16.9.2007 | 21:36
Þegar ég var vitavörður
Sumarið 1988 var ég vitavörður á Hornbjargsvita. Þetta hljómaði spennandi á þeim tíma, að komast út úr puðinu í bænum og í sældina úti á enda hins byggilega heims.
Ég var að vinna í steypuverksmiðju. Ég steypti, þurrkaði og hlóð á bretti 1000 sex tommu steypurörum þegar vel gekk. Það eru um 30 tonn á góðum degi. Þegar Þorbergur Þórsson stakk upp á að ég reyndi að komast í sumarvinnu á vita leist mér vel á. Hann hafði ráðið sig um veturinn á Galtarvita með Jóhanni Péturssyni.
Mér bauðst að vera um sumarið með Jóa á Hornbjargsvita. Þar hafði hann verið vitavörður í 25 ár þar til hann komst á eftirlaun 3 árum fyrr. Jói varð sjötugur þetta ár og hafði verið að taka að sér afleysingar á vitunum. Til aðstoðar fékk hann menn eins og okkur Þorberg.
Það er villandi að tala um vitavörslu á Hornbjargi á sumrin. Slökkt er á vitum fyrir norðan land 1. maí og kveikt aftur 15. ágúst, ef ég man rétt. Fyrir sunnan línu sem er held ég 65. breiddarbaugurinn, er hins vegar slökkt frá 15. maí til 1. ágúst. Það þurfti þess vegna ekki að sjá um ljósvitann. Ég fékk samt Jóa til að sýna mér handbrögðin við það, sem var auðfengið. Hins vegar var radíóviti þarna sem við máttum reyna að halda gangandi. Þegar þarna var komið sögu voru ekki margir sem notuðu radíóvita. Það voru þess vegna ekki keyptir í hann varahlutir en við höfðum nægan tíma að dútla í honum.
Aðalstarfið var við veðurathugun. Veðrið var tekið á þriggja tíma fresti allan sólarhringinn. Strangt til tekið gæti einn sinnt því. Á svona afskekktum stað þýðir það að það verða að vera tveir á staðnum. Ef annar veikist snögglega eða eitthvað ber út af getur hinn fengið hjálp og sinnt því sem sinna þarf í nokkra daga. Þegar allt gengur eins og það á að vera skiptum við með okkur vöktum, þannig að annar tók athuganir frá 9 að kvöldi til 6 að morgni, en hinn frá 9 að morgni til 6 að kvöldi. Við skiptum vikulega að taka dag- og næturvakt.
Á þessum tíma árs er bjart allan sólarhringinn og gott að lifa. Ég kom um miðjan maí. Við áttum að vera rúma tvo mánuði. Allir vitaverðir fengu staðaruppbót á frí, mismikið eftir þvi hversu afskekktur staðurinn var. Á Hornbjargsvita var fríið tvöfalt, en minna á öðrum stöðum. Launin voru strípaður lægsti taxti hjá Dagsbrún. Við fengum húsnæði, hita og rafmagn, en greiddum mat og allt annað sjálfir. Maður eyddi náttúrulega ekki miklu á þessum stað. Mig minnir að ég hafi keypt ég kexpakka og kartöflupoka til viðbótar við matarskammtinn sem Jói sá um, en afraksturinn eftir tvo mánuði urðu tæpar 50.000 krónur þegar upp var staðið.
Við vorum að leysa af Ólaf Þ. Jónsson sem er betur þekktur sem Óli kommi. Sameignarsinninn hafði komið þarna um haustið og var að fara í sitt fyrsta frí. Hann sagðist ætla til Sovétríkjanna áður en þau liðuðust undir lok, en ég held að hann hafi aldrei séð fyrirheitna landið. Jói vildi ekki tala við hann, þannig að ég fór yfir allt með honum þennan klukkutíma sem varðskipsmenn stoppuðu. Hornbjargsviti er í raun rétt sunnan við bjargið, í Látravík. Lending þar er svo góð sem engin. Þarna bjó enginn fyrr en nokkrum árum áður en vitinn var byggður 1930. Til að hægt sé að koma fólki og farangri í land þarf að vera nokkuð gott í sjóinn. Óla var greinilega farið að lengja að komast í frí. Hann tilkynnti allt í einu minna en hálfs metra ölduhæð, þar sem hafði verið yfir tveggja metra hæð. Vind hafði ekki lægt þannig að Jóa grunaði að ekki væri allt með felldu. Þegar varðskipið sigldi fyrir Horn og inn á móts við víkina sáum við að Jói hafði haft rétt fyrir sér, það var enn tveggja metra alda. Eftir að hafa ráðfært sig við Jóa ákvað skipstjóri að við skyldum samt prófa að taka land. Stýrimaður og fimm aðrir skelltu sér og okkur í flotgalla, hífðu út Zodiakinn og héldu af stað. Jói leiðbeindi inn á víkina og um leið og við vorum komnir á gúmmíbátnum á mannhæðarhátt dýpi var manni skipað út fyrir að draga bátinn í land. Við vorum fjórir sem það gerðu og þannig heilsaði Látravík mér. Jói var í stafni og benti okkur, til vinstri við þetta sker, til hægri við hitt og svo beint upp að stiganum sem lá 30 metra niður bjargið í fjöruna. Sem betur fer var renna og spil sem hægt var að nota til að draga upp farangurinn með. Allur farangur hafði verið settur í stóra svarta ruslapoka, sem stýrimaður setti hnút á og setti í annan poka með sömu tilfærslu þannig að allt komst nú þurrt í land. Sameignarsinninn lét okkur fá til fósturs stálpaðan hvolp sem hann kallaði Lappa. Hann sagði varðskipsmönnum að Rússar hefðu komið með á kafbát þegar þeir komu að heimsækja hann. Af hverju heitir hundurinn þá ekki Rússi, spurði ég. Hundurinn var veturgamall og var það heimskasta grey sem ég hef séð. Hann var að upplifa sitt fyrsta vor og við Jói vorum að reyna að ala hann eitthvað upp en gekk lítið. Hann elti hvern einasta fugl sem flaug, sem þýddi að það var mikið að gera hjá honum, því fljótlega varð bjargið eins og stórborg. Refirnir stríddu honum og höfðu gaman að.
Ég hélt að vorið væri að koma um miðjan maí, en fann fljótt að það hlýnar ekkert mikið á þessum stað, að minnsta kosti ekki þetta sumar, því hafísinn var ekki langt undan. Maður fann kalsann af sjónum. Ég man að það gat munað nokkrum hitastigum á okkur og Æðey, sem er næsti veðurathugunarstaður.
Nokkrir vinir höfðu boðað komu sína um Jónsmessu og voru fyrstu gestir okkar Jóa það sumarið. Upp úr því fóru að koma ferðamannahópar, fyrst frá Ferðafélaginu í byrjun júlí og skömmu síðar kom Gísli Hjartar með hóp hestamanna. Þetta var líklega fyrsti reiðhópurinn um Hornstrandir, því fólk fór þarna um áður á bát eða gangandi. Landið var slæmt yfirferðar og ekki talið fært hestum milli víkna. Þorvaldur Thoroddsen talaði um hestlaust helvíti. Vestfirsku hestamennirnir voru með úrvalsgæðinga með sér og kom í ljós að þeir fóru þetta nokkuð auðveldlega. Þegar þeir fóru, fór Lappi með þeim. Við reyndum að ná honum til baka en hann vildi ekki. Mér skilst að hann hafi endað á bæ í Djúpinu.
Um miðjan júlí var von á Óla til baka. Þremur dögum fyrr sáum við varðskip á ferð norður Strandir sem var að þjónusta sjálfvirku vitana. Þeir voru með þyrlu, flugu með fulla gaskúta og annað sem þurfti, skiptu um og tóku tómu kútana með til baka. Meðan skipið sigldi var eitt gengi í þyrlunni og annað sem tók til efni fyrir þá á skipinu. Það varð úr að ég fór með þeim inn á Ísafjörð og Jói sagðist myndu taka að sér athuganirnar þar til Óli kæmi til baka. Mér skilst að þeir hafi ekki ræðst við þegar að því kom. Þessar leiðir sem ég hafði vanist að labba og ætla mér einn og tvo tima til að fara, eins og yfir í Hornvík, urðu allt í einu að fimm mínútna ferð með þyrlunni í skipið sem dólaði fyrir norðan Hælavík, þegar við lentum. Þá var um tveggja tíma stím með skipinu inn til Ísafjarðar. Daníel sá um að skutla mér á völlinn þar sem beið flugvél. Klukkutíma síðar var ég svo kominn heim á Amtmannsstíg. Ég var kominn úr kyrrðinni.
Ég var að vinna í steypuverksmiðju. Ég steypti, þurrkaði og hlóð á bretti 1000 sex tommu steypurörum þegar vel gekk. Það eru um 30 tonn á góðum degi. Þegar Þorbergur Þórsson stakk upp á að ég reyndi að komast í sumarvinnu á vita leist mér vel á. Hann hafði ráðið sig um veturinn á Galtarvita með Jóhanni Péturssyni.
Mér bauðst að vera um sumarið með Jóa á Hornbjargsvita. Þar hafði hann verið vitavörður í 25 ár þar til hann komst á eftirlaun 3 árum fyrr. Jói varð sjötugur þetta ár og hafði verið að taka að sér afleysingar á vitunum. Til aðstoðar fékk hann menn eins og okkur Þorberg.
Það er villandi að tala um vitavörslu á Hornbjargi á sumrin. Slökkt er á vitum fyrir norðan land 1. maí og kveikt aftur 15. ágúst, ef ég man rétt. Fyrir sunnan línu sem er held ég 65. breiddarbaugurinn, er hins vegar slökkt frá 15. maí til 1. ágúst. Það þurfti þess vegna ekki að sjá um ljósvitann. Ég fékk samt Jóa til að sýna mér handbrögðin við það, sem var auðfengið. Hins vegar var radíóviti þarna sem við máttum reyna að halda gangandi. Þegar þarna var komið sögu voru ekki margir sem notuðu radíóvita. Það voru þess vegna ekki keyptir í hann varahlutir en við höfðum nægan tíma að dútla í honum.
Aðalstarfið var við veðurathugun. Veðrið var tekið á þriggja tíma fresti allan sólarhringinn. Strangt til tekið gæti einn sinnt því. Á svona afskekktum stað þýðir það að það verða að vera tveir á staðnum. Ef annar veikist snögglega eða eitthvað ber út af getur hinn fengið hjálp og sinnt því sem sinna þarf í nokkra daga. Þegar allt gengur eins og það á að vera skiptum við með okkur vöktum, þannig að annar tók athuganir frá 9 að kvöldi til 6 að morgni, en hinn frá 9 að morgni til 6 að kvöldi. Við skiptum vikulega að taka dag- og næturvakt.
Á þessum tíma árs er bjart allan sólarhringinn og gott að lifa. Ég kom um miðjan maí. Við áttum að vera rúma tvo mánuði. Allir vitaverðir fengu staðaruppbót á frí, mismikið eftir þvi hversu afskekktur staðurinn var. Á Hornbjargsvita var fríið tvöfalt, en minna á öðrum stöðum. Launin voru strípaður lægsti taxti hjá Dagsbrún. Við fengum húsnæði, hita og rafmagn, en greiddum mat og allt annað sjálfir. Maður eyddi náttúrulega ekki miklu á þessum stað. Mig minnir að ég hafi keypt ég kexpakka og kartöflupoka til viðbótar við matarskammtinn sem Jói sá um, en afraksturinn eftir tvo mánuði urðu tæpar 50.000 krónur þegar upp var staðið.
Við vorum að leysa af Ólaf Þ. Jónsson sem er betur þekktur sem Óli kommi. Sameignarsinninn hafði komið þarna um haustið og var að fara í sitt fyrsta frí. Hann sagðist ætla til Sovétríkjanna áður en þau liðuðust undir lok, en ég held að hann hafi aldrei séð fyrirheitna landið. Jói vildi ekki tala við hann, þannig að ég fór yfir allt með honum þennan klukkutíma sem varðskipsmenn stoppuðu. Hornbjargsviti er í raun rétt sunnan við bjargið, í Látravík. Lending þar er svo góð sem engin. Þarna bjó enginn fyrr en nokkrum árum áður en vitinn var byggður 1930. Til að hægt sé að koma fólki og farangri í land þarf að vera nokkuð gott í sjóinn. Óla var greinilega farið að lengja að komast í frí. Hann tilkynnti allt í einu minna en hálfs metra ölduhæð, þar sem hafði verið yfir tveggja metra hæð. Vind hafði ekki lægt þannig að Jóa grunaði að ekki væri allt með felldu. Þegar varðskipið sigldi fyrir Horn og inn á móts við víkina sáum við að Jói hafði haft rétt fyrir sér, það var enn tveggja metra alda. Eftir að hafa ráðfært sig við Jóa ákvað skipstjóri að við skyldum samt prófa að taka land. Stýrimaður og fimm aðrir skelltu sér og okkur í flotgalla, hífðu út Zodiakinn og héldu af stað. Jói leiðbeindi inn á víkina og um leið og við vorum komnir á gúmmíbátnum á mannhæðarhátt dýpi var manni skipað út fyrir að draga bátinn í land. Við vorum fjórir sem það gerðu og þannig heilsaði Látravík mér. Jói var í stafni og benti okkur, til vinstri við þetta sker, til hægri við hitt og svo beint upp að stiganum sem lá 30 metra niður bjargið í fjöruna. Sem betur fer var renna og spil sem hægt var að nota til að draga upp farangurinn með. Allur farangur hafði verið settur í stóra svarta ruslapoka, sem stýrimaður setti hnút á og setti í annan poka með sömu tilfærslu þannig að allt komst nú þurrt í land. Sameignarsinninn lét okkur fá til fósturs stálpaðan hvolp sem hann kallaði Lappa. Hann sagði varðskipsmönnum að Rússar hefðu komið með á kafbát þegar þeir komu að heimsækja hann. Af hverju heitir hundurinn þá ekki Rússi, spurði ég. Hundurinn var veturgamall og var það heimskasta grey sem ég hef séð. Hann var að upplifa sitt fyrsta vor og við Jói vorum að reyna að ala hann eitthvað upp en gekk lítið. Hann elti hvern einasta fugl sem flaug, sem þýddi að það var mikið að gera hjá honum, því fljótlega varð bjargið eins og stórborg. Refirnir stríddu honum og höfðu gaman að.
Ég hélt að vorið væri að koma um miðjan maí, en fann fljótt að það hlýnar ekkert mikið á þessum stað, að minnsta kosti ekki þetta sumar, því hafísinn var ekki langt undan. Maður fann kalsann af sjónum. Ég man að það gat munað nokkrum hitastigum á okkur og Æðey, sem er næsti veðurathugunarstaður.
Nokkrir vinir höfðu boðað komu sína um Jónsmessu og voru fyrstu gestir okkar Jóa það sumarið. Upp úr því fóru að koma ferðamannahópar, fyrst frá Ferðafélaginu í byrjun júlí og skömmu síðar kom Gísli Hjartar með hóp hestamanna. Þetta var líklega fyrsti reiðhópurinn um Hornstrandir, því fólk fór þarna um áður á bát eða gangandi. Landið var slæmt yfirferðar og ekki talið fært hestum milli víkna. Þorvaldur Thoroddsen talaði um hestlaust helvíti. Vestfirsku hestamennirnir voru með úrvalsgæðinga með sér og kom í ljós að þeir fóru þetta nokkuð auðveldlega. Þegar þeir fóru, fór Lappi með þeim. Við reyndum að ná honum til baka en hann vildi ekki. Mér skilst að hann hafi endað á bæ í Djúpinu.
Um miðjan júlí var von á Óla til baka. Þremur dögum fyrr sáum við varðskip á ferð norður Strandir sem var að þjónusta sjálfvirku vitana. Þeir voru með þyrlu, flugu með fulla gaskúta og annað sem þurfti, skiptu um og tóku tómu kútana með til baka. Meðan skipið sigldi var eitt gengi í þyrlunni og annað sem tók til efni fyrir þá á skipinu. Það varð úr að ég fór með þeim inn á Ísafjörð og Jói sagðist myndu taka að sér athuganirnar þar til Óli kæmi til baka. Mér skilst að þeir hafi ekki ræðst við þegar að því kom. Þessar leiðir sem ég hafði vanist að labba og ætla mér einn og tvo tima til að fara, eins og yfir í Hornvík, urðu allt í einu að fimm mínútna ferð með þyrlunni í skipið sem dólaði fyrir norðan Hælavík, þegar við lentum. Þá var um tveggja tíma stím með skipinu inn til Ísafjarðar. Daníel sá um að skutla mér á völlinn þar sem beið flugvél. Klukkutíma síðar var ég svo kominn heim á Amtmannsstíg. Ég var kominn úr kyrrðinni.
Flokkur: Horft um öxl | Breytt s.d. kl. 23:34 | Facebook
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.