25.11.2007 | 00:03
Andfætlingar skipta um stjórn
Sigur Kevin Rudd og Verkamannaflokksins í Ástralíu teljast nokkur tíðindi. Siðast þegar var kosið litu meginmálin svipað út. John Howard var legið á hálsi fyrir gagnrýnislausa þátttöku í hernámi Írak (þátttaka Ástrala í Víetnam var mikil á sínum tíma), litlar aðgerðir í umhverfismálum og mikla fylgispekt við Bush. Efnahagurinn var með ágætum og skilaði honum sigri 2004 eins og þrisvar sinnum fyrr.
Eitthvað hefur breyst núna. Andstaða gegn þátttöku í hernámi Írak hefur vaxið. Helsta verkefni Verkamannaflokksins var þess vegna að fá fólk til að treysta því að þau gætu farið jafn vel með stjórn efnahagsmála og Howard hefur gert.
Breytingin sést meðal annars á þeim manni sem oft gengur Rudd á vinstri hönd í fréttamyndum, Peter Garrett. Hann er hreint ekki óþekktur, skuggaráðherrann fyrir listir og umhverfismál, áður söngvari Midnight Oil. Hann reyndi fyrir sér í stjórnmálum með því að stofna eigin flokk 1984 en gekk til liðs við Verkamannaflokkinn tuttugu árum seinna fyrir atbeina Mark Latham. Ýmsum hefur þótt nóg um hversu honum er hampað. Hann bauð sig fram í öruggu kjördæmi fyrir Verkamannaflokkinn en hefur aukið fylgi flokksins þar. Hann telst líklegastur til að sinna umhverfismálum í nýrri stjórn.
Latham tapaði kosningunum 2004 og varð gjalda fyrir með formannssætinu. Hann hafði þó áður boðið Maxine McKew, vinsælli sjónvarpsfréttakonu, að bjóða sig fram fyrir flokkinn. Þegar þetta er skrifað virðist hún munu vinna þingsæti Bennelong og hafa það af John Howard, sem hafði haldið sætinu í 33 ár. Almennt hefur Verkamannaflokkur fengið um 6% meira en í síðustu kosningum og virðist ætla að ná meirihluta í neðri deild þingsins.
Howard hafði verið legið á hálsi að hafa ekki látið stjórnartaumana ganga til Peter Costello, sem sækist eftir formannssæti í Frjálslynda flokknum. Það er áhugavert fyrir unnendur gamalla grínmynda að einn keppinauta Costello um þetta sæti heitir Tony Abbott. Howard má segja það til sannmælis að hann hafði unnið fjórar kosningar áður, og að Costello er alls ekki sjálfkjörinn formaður að Howard gengnum.
Áhrif umhverfisverndarsinna verða meiri en bara þau að Garrett sé kominn til metorða í nýrri meirihlutastjórn. Eins og talning stendur þegar þetta er skrifað, gætu tveir þingmenn Græningja lent í oddaaðstöðu í Senatinu.
Það lítur þess vegna ekki út fyrir annað en breytingar á stjórnarstefnu Ástrala í umhverfismálum og í málefnum Írak. Þær munu hafa áhrif langt út fyrir landsteinana.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:16 | Facebook
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.