Færsluflokkur: Kvikmyndir
30.3.2009 | 21:51
Mótmælin 30. mars 1949 sem skrípamynd
19.10.2008 | 12:47
14-3
Þau sem heimsækja England þessa dagana hafa líklega hugann mest við óhagstætt gengi og mikilvægi þess að minnast lítið á það að maður sé Íslendingur.
Það gæti farið fram hjá þeim eins og öðrum sem heimsækja Englendinga að undanfarna mánuði hefur enska karlalandsliðið í fótbolta átt sína bestu tíð síðan 1966.
Af fjórum leikjum í undankeppni HM hafa þeir unnið fjóra. Þeir hafa skorað 14 mörk og fengið á sig 3.
Þó að fótbolti sé mikilvægari en líf og dauði fyrir marga ræða enskir lítið um þennan góða árangur. Það getur verið af varfærni þar sem liðið á eftir sex leiki í riðlinum. Það bætist við varfærnina að nýr framkvæmdastjóri stendur að baki öllum sigrunum og að hann er Ítali.
Capello hefur tekist að töfra fram það besta hjá Ferdinand, Rooney og Heskey. Heskey byrjaði reyndar að blómstra eftir að fara til Wigan og er núna aftur orðinn álitlegur kostur fyrir Liverpool. Það er engin ástæða til annars en að Englendingum takist jafn vel í síðari hrinu undankeppninnar, sem byrjar 28. mars og lýkur 14. október á næsta ári.
Það var oft látið eins og Sven-Göran Eriksson tækist ekki að koma liðinu eins langt og það hefði átt að fara. Hann kom því þó í undanúrslit í HM 2006. Það kann að villa fólki sýn að þó að enska Premier League sé greinilega orðin sterkasta landsdeildin þá segir það lítið um styrk enska landsliðsins. Núna hefur það náð sér á strik og þarf bara að sjá hvort þetta dugir til 2010.
21.3.2008 | 03:21
Blóð mun fljóta - There will be blood
Blóð mun fljóta eða There will be blood byggir á sögunni Olíu eftir Upton Sinclair. Sinclair kunni að segja stórar sögur og það þarf ekki að undra að hann hafði áhrif á ungan Halldór Laxness. Sagan er um baráttu þeirra sem láta fátt standa sér í vegi og hinna, sem jörðina erfa. Hún minnir þannig á Heaven's Gate.
Bíósalurinn ætlaði seint að fyllast. Fram að miðnætti var að koma inn fólk. Eftir því sem myndinni vatt lengur fram varð fólkið sem kom inn með eldri og eldri hárgreiðslu þangað til ég hélt að níundi áratugurinn væri kominn. Þá sá ég ekki betur en einhver kæmi með stríðsáragreiðslu. Sambíóin við Álfabakka eru skrýtin tímavél því að myndin náði ekki einu sinni svo langt í sögunni. Hún var skrifuð árið 1927. Því er lýst betur í bók eftir Laxness, að mig minnir í Skáldatíma.
Leikarar eru góðir, leikstjórn góð og sviðsetning mjög góð . Tónlistin var á stundum skelfileg, en þá aðeins til að undirstrika boðskap myndarinnar, sem fólst í lokaorðum sonar Plainview, þegar hann kvaddi föður sinn.
Mjög gott.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 03:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2008 | 23:54
No country for old men
Þetta er sérkennileg mynd. Hafa Coen-bræður skrifað emjandi gamanmynd og ákveðið á miðri leið að verða alvarlegir og eiga möguleika á Óskarsverðlaunum?
Þegar ég sá myndina fannst mér hlutverk Anton Chigurh vera aðalhlutverkið, það sem myndin hverfist um. Það þarf að hafa góðan leikara til að halda uppi meginhlutverkinu. Javier Bardem er meira en góður í myndinni. Hann gæðir þennan sálarlitla morðingja þvílíku lífi að bæði hryllingur og unun er að sjá.
Sálarleysi Chigurh olli mér heilabrotum. Maður sér hann murka lífið úr mörgu saklausu fólki. En fær maður að vita hvað drífur hann áfram? Stundum er hann eins og zombí í leit sinni að tveimur milljónum í tösku, stundum eins og Wile E. Coyote að elta Roadrunner. Roadrunner er þá veiðimaðurinn Llewelyn Moss, sem Josh Brolin leikur.
Gæðaleikarar eins og Woody Harrelson og Tommy Lee Jones verða að aukapersónum þegar þessi eltingaleikur berst fram og til baka um vesturhluta Texas og yfir landamærin hjá Rio Grande. Hafa Coen verið að horfa á vestra eftir John Ford með því nafni, eða A touch of evil? Að sjálfsögðu.
Það er eitt sem setur svip á myndina fyrir utan hárgreiðslu Chigurh, sem er tímasetningin. Það hefði verið öðruvísi að sjá þennan eltingaleik tímasettan árið 2006 með staðsetningartækjum, heldur en að láta hann gerast 1980. Tæknin er fremur frumstæð fyrir okkar tíma og eykur spennuna.
Afbragðsgóð mynd.
3.2.2008 | 22:04
Bagdad Café dubbuð á þýsku!
Ég horfi ekki á óþýskar myndir í Þýskalandi. Ástæðan: Þær eru dubbaðar á þýsku.
Það er hægt að sjá myndir ódubbaðar í einhverjum leynilegum lókölum, skilst mér, eða einu sinni í viku á stærri kvikmyndasöfnum.
Nú er Out of Rosenheim (Bagdad Café) komin dubbuð á þýsku í sjónvarpið. Æi, nei, þetta horfir maður ekki á. Eins og þetta er annars góð mynd.
3.2.2008 | 16:46
Atonement - Friðþæging
Hversu góð er þessi mynd? Hún er afbragð.
James McAvoy og Keira Knightley sýna bæði hófstilltan og góðan leik. McAvoy hefur sýnt góða takta í The Last King of Scotland en ég hef ekki séð Knightley standa sig svona vel áður. Klippingin er góð og sviðsetningin afbragð, sérstaklega stórsviðið við Dunkerque. Tónlist Marianelli lyftir myndinni víða og gerir smáu atriðin stór.
Söguþráður er sagður vera af mistökum 13 ára stúlku og afleiðingum þeirra. Þó það bindi söguna saman á yfirborðinu er þetta ósvikin ástarsaga af fólki sem ekki á að fá að njótast. Það er innihald sögunnar, undirstrikað með síðustu orðum franska hermannsins sem heldur í hönd Briony þegar hann gefur upp öndina.
Það sem brá helst skugga á að ég gæti notið myndarinnar var að sjá hana í einum af smáu sölum Háskólabíós. Við hlið hans er besti bíósalur landsins. Ef bíóið færir myndina í stóra salinn ættu allir að sjá hana.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 17:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.2.2008 | 00:09
Betri en Eggert Þorleifsson?
Margir muna eftir tilþrifum Eggerts Þorleifssonar í hlutverki Friðriks Þórs. Hann þótti hafa náð Friðriki betur en Friðrik gerir sjálfur.
Friðrik lék í hinni undurfurðulegu mynd Triers, Direktøren for det hele ásamt Benedikt Erlingssyni, Jens Albinus, Iben Hjejle, Peter Gantzler og fleiri stórleikurum. Eftir góðan leik hans þar velti maður því fyrir sér hvort Friðrik væri leikari sem léki hlutverk Friðriks Þórs Friðrikssonar, leikstjóra og framleiðanda á Íslandi.
Svo er bara að vona að Hilmir Snær festist ekki í hlutverki Friðriks Þórs. Það er ólíklegt þar sem Friðrik Þór leikstýrir myndinni en hann var lengi kunnur fyrir að gefa lítil fyrirmæli til leikara.
Hilmir Snær verður Friðrik Þór | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 15:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.1.2008 | 14:42
The Darjeeling Limited - bíórýni
Það lítur út fyrir að Jason Schwartzman sé hrifinn af áttunda áratugnum. The Darjeeling Limited byrjar á stuttmynd og fyrsta myndin er af honum, með klippingu sem hefði sómt sér vel í All the President's Men eða Marathon Man. Þar til hann setur iPodinn af stað, gæti myndin sómt sér vel árið 1972.
Fyrst datt mér til hugar hvort hann og vinur hans Roman Coppola hafi fengið að róta í gömlum handritageymslum, fundið eitt frá 1972 og breytt nokkrum atriðum þar til hún gerist, að nafninu til, árið 2005.
Sagan er ekki bundin við tíma, það er svarið. Þrír bræður hittast á Indlandi eftir lát föður þeirra. Sá elsti, leikinn af Owen Wilson, er að reyna að sætta þá. Hann velur til þess þaulskipulagt lestarferðalag um norðurhluta Indlands, þar sem þeir eiga að sækja sem flest hof á leiðinni og verða fyrir uppljómun. Bræðurnir eru efnishyggjumenn þar sem allt gengur út á hver á hvað, hvað hlutir kosta (mikið) og hver sofi hjá sæta súraldininu. Þetta er vegamynd, road movie, eða öllu frekar rail movie, járnbrautarmynd. Sagan tekur breytta stefnu og þeir finna svörin að lokum.
Wes Anderson leikstýrir. Leikurinn, sviðsetningin og myndin eru tilgerðarleg og sverja sig í ætt við sálarleitarmyndir frá enda sjöunda áratugarins og byrjun þess áttunda.
Af því að Roman Coppola kemur hér við sögu sem handritsskrifari, þá verður að minnast á ágæti þess að heita Coppola í bíóbransanum. Sofia og Roman bróðir hennar hafa fengið að gera ýmislegt sem aðrir myndu varla fá að gera í krafti föður síns, Francis Ford Coppola. Bróðursonur Francis heitir Nicholas Cage. Hann taldi að Coppola-nafnið myndi geta orðið honum til trafala, þar sem fólk myndi segja að hann fengi hlutverk bara út á það. Nokkuð glöggur, kallinn.
Endilega að líta á Darjeeling Limited ef þið viljð sjá sálarleit. Brody og Wilson leika vel. Smástirnið Amara Karan á góðan sprett og fleiri góðir leikarar koma við sögu, Bill Murray og Angelica Houston. Ef þið hafið ekki áhuga á sálarleit verður þetta bara tilgerðarleg gaman- og vegamynd.
Ég átti ekki gott með að meta hvort myndin var vel tekin þar sem brennipunkturinn var ekki á sýningartjaldinu í sal 3 í Háskólabíó á laugardagskvöldið og myndin var sýnd með loðinn ramma. Textavél gekk heldur ekki í takt við mynd. Sýningarmaður þarf að þrífa linsur og gæta að brennipunktinum.
20.1.2008 | 04:13
Að njóta kvikmynda
Ég var alinn upp við að horfa gagnrýninn á kvikmyndir. Annað hvort væri nú, sonur kvikmyndagagnrýnanda á Tímanum.
Þegar ég fletti IMDb (Internet Movie Database), þeim merka gagnagrunni, sé ég það sem er kallað Goofs, eða mistök. Dæmi úr The Wizard of Oz: Crew or equipment visible: The shadow of the camera crew is visible as it pans across the nest of the munchkins hatching in Munchkinland. Einmitt það, já. IMDb telur þetta þó greinilega til minna mikilvægra þátta í myndum, þar sem það er flokkað undir Fun Stuff.
Vandinn er að margir sjá þetta ekki sem neitt alvöruleysi. Sumir kunningjar mínir voru afar uppteknir af þess háttar hlutum og örugglega hægt að finna nóg af þessu í ódýrt framleiddum myndum frá öllum áratugum.
Fyrir mér var þetta svipuð leið að horfa á myndir eins og standa upp með reglulegu millibili í salnum og hrópa: - En þetta er allt skáldskapur! Ég horfði á myndir og leikrit og vildi lifa mig inn í skáldskapinn. Öðruvísi hefði maður varla getið lesið bók, þær eru bara prentaður pappír bundinn saman á einni hlið ef maður sleppir skáldskapnum.
Það hefur eflaust gildi fyrir metnaðarfulla kvikmyndagerðamenn að reyna að sjá mistök, sérstaklega þau sem eru að stíga sín fyrstu spor. En þetta er ekki það sem myndin gengur út á. Hún er afþreying, skemmtun, saga sem er sögð í tvo tíma. Gott handrit, góð taka, gott hljóð, góð tónlist, góður leikur, góð klipping, góð sviðsetning, þetta býr til góða mynd.
Svona goofs fara ekki að leika mikið hlutverk nema í afbragðs lélegum myndum sem maður horfir reyndar einmitt á af því hversu illa þær eru gerðar.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 04:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2008 | 16:32
Um handbolta, hóflausa drykkju og Kusturica
Á fimmtudagskvöld, meðan þjóðin horfði á handboltaleik í Þrándheimi, fór ég í bíó. Það var einfaldlega of nöturlegt að horfa á öll mistökin og eftir hálftíma var ég búinn að fá nóg. Eins og góður maður sagði, þá spilaði íslenska liðið eins og kjánar.
Fyrr á árum gat ég dottið í það eins og það kæmi ekki dagur eftir þann dag, föstudags- og laugardagskvöld flestar helgar ársins. Svo hætti ég að hafa gaman af því og þá var það búið. Þegar drykkjan var búin og svefninn tók völd, tók við ruglingslegur draumur.
Þann draum sá ég í bíó á fimmtudagskvöldið og hann heitir Lofaðu mérá íslensku, Promets moi á frönsku. Ég veit ekki hvað myndin er að gera á franskri kvikmyndahátíð, líklega framleidd af Frökkum. Þetta er serbnesk mynd, um brjálaða Serba, og er eftir Emir Kusturica. Fyrir þau sem eru að sjá Kusturica í fyrsta skipti er þetta hin besta skemmtun.
Frásagnarmátinn er teiknimynd, leikin á tjaldi, slapstick. Það vantar pólitíska broddinn sem hann sýndi í Neðanjarðar, dýpri tilfinningar sem hann sýndi í Svartur köttur, hvítur köttur, eða þá að þetta fari fyrir ofan garð og neðan hjá Íslendingi og að Serbarnir sjái kannski einhverja ádeilu sem við skynjum ekki. Fyrir okkur er þetta bara Buster Keaton með ávæningi af Dusan Makavjev. Sem er ekki slæmt, þetta var hin ágætasta skemmtun.
Það var ágætt að ganga út af fylleríinu en sjálfur áfengislaus.
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar