Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

1968

Það eru nokkur umfjöllunarefni sem virðast ekki tæmast, því meira sem skrifað er um þau. Þvert á móti, þá eykst áhuginn, ef eitthvað er.

Þannig kemur út fjöldi bóka um spænsku borgarastyrjöldina á hverju ári, þótt nóg sé fyrir. Þegar árið 1980 voru komnar 5000 bækur um efnið og var ekki lát á.

Næsta ár má búast við hrinu af bókum um 1968, þetta töfrum gædda ár. Fyrir þau sem eru að rifja þetta upp er ágætt að velja bókina 1968: The Year that Rocked the World eftir Mark Kurlansky.


Söngur steinasafnarans - ljóð eftir Sjón

Sjón gaf út ljóð af miklum krafti hér áður en nú eru liðin 8 ár síðan hann gaf síðast út ljóðabók, telst mér til.

Kveðskapurinn hefur ekki breyst mikið á 8 árum, fremur farið í eldra far ef eitthvað er. Allt sem við lærum í sextíuogátta ára bekk líkist því sem hann skrifaði á níunda áratugnum. Annað dæmi um þetta eru Fórnargjafir handa 22 reginöflum.

Kannski eru þetta ljóð frá löngum tíma, eins konar anþólógía. Titilljóðið er undir áhrifum frá Braga Ólafssyni, nema að Sjón hafi haft svona mikil áhrif á Braga.

Nokkuð gott.

Að einu leyti er bókin mjög góð: Ef fólk vill fá nasa-Sjón af kveðskap hans, þá er þetta ágætis bók til þess.


Jólafastan

Já, nú er gaman að sjá Íslendinga halda jólaföstu. Þá heldur fólk í við sig í mat og drykk og lætur ekki eftir fyrr en á jóladag.

Gott fólk. 


Umhverfisvernd eða umhverfisnýting

Umhverfisráðherra hefur rætt um þá áráttu sveitarstjórna að hunsa umhverfisvernd á kostnað atvinnusjónarmiða.

Ég er hræddur um að sveitarfélag sem á í vök að verjast hlýtur að hugsa fyrst um hvort einhver atvinna sé í héraði. Engin atvinna, ekkert líf, ekkert fólk. Ekkert sveitarfélag. Til eru sveitir á Íslandi þar sem náttúruvernd skiptir miklu máli. Það er til dæmis Sléttuhreppur, norðan Jökulfjarða og Ísafjarðardjúps þar sem enginn býr. Annað dæmi eru Fjörður norðan við Grenivík. Þar býr heldur enginn.

Fyrir utan þetta held ég að umhverfisráðherrann tali oft um náttúruvernd en eigi við að landið eigi að vera nýtt fyrir ferðamennsku. Það er ekki endilega náttúruvernd. Sléttuhreppur og Fjörður hafa sloppið tiltölulega vel hvað þetta varðar. Þar liggja nær engir vegir og er aðeins fært örfáa mánuði á ári fyrir venjulegt ferðafólk.

Annars staðar er ekki svo gott um að litast. Allt landið kringum Mývatn og norður í Kelduhverfi er núna skorið af vegarslóðum. Þar þarf að takmarka umferð, ekki að auka hana. Nógur er uppblástur þar samt.

Auk þess þarf að huga að því hvaða áhrif ferðamennska til Íslands hefur á heiminn. Tvöföldun á fjölda þeirra, líkt og nú gerist á áratug, þýðir gífurlega aukningu á kolefnislosun.

Íslendingar eru í þeirri aðstöðu að þurfa yfirleitt að fljúga til annarra landa, vilji þeir fara út fyrir landsteinana. Ferð með skipi krefst enn meiri orkunotkunar á hvern farþega. Við þurfum þess vegna að huga að því hvað við getum boðið upp á að mikil kolefnislosun sé einungis vegna okkar eigin ferða, hvað þá vegna ferðamanna sem koma til landsins. Á nokkrum stöðum á landinu þarf einnig að huga að því að hvernig eigi að fara með landið við stöðugt meiri umferð.

Mikilvægast er þó að hafa í huga að þegar rætt er um umhverfisvernd er oftast verið að ræða um að nýta landið fyrir ferðamennsku. Undantekningar eru þegar svæði eins og Surtsey eru lokuð almennum ferðamönnum og aðeins nýtt til rannsókna. 


Minnisbók (Sigurðar Pálssonar)

Einn daginn setti Siggi Páls upp baskahúfu og alltof langan trefil, sveiflaði treflinum í boga aftur fyrir bak og kunngerði að hann ætlaði að verða skáld. Hann er skáld. Auk þess býr hann til gott kaffi.

Minnisbókin byrjar þegar Sigurður kemur til Parísar í fyrsta skipti. Hann er þá reyndar á leið til Toulouse en ástin á borginni er greinilega kviknuð og það var ekki langt að bíða þar til hann var kominn aftur. Hann drepur niður fæti og segir samviskusamlega frá dvalarstöðum sínum og KJ í borginni, kettinum Gertrude, skáldunum sem hann þorði ekki að ræða við og Íslendingunum sem hann hitti þar.

París kviknar til lífs við lestur fyrir þeim sem hafa heimsótt borgina og þekkja sögusviðið. Montmartre, Marais, Latínuhverfið, Montparnasse, Cité Universitaire og ótal aðrir staðir verða ljóslifandi í meðförum Sigurðar. Ýmsir kaflar vekja minningar um svipuð tök í Parísarhjólinu, skáldsögu sem kom út fyrir nokkrum árum. Þessi hluti frásagnarinnar er á við bestu Parísarferð og má mæla með bókinni, ef ekki væri fyrir annað. Sigurður er góður stílisti. Mér sýnist hann hafa gefið sér góðan tíma að vinna margt af þessum köflum. Þar er hvergi ofaukið orði.

Það verður erfiðara fyrir marga að lesa útleggingar hans á meginviðfangsefni sínu þessi Parísarár, sem eru leikhúsfræðin. Mörg bókmenntakenningin mun fara framhjá flestum lesendum.

Mjög gott.


Bloggvarða, 100. færsla

Eins og segir frá í næstfyrstu bloggfærslunni hér, þá ætlaði ég ekki að blogga. Ég sendi inn grein til birtingar í Mogga, sem ákvað að birta hana sem netgrein. Moggi stofnaði síðan bloggið.

Ég hef bloggað 100 færslur, mest um stjórnmál og samfélag, með umhverfið sem megináherslu. Það er ekki ýkja mikill lestur á þessu enda er ég ekki á þeim miðum sem mesti lesturinn er á Moggabloggi. Það er ekki ætlunin.

Það verður því haldið áfram á sama hátt. 


Menningin og viðskiptin

Það er til kenning um að lagaval sýni stemminguna hjá fólki. Þetta hljómar ekki sem langsótt kenning, eða hvað? Það má færa hana yfir á almenning og almannahag. Efnahagur sveiflast upp og niður og þau sem geta spáð fyrir um þannig hreyfingar með góðum fyrirvara ættu að vera vel stödd. Ein kenning gengur út á að sjá breytingar á efnahag landa með því að skoða hvaða lög eru vinsæl, hálfu ári fyrr.

Prince skrifaði lagið Nothing Compares 2 You árið 1984 og það var gefið út árið 1985 án þess að hljóta mikla hlustun. Allt annað var uppi á teningnum sumarið 1990. Útgáfa Sinéad O'Connor var spiluð í ræmur og fólk naut þess að líða illa. Um áramótin þar eftir lauk vaxtarskeiði sem hafði staðið í nokkur ár í Evrópu. Kenningin var að fólk hefði fengið sig fullsatt af góðu gengi og væri til í að láta sér líða illa.

Því miður er þessi kenning ekki nákvæmur mælikvarði. Það er ekki gott að finna skýringar á efnahag stórra svæða með einu lagi. Múrinn var fallinn og mikið fé fór í að byggja upp efnahag í fyrrum austantjaldslöndum. Sinéad var góð söngkona árið 1990. Prince var frábær lagahöfundur árið 1984. Myndbandið við lagið var glæsilegt.

Nú er spurningin hvort lagavalið fyrir þessi jól lýsi að einhverju hvert markaðurinn stefnir. Bretar telja að fasteignaverð fari lækkandi og neysla minnki um leið. Þetta hefur þegar haft áhrif á eignir íslensku auðmannanna sem fjárfestu af krafti í smásölukeðjum þar.

Með þetta í huga er það ekki fjarlæg spá að Malcolm Middleton eigi lagið efst á lista um þessi jólin, sem þá verður hið ömurlega We're all going to die. Malcolm kemur úr tvíeykinu Arab Strap, sem aldrei taldist til bjartsýnustu bandanna, en það er heldur ekki sérlega bjart yfir þessu lagi. Textadæmi: We're all going to die, so what if there's nothing, we all have to face this alone. Og: You're going to die, you're going to die, you're going to die alone, all alone.

Lagið er gott, svona ef fólk lætur textann ekki of mikið á sig fá. Þau sem vilja sjá þýðari og jólalegri útgáfu ættu að líta á myndband sem birtist á vef þáttar Colin Murray hjá BBC, með fiðlu og barnakór.

En þetta er nú bara kenning.


Allt rólegt í þessari viku

Hér verður allt rólegt fyrstu vikuna í aðventu. Næsta blogg er á dagskrá í lok vikunnar.

Jólaóróinn í ár er jólastress

Á Íslandi safna margar jólaóróum, skreytingum frá Georg Jessen eða öðrum stórsnillingum. Ég verð var við þetta ef ég á leið úr landi á haustdögum, en verð að viðurkenna að á mínu heimili er enginn svona órói til. Það er í takt við annan jólaundirbúning á heimilinu. Í gær var ég að þvo gluggatjöldin, í morgun að strauja þau og hengja upp. Svo tekur við fremur tilþrifalítil þrif og eitthvað skraut finnst nú í geymslunni til að setja upp.

Mér flaug þó í hug hvort að jólaóróinn nái að fanga hinn sanna íslenska jólaanda. Til þess þyrfti að hafa jólastressið, jólageggjunina eða jólabrjálæðið. Ég skil þó að enginn vilji hengja það upp, það er eiginlega eins og að mála skrattann á vegginn.

Það er margt gott við jólaundirbúninginn á Íslandi. Reykjavík fær stórbæjarbrag allan desember. Verslanir eru opnar fram á kvöld og það sést fólk í bænum, fjölskyldufólk að versla. Svo fer allt í leiðindafarið strax að loknum jólum. Verslanir vilja helst ekki opna milli jóla og nýárs og fáir láta sjá sig í bænum í janúar. 


« Fyrri síða

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband