Leita í fréttum mbl.is

Skotland

Ég bjó um aldamótin í Skotlandi um árs skeið, stundaði nám í Glasgow og var í starfsnámi í Edinborg. Skólinn heitir University of Strathclyde og er í miðri Glasgow og ég vann nokkrar vikur hjá skjalasafni Royal Bank of Scotland í Dundas House í Edinborg.

Síðan fylgist ég með Skotum, skoskri pólitík, skoskum fótbolta, skoskri tónlist og því sem almennan áhuga vekur. Ég fæ oft að heyra að þetta sé einhver sérviska, sem kom mér nokkuð á óvart að heyra, sérstaklega frá fólki sem hafði lært á Norðurlöndunum og fylgdist af áhuga með öllu sem gerðist í þeim löndum. Ég komst að því að margir halda að Skotland sé hálfgert hérað í Englandi, svona með smáskrýtilegheit eins og að kallar klæðist pilsum og þenji pípur.

Skotland er enginn útvöxtur af Englandi. Þar búa 5 milljónir manna í landi sem er ólíkt Englandi, þjóð sem er ólík Englendingum og svipar á margan hátt fremur til Norðurlanda. Stór hluti landsins er lítið byggður, bæði norðan og sunnan við miðbeltið milli Glasgow og Edinborgar. Fólkið sem býr á láglenda svæðinu sem nær frá Ayr í suðri, norður og austur til Aberdeen kallast Láglendingar (Lollanders) og hafa frá fornu fari talað tungu sem er skyld ensku. Robert Burns er höfuðskáld þessa fólks.

Utan þessa svæðis búa annars vegar um 100.000 manns sunnan þess, sem kallað er Borders, og um 200.000 manns norðan þess, í Hálöndum og eyjunum (the Highlands and the Islands). Þar talaði fólk gelískt mál fram á síðustu öld og lærði ensku sem annað tungumál. Það má því heyra ensku drottningar í Inverness, sem var setuliðsborg, en leifar af gamla tungutakinu í Glasgow og þar um kring, sem er oft erfitt að skilja.

Pilsaþytur kalla sem blása í pípu er ættaður úr Hálöndunum. Skoska mynstrið er gamall þáttur í vefnaði en hnésíðu pilsin sem nú tíðkast eru um 300 ára gömul að sniði og voru gerð upphaflega í þessari mynd af Englendingi.

Skotar eru í sjálfstæðishug núna, enda er Skoski þjóðernisflokkurinn við völd í heimastjórninni (SNP, Scottish National Party). SNP horfir mikið til Norðurlandanna um fyrirmyndir. Þar á bæ trúa menn því að náttúrulegar auðlindir Skotlands geri gott betur en að jafna lífskjör við Englendinga, en Skotar hafa alltaf verið fátækari en nágrannar þeirra. Það hefur ekki komið í veg fyrir góða menntun þjóðarinnar, sem hefur alið af sér fjölda uppfinningamanna og vísindamanna.

Hörð lífskjör hafa þýtt að Skotar hafa flutt burtu undanfarnar aldir og um 10 sinnum fleiri telja sig af skoskum stofni í Bandaríkjunum einum, heldur en búa í Skotlandi sjálfu. Síðan má finna Skota um allan heim. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband