30.10.2007 | 23:18
Hvar er þessi 1. deild í ensku knattspyrnunni?
Það er ekki hægt að biðja um að allir fylgist vel með öllu, en það er hægt að fara fram á að fréttafólk sem afmarkar sig við ákveðið efni viti hvað það er að tala um.
Mér finnst ekki gott að hlusta á lýsingar Íslendinga á enskri knattspyrnu, enda of góðu vanur frá Bretlandi, þar sem eru topplýsendur á hverjum leik. Það sem vantar hjá íslensku íþróttafréttamönnunum hefur of oft verið að þeir eru hreinlega ekki nógu vel að sér til að halda uppi lýsingu á rúmlega 90 mínútna leik.
Þannig tók þá nokkur ár að uppgötva að efsta deildin í enskri knattspyrnu hét ekki lengur fyrsta deild, heldur úrvalsdeild (Premier League) eftir 1992. Þá urðu deildirnar þar fyrir neðan 1., 2. og 3. deild (Football League First division, Second division, Third division).
Það breyttist svo árið 2004. Þá heitir næstefsta deild meistaradeildin (Championship) og deildirnar þar fyrir neðan deild 1 (League One) og deild 2 (League Two). Enn ræða íslenskir íþróttafréttamenn, eða að minnsta kosti allt of margir þeirra um 1. og 2. deild, en eiga við meistaradeild og deild 1.
Nú finnst mörgum stungin tólg og tala um að allir viti nú hvað átt er við, að fáir fylgist með neðri deildunum og að það sé nú fótboltinn sem skipti öllu máli.
Það er ekki rétt, ég veit ekki hvort er átt við næstefstu deild eða þá þriðju efstu þegar rætt er um 1. deild í ensku knattspyrnunni. Það eru margir sem fylgjast með neðri deildunum, ekki síst þeir sem hafa átt heima í Bretlandi eða dvalið þar, og þeim fer fjölgandi. Fótboltinn sjálfur skiptir öllu máli, en það þýðir að hafa á hreinu þá umgjörð sem hann er spilaður í, í heimalandi boltans.
Sumir kunna að spyrja af hverju næstefsta deild heiti Championship. Það er vegna þess að eftir að úrvalsdeildin kom til skjalanna sem sérstök eining, er Championship efsta deild Football League. Það lið sem vinnur deildina er því meistari Football League.
Svo mega íslenskir íþróttafréttamenn temja sér það að læra nöfn knattspyrnuliða víðar en á Englandi. Þeir sem ekki einu sinni kunna nöfn Celtic og Rangers eiga margt ólært áður en þeir geta borið fram Racing Santander rétt eða vita fyrir hvað Panathinaikos stendur. Þetta gera enskir, þannig að íslenskir eru ekki of góðir til þess.
Meginflokkur: Íþróttir | Aukaflokkur: Fréttir | Breytt s.d. kl. 23:22 | Facebook
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Enski lýsendur vita hvað Panathinaikos stendur fyrir???
Annars er meistaradeild bara alls ekki nógu góð þýðing á "Championship", þar sem það gæti auðveldlega ruglast við meistaradeildina (Champions' League). Fyrir alla muni ekki segja að það myndu allir vita hvora væri verið að tala um.
Kristján Magnús Arason, 31.10.2007 kl. 13:23
a) Já, líklega, varla væri ég annars að segja að þeir vissu það, eða hvað? Ég bendi þeim sem lesa þetta á knattspyrnuumfjöllun Guardian, sérstaklega á James Richardson, Barry Glendenning, Kevin McCarra og Sid James. Það eru fleiri góðir og góðar sem skrifa þarna og tala í hlaðvarpið þeirra, Guardian Football Weekly podcast, sem núna er í boði mánudaga og fimmtudaga. Þar sem þekkingu þeirra á evrópskri knattspyrnu þrýtur, fá þau fólk af staðnum til að ræða málin.
b) Já, var það ekki. Bara að gefast upp, hvorki að þýða þetta á íslensku né að ræða með ensku heitunum. Halda áfram með gömlu 1. deildar vitleysuna. Annað hvort á að ræða um Championship eða þýða á íslensku, hvort sem það er meistaradeildin enska eða eitthvað annað sem fólk vill nota. Það þarf ekki að láta eins og það sé einhver jötuntak að segja Meistaradeild Evrópu þegar rætt er um hana.
Það fólk sem einungis fylgist með úrvalsdeildinni ensku og svo hvernig liðum þaðan gengur í Evrópu og getur ekki talað skiljanlegt mál hefur ekki mikla samúð mína.
Sveinn Ólafsson, 31.10.2007 kl. 21:10
1) Tja, ekki veit ég hvað Panathinaikos stendur fyrir. Annars hefur knattspyrnuumfjöllun The Guardian ekkert með enska lýsendur að gera. Hér í BNA fáum við ensku lýsinguna með leikjunum og finnst mér lýsendur ekkert sérstakir, þó það geti vel verið að þeir séu mun betri en íslenskir lýsendur. A.m.k. eru þeir ekki betur að sér en svo að í tveimur leikjum á þessu keppnistímabili hafa þeir látið út úr sér sömu vitleysuna um tvo leikmenn í mínu liði, West Ham. Það virðist nokkuð lífseig þjóðsaga (þó ósönn sé) að Mark Noble og Lee Bowyer séu frændur. Og þessir lýsendur geta ekki haft fyrir því að spyrja annan þeirra að þessu. Hvað varð nú um að spyrja þá sem vita betur??
2) Hvar lagði ég til að það ætti að gefast upp? Nei, ég er mjög fylgjandi því að nota íslensk orð, en vanda skal þýðingarnar. Orðin þurfa að vera þjál í notkun, annars er hætt við að þau verði hreint ekki notuð. Svo finnst mér að ef það þarf að taka sérstaklega fram ef verið er að tala um Meistaradeild "Evrópu", þá sé eins og hún sé lægra sett en Meistaradeildin á Englandi. Ef einhver vogar sér að segja bara "Meistaradeild", þá hljóti sá hinn sami bara að vera að tala um næstefstu deild á Englandi! Annars reyni ég að temja mér að tala þannig að fólk skilji mig, en þeir eru bara búnir að hræra svo mikið í þessu á Englandi að ég get ekki einu sinni talað um "gömlu fyrstu deildina", því þá gæti verið óljóst hvort ég væri að tala um þá "gömlu" eð þá "eldgömlu"!
Ég hef sem sagt enga sérstaka lausn á þessu vandamáli, en ég áskil mér fullan rétt til að tala um línuverði frekar en aðstoðardómara!
Kristján Magnús Arason, 1.11.2007 kl. 13:38
Sæll Kristján, þetta er víst orðið tveggja manna tal og ég þakka svörin. Það er rétt að þessir Sky-lýsendur og aðrir þaðan af verri vita oft lítið um hvað þeir ræða, það sem ég hef séð.
Ég var frekar með í huga BBC sem sýnir landsleiki og þá sérstaklega þegar úrslit Evrópu- og heimsmeistarakeppni er, það er veisla. Lineker, Lawrenson og Hansen eru þá iðulega með fyrrum landsliðsþjálfara eða fyrrum toppmenn í landsliðum sér við hlið og þá er gott að hlusta. Stemmingin á vellinum fær yfirleitt að skila sér vel og þetta rennur allt saman í topp afþreyingu allan leikinn.
Það er svo ekkert aðalatriði hvað Panathinaikos þýðir meðan fólk veit eitthvað um liðin og boltann sem þeir spila. Ég er enginn sérfræðingur og einmitt þess vegna vil ég fá góða lýsingu og góða umfjöllun, að uppvísa mig fávísan manninn.
Það má vel vera rétt að enska meistaradeildin sé ekki góð þýðing, enda hefur það bögglast fyrir mér hvernig eigi að þýða Championship og gerir greinilega fyrir fleirum. Ég segi þó eins og fyrri daginn, ég vil vita skýrt um hvað er verið að ræða.
Sveinn Ólafsson, 1.11.2007 kl. 20:40
Sæll Sveinn, ég þekki ekki mikið til BBC-lýsenda og verð því bara að taka þín orð fyrir því að þeir séu góðir.
Ég las aftur þar sem þú minntist á Panathinaikos og sé núna að ég hef misskilið þig svolítið. Já, ég myndi tvímælalaust búast við að lýsendur myndu vita hvernig ætti að bera fram Celtic og Rangers nokkru áður en þeir vissu hvað Panathinaikos stendur fyrir. Annars væri nú eitthvað skrýtið í gangi.
Eins og ég sagði, þá reyni ég að tala þannig að þeir sem hlusta skilji mig. Knattspyrnulýsendur hafa tvímælalaust mun þyngri ábyrgð á að gera slíkt hið sama þegar þeir tala um hin síbreytilegu nöfn í deildarkerfi Englendinganna.
Ef notast væri við "deild eitt" og deild tvö", þá ætti það afstýra rugli við gömlu deildarheitin. Þá vantar bara góða þýðingu á "Championship". Hvernig væri "deildarmeistarakeppnin"? Þar sem sigurvegararnir væru meistarar í deildarkeppninni (Football League). Bara svona hugmynd, en það er vitanlega flókið mál að koma einhverri þýðingu í almenna notkun.
Kristján Magnús Arason, 1.11.2007 kl. 21:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.