar þar færu fram úr efnalegri velsæld vestan hafs.
Hér verður því ekki spáð að niðurstöðurnar verði jafn svakalegar og gerðust eystra. Þegar efnaleg velsæld var orðið keppikeflið, var ljóst hvor aðilinn hefði betur. Ef Evrópa ætlar að gera samkeppnishæfni að leiðarhnoða, þá má fara að beina sjónum annað.
Um tíma virtist að vel gengi í Evrópu með þessi markmið, eins og gerist oft í byrjun opinberra átaksverkefna. Peningum er dælt í þessi verkefni og eins og gera má ráð fyrir, eykst bjartsýni. Evran fór að taka við sér í hlutfalli við dollar.
Undir niðri voru engar breytingar. Ósveigjanleg atvinnupólitík þýðir að athafnafólk (ljótt orð í Evrópu) ræður ekki fólk til vinnu nema allt annað sé komið í óefni. Sérstaklega er slæmt að ráða ungt fólk. Það flykkist nú til Bretlands þar sem atvinnuöryggið er minna og betra að fá vinnu (ef þetta hljómar sem þversögn hjá einhverjum lesenda, er bent á að lesa svokallaða hagfræði). Hagvöxtur var mældur í prómillum og styrkjakerfið letur fyrirtæki til breytinga sem þjóna notendum, en hvetur til að þjóna opinberum markmiðum.
Fordildin hjá Evrópusambandinu kom best í ljós þegar ákveðið var að búa til svar við Google. Samkvæmt sambandinu þurfti evrópska leitarvél sem svar við Google. Nú hafði Google ekki verið sérlega and-evrópsk fram að þessu. Undirritaður og margir evrópskir kunningjar hafa notað Google einmitt vegna þess hversu auðvelt var að finna heimildir frá eigin landi þar. Fólk getur gert litla tilraun og slegið inn leitarorð úr þessari færslu í Emblu annars vegar og Google hins vegar og séð hvoru megin niðurstöðurnar birtast. Google var náttúrulega ekki spurning til Evrópusambandsins, heldur gott leitartæki, ætlað að auðvelda fólki lífið og skapa eigendum og starfsfólki sínu ágóða. Það var búið til af fólki árið 1998 sem vissi vel hvað Vefurinn var, lifði og starfaði með hann stöðugt á skjáborðinu. Hversu margir af leiðtogunum í Lissabon árið 2000 gerðu þetta? Svarið er þekkt, en engin verðlaun fyrir að svara 0.
Svo má minna á að markmið Lissabon-áætlunarinnar um samkeppnishæfni árið 2000 var hvorki meira né minna en að Evrópusambandið yrði samkeppnishæfnasta svæði í heimi árið 2010. Lítið á það.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Tölvur og tækni, Vefurinn | Facebook
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.