Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Kjaramál

Öryggið leyfir fólki að taka sjálft áhættuna

Öruggt þjóðfélag með öruggan efnahag leyfir einstaklingnum að taka áhættuna sjálfur en vera ekki leiksoppur þjóðaráhættunnar. Reynsla fyrsta áratugar þessarar aldar sýnir á hinn bóginn hvar þarf að herða reglur fyrir viðskiptalífið, sem hvorki tryggði hagsmuni eigenda né viðskiptavina.

Margir vilja draga stóru drættina í vestrænum heimi sem annars vegar evrópska þjóðfélagið með miklu félagslegu öryggiskerfi, iðnað og þjónustu í föstum skorðum þar sem stéttarfélög ráða miklu og hins vegar bandarísk-engilsaxneskt þjóðfélag með færri reglum og meira svigrúmi fyrir einstaklinginn til athafna.

Þetta mynstur hefur verið til um langa hríð og fólk hefur komið auga á nokkrar þversagnir í þessari mynd. Hvers vegna eru svo margir frumkvöðlar frá Svíþjóð, sem að margra mati var í fararbroddi þess sem hér er kallað evrópskt þjóðfélag um aldarskeið, þar á meðal ríkustu fjölskyldur Evrópu sem grætt hafa stórfé á snjöllum uppfinningum og hönnun? Án þess að hæla sænsku þjóðfélagi sérstaklega, þá sé ég einmitt ekki þversögn í þessu.

Við höfum búið við þjóðfélag sem aflétti reglum og opnaði fyrir viðskipti allt frá níunda áratugnum. Það var engin vanþörf á því og nú er leitun að fólki sem vill fara aftur til þeirra reglna sem þá giltu. Það er leitun að þeim en þau eru samt vel finnanleg í fleiri en einum stjórnmálaflokki. Með bættri fjármálastjórn hins opinbera á tíunda áratugnum horfði þetta allt til framfara. Það á að halda áfram á þeirri braut en ekki fara til baka.

Reynsla fyrsta áratugar þessarar aldar sýnir á hinn bóginn hvar þarf að herða reglur fyrir viðskiptalífið, sem hvorki tryggði hagsmuni eigenda né viðskiptavina. Þá kemur að örugga þjóðfélaginu sem hefur betur náð að tryggja þessa hagsmuni. Það hefur ekki komið í veg fyrir þróttmikið frumkvöðlastarf og nýsköpun á Norðurlöndunum, sem fleytir þeim núna í gegnum kreppuna án stóráfalla. Opinber sjóður með eignir upp á meira en ársframleiðslu Noregs hefur þýtt að norska þjóðin stendur núna með pálmann í höndunum í fjármálakreppunni. Þrátt fyrir það sem haldið hefur veirð fram á Íslandi er olíusjóðurinn norski alopinber og alls ekki einkarekinn.

Öryggið leyfir einstaklingnum að taka áhættu og gera hlutina sjálfur. Það þýðir einnig að einstaklingar og fyrirtæki sem reyna að byggja upp á eigin spýtur þurfa ekki að lifa við efnahagsástand þar sem utanaðkomandi áhrif hafa alltaf meiri áhrif en gerðir þeirra sjálfra.


Niðurskurður er góður fyrir aðra

Niðurskurður í heilbrigðis-, félags- og menntamálum er í góðu lagi meðan maður lendir ekki í honum sjálfur eða einhver sem stendur nærri manni.

Það er fyrst þegar á reynir og einhver nákominn lendir í að veikjast eða slasast, sem þú veist hvað það kostar að hafa ekki það sem til þarf til að koma fólki til heilsu.

Það er fyrst þegar þú lendir í því að veikjast, að þú finnur hvaða máli það skiptir að launþegahreyfingin hefur unnið í meira en hundrað að því að auka rétt þinn til launa og félagslegra styrkja, bæði utan þings og innan þess.

Það er fyrst þegar þú hugsar um hversu margir í þinni fjölskyldu luku háskólanámi fyrir hundrað árum og hversu margir gera það í dag, sem þú sérð muninn á því að geta lokið því sem margir telja sjálfsagt.

Ekkert af þessu er sjálfsagt, allt var það unnið með baráttu. Hvernig væri það núna ef við hefðum sjóði líkt og Norðmenn, til dæmis ef búinn hefði verið til Auðlindasjóður með framlagi fyrir afnot af fiskveiðum og orkulindum?

Þetta er aðeins eitt land

Þetta er ekki nema eitt land, fimm byggilegar eyjar, þúsund mílur frá öllum löndum og hér búum við, rétt rúm þrjúhundruð þúsund.

Við erum ekki nema hundrað þúsund ferkílómetrar. Það tekur innan við klukkutíma að fljúga landshorna á milli, minna en tíu tíma að keyra á ystu nöf.

Við verðum að haga okkur eftir því. Allt sem er gert snertir aðra á landinu. Það er ekki til nein einkamál landsbyggðar eða höfuðborgar. Allar stórframkvæmdir verða að fara í eitt heildarskipulag ef við viljum eitthvert skipulag yfirleitt.

Ef við viljum að það búi fólk hér yfirleitt fremur en að allt besta fólkið flytji til landa sem betra er að búa í, þurfum við að gera landið lífvænlegt fyrir venjulegt fólk, en ekki aðeins fyrir útvalda.

Hér hafa öll stjórnmál gengið út á að þjóna hagsmunum ákveðinna Íslendinga, ekki allra, yfirleitt sem fæstra.

Landbúnaðarkerfið hyglir kjúklinga- og svínabændum og heldur uppi iðnaði þar sem fáir Íslendingar sjást nema þeir sem eiga búin. Núverandi kvótakerfi hefur tryggt að allur arður sem gæti orðið af sjávarútvegi renni til nokkurra hundraða. Fyrirtæki í almannaeigu borga ofurlaun en skila litlum eða engum arði til eigendanna, sem fá ekki að vita á hvaða kjörum afurðirnar eru seldar.

Það má merkja að það stjórnmálafólk sem ekki ætlar að skera upp stjórnskipun, skipulag og skiptingu arðs, breyta lífskjörum þannig að almenningur og fyrirtæki geti lifað við stöðugt verðlag og gert fyrirætlanir til nokkurra ára í senn, það er fólk sem ætlar að þjóna litlum hópum þjóðfélags.

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband