Færsluflokkur: Fréttir
30.4.2009 | 18:58
Íslenska orðið kreppa komið á síður heimsblaða
Í Economist sem kemur út í London í fyrramálið er grein um nýliðnar kosningar hér. Löng ferð fyrir fyrrum flugfreyju, segir þar.
Íslenska orðið kreppa kemst þarna í heimsfréttirnar í óbrenglaðri mynd.
Economist kynnti lengi Davíð sem fyrrum skemmtikraft (former radio comedian) og nú er Jóhanna einnig kennd við fyrri verk sín þar.
Fréttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.4.2009 | 10:49
Kvótinn, á að laga hann eða vilja menn bara meira
Aldrei hef ég séð kvótakerfið sem eitthvert undrakerfi heldur illskásta kostinn í stöðunni. Hér verður að vera veiðistjórnun og í sóknarkerfinu sem var hér lengi var alltaf veitt mikið fram yfir heildarkvóta.
Ég ber ekki mikla virðingu fyrir óréttlætinu sem felst í núverandi kerfi og sé ekki hvernig veiðireynsla þriggja ára á níunda áratugnum á að vera grundvöllur fyrir eignamyndun um aldur og eilífð.
Ég hef lagt sitthvað á mig til að finna hvað gagnrýnendur kvótakerfisins vilja setja í staðinn og hef helst séð tvennt, að nota færeyska kerfið og svo hörð krafa um miklu hærri kvóta. Um allan heim sé ég afleiðingar þess þegar látið er undan kröfum um hærri kvóta, með þeim ummælum að annars missi fólk vinnuna. Þá er stutt í að stofnar hrynji. Dæmin um þetta eru óteljandi og bætist stöðugt við á hverju ári í flestum löndum öðrum en Íslandi.
Einn versti galli núverandi kvótakerfis er óöryggi litlu plássanna um það hvar kvótinn verður næsta ár. Ég sé nokkrar leiðir sem geta bætt þetta að einhverju leyti, eins og að bátar yfir ákveðinni stærð fái aðeins að veiða utan ákveðinna marka, til dæmis 4, 6 eða 12 mílur. Innan þeirra fái aðeins bátar sem eru til dæmis undir 15 brúttótonnum að veiða en verði einnig undir kvóta þar.
Ég óska mínum örfáu lesendum gleðilegs sumars og vona að vetur eins og þessi komi ekki aftur!
Fréttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2008 | 20:27
Hálfur sannleikurinn um dauða Díönu og Dodi
Í september skrifaði ég:
Díana prinsessa er aðalefni frétta í Bretlandi, 46 árum eftir fæðingu hennar og 10 árum eftir lát hennar. Réttarrannsókn á láti hennar hefst á þriðjudag og lýkur um hálfu ári síðar með þeirri niðurstöðu að bílstjórinn Henri Paul hafi verið undir áhrifum lyfja og kófdrukkinn að auki þegar hann ók á burðarsúlu í Pont d'Alma-göngunum á 100 km hraða á klukkustund að morgni sunnudagsins 31. ágúst 1997. Mohammed Al Fayed mun neita að horfast í augu við niðurstöðuna, en það eru fréttir komandi viku einhvern tíma á næsta ári, með hækkandi sól.
Jæja, ég náði að hafa þrjú atriði rétt þarna, en það fjórða bættist við. Nú er hækkandi sól, og Mohammed Al Fayed neitar að horfast í augu við niðurstöðuna, sem var að dauði Díönu og Dodi Al Fayed eru að kenna því að Henri Paul hafi verið undir áhrifum lyfja og kófdrukkinn en líka að papparassarnir hafi átt sinn þátt í drápi þeirra.
Mohamed Al Fayed vonsvikinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fréttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2008 | 08:26
Það er Grandavegur víða
Í gær benti ég umsjónarfólki Moggavefs á að fyrirsögnin Grandavegur lokaður væri röng, þar sem gatan sem um ræddi héti Eiðsgrandi. Þau leiðréttu það í frétt og í krækju en ekki í fyrirsögn.
Nú er frétt af húsi á Grandagarði og enn er Grandavegur kominn í fréttir.
Grandavegur liggur frá Meistaravöllum niður á Eiðisgranda, samhliða Hringbraut. Hann er fjarri þessum vettvangi, var ekki lokaður í gær og húsið sem um ræðir hér er ekki við Grandaveg, eins og kemur reyndar fram í fréttinni.
Gefa Grandaveg 8 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fréttir | Breytt s.d. kl. 08:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2008 | 08:19
Konu dreymir illa, 160 manns fluttir í land
Þetta var erfið nótt hjá einni konu, þreytt eftir hörmulegt veður alla hálfs mánaðar vaktina. Hún var ekki orðin 24 ára gömul og vann á einum erfiðasta stað í heiminum, úti í Norðursjó.
Hún dreymdi að það hefði einhver komið fyrir sprengju á íbúðapallinum Safe Scandinavia. Sagan magnaðist, barst til yfirmanna og eftir klukkutíma bar pallurinn ekki lengur nafn með réttu.
Stjórnendur höfðu samband við breska flugherinn sem sendi fimm þyrlur og Nimrod-vél á staðinn og byrjaði að flytja burt fólk. Á pallinum voru 539 manns. Brátt kom í ljós að sagan hafði ekki við nein rök að styðjast og flugherinn byrjaði að flytja fólk þangað aftur. 160 manns höfðu flogið af stað.
Konan verður leidd fyrir dómara í dag.
Byggt á frétt Guardian.
Sprengjuhótun á olíuborpalli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fréttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.2.2008 | 19:54
Ritstjóri Spiegelvefs verður aðalritstjóri
Í dag taka við stöðu aðalritstjóra Spiegel þeir Mathias Müller von Blumencron, fyrrum ritstjóri Spiegel Online og Georg Mascolo, yfirmaður Spiegel í Berlín.
Þessi frétt kemur eftir nokkrar deilur milli starfsfólks Spiegel og útgáfufyrirtækisins Gruner + Jahr. Það má telja tímanna tákn að ritstjóri vefútgáfu verði að aðalritstjóra á þessu áhrifamikla riti.
Fréttir | Breytt s.d. kl. 19:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.12.2007 | 09:48
Bloggarar og fréttir
Fréttablöð og bloggarar hafa átt í svolítið taugaveikluðu sambandi undanfarin ár. Í árdaga bloggsins var því kastað fram að það myndi ganga af fréttablöðunum dauðum.
Það er víst að ég myndi ekki fagna því að bloggið tæki við hlutverki þeirra. Meðferð DV á aumingjum landsins er hátíð miðað við opinberu aftökurnar sem hafa gerst á blogginu.
Sem betur fer fyrir mig eru ekki miklar líkur á að þetta gerist. Vefútgáfur hefðbundnu fréttamiðlanna eru staðurinn sem fólk sækir núna daglegar fréttir.
Það eru ekki miklar fréttir sem hafa orðið til hjá bloggurum miðað við hefðbundna fréttamiðla. Með því að fara yfir málin má sjá að það eru bloggarar sem endurskrifa fréttir sem hafa birst á vefmiðlunum, ekki öfugt.
Það er helst að það er fjör á blogginu kringum kosningar. Þá koma sögurnar fram þar. Síðan fellur allt í dróma.
Fréttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.12.2007 | 21:28
Vinur Víkverja á förnum vegi
Sagt er að Víkverji Mogga sé næst-óheppnasti maðurinn á landinu. Sá óheppnasti sé vinur Víkverja.
Sem betur fer er það ekki alltaf sami maðurinn eða konan sem er Víkverji dagsins, og vinir Víkverja þannig fleiri en einn, af báðum kynjum, úr ýmsum stéttum og á ýmsum aldri.
Samt hefur maður á tilfinningunni að Víkverji og vinir hans séu í anda, ef ekki raunverulega, á aldrinum fimmtíu til sextíu eða svo. Lífinu virðist eitthvað vera í nöp við þá, en samt bara nóg til að stríða þeim.
Ég hitti kunningja á förnum vegi í dag og talið barst víða. Það kom í ljós að hann þekkir vel blaðamann á Mogga og hafði einmitt verið vinur Víkverja við fleiri en eitt tækifæri.
Sem betur fer var miklu skemmtilegra að hlusta á hann segja sögur af hræðilegri þjónustu á landsbyggðinni en að lesa þetta í Víkverja.
Ég hef þá hitt óheppnasta mann á landinu, að sögn.
Fréttir | Breytt s.d. kl. 22:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.10.2007 | 23:18
Hvar er þessi 1. deild í ensku knattspyrnunni?
Það er ekki hægt að biðja um að allir fylgist vel með öllu, en það er hægt að fara fram á að fréttafólk sem afmarkar sig við ákveðið efni viti hvað það er að tala um.
Mér finnst ekki gott að hlusta á lýsingar Íslendinga á enskri knattspyrnu, enda of góðu vanur frá Bretlandi, þar sem eru topplýsendur á hverjum leik. Það sem vantar hjá íslensku íþróttafréttamönnunum hefur of oft verið að þeir eru hreinlega ekki nógu vel að sér til að halda uppi lýsingu á rúmlega 90 mínútna leik.
Þannig tók þá nokkur ár að uppgötva að efsta deildin í enskri knattspyrnu hét ekki lengur fyrsta deild, heldur úrvalsdeild (Premier League) eftir 1992. Þá urðu deildirnar þar fyrir neðan 1., 2. og 3. deild (Football League First division, Second division, Third division).
Það breyttist svo árið 2004. Þá heitir næstefsta deild meistaradeildin (Championship) og deildirnar þar fyrir neðan deild 1 (League One) og deild 2 (League Two). Enn ræða íslenskir íþróttafréttamenn, eða að minnsta kosti allt of margir þeirra um 1. og 2. deild, en eiga við meistaradeild og deild 1.
Nú finnst mörgum stungin tólg og tala um að allir viti nú hvað átt er við, að fáir fylgist með neðri deildunum og að það sé nú fótboltinn sem skipti öllu máli.
Það er ekki rétt, ég veit ekki hvort er átt við næstefstu deild eða þá þriðju efstu þegar rætt er um 1. deild í ensku knattspyrnunni. Það eru margir sem fylgjast með neðri deildunum, ekki síst þeir sem hafa átt heima í Bretlandi eða dvalið þar, og þeim fer fjölgandi. Fótboltinn sjálfur skiptir öllu máli, en það þýðir að hafa á hreinu þá umgjörð sem hann er spilaður í, í heimalandi boltans.
Sumir kunna að spyrja af hverju næstefsta deild heiti Championship. Það er vegna þess að eftir að úrvalsdeildin kom til skjalanna sem sérstök eining, er Championship efsta deild Football League. Það lið sem vinnur deildina er því meistari Football League.
Svo mega íslenskir íþróttafréttamenn temja sér það að læra nöfn knattspyrnuliða víðar en á Englandi. Þeir sem ekki einu sinni kunna nöfn Celtic og Rangers eiga margt ólært áður en þeir geta borið fram Racing Santander rétt eða vita fyrir hvað Panathinaikos stendur. Þetta gera enskir, þannig að íslenskir eru ekki of góðir til þess.
Fréttir | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.10.2007 | 00:25
Milljón tonn af síld
Eru það ekki fréttir lengur að milljón tonn af síld séu gengin í Grundarfjörð, samanber þessa frétt í Skessuhorni, fréttamiðli á Vesturlandi?
Þetta er stórfrétt, hvernig sem á það er litið.
Fréttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
RSS-straumar
Eldri færslur
Tenglar
Umræða
- Betri Reykjavík Umræðu- og ákvörðunarvettvangur um málefni Reykjavíkur
- Betra Ísland Umræðuvettvangur fyrir mál á döfinni
Vinir og kunningjar, hinir og þessir
Tenglar í allar áttir
- Tómas Ponzi Tómas Ponzi, teikniblogg
- UNO UNO, Hörður Svavarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar