Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Jólabarnið Shane McGowan

Meðan mannanna börn fagna fæðingu Jesú fyrir 2007 árum, svona um það bil, þá verður annað jólabarn 50 ára.

Shane McGowan fæddist 25. desember 1957. Hann öðlaðist frægð með The Pogues. Tónlistin var kölluð þjóðlagapönk en ég kalla hana bara Pogues. Gróf en viðkunnaleg rödd Shane var það sem skildi Pogues að frá öðrum böndum á svipuðum slóðum, sem kom í ljós þegar þeir ráku hann og misstu vinsældirnar í kjölfarið.

Fyrir 20 árum áttu þeir næstvinsælasta lagið um jólin, Fairytale of New York. McGowan og Jeremy Finer sömdu lagið um drauma og vonbrigði írskra fyllibytta í New York.

Pogues fluttu lagið með Kirsty McColl. Á þessu ári vildi Radio 1 hjá BBC ritskoða skammaryrðin sem þau kasta á milli sín. Lagið fær sjarma sinn öðru fremur af kaldranalegum kveðjunum, þannig að þær hafa enn fengið að hljóma.

McGowan hefur ekki þótt lifa heilsusamlegu lífi. Það má frekar segja að hann hafi reykt það sem að kjafti kemur, drukkið allt sem rennur nema skíði og skauta, og ekki slegið slöku við í annarri neyslu.

Árangurinn er vel sjáanlegur þegar Pogues og Katie Melua fluttu Fairytale of New York jólin 2005. Maðurinn er 48 ára þar, kominn að grafarbakkanum og búinn að missa röddina. Það er ekki fallegt að sjá fólk dást að þessari hryggðarmynd. 


Vetrarsólhvörf 2007

Nú er lengsta nótt ársins liðin. 

Það eru dimmir dagar hér sunnan heiða, dumbungur og sólin sést varla. Hún skríður líka letilega yfir Lönguhlíðina (ekki þá í Reykjavík) og skellir sér niður um leið og færi gefst.

Þá vakna spurningar um ljós og skugga. Hvernig er ljósið á litinn? Er það gult, hvítt, eða blátt?

Svarið er að það er sem betur fer gagnsætt. Annars myndum við lifa í þoku, gulri, hvítri eða blárri, þegar ljóst er og ekki sjá neitt. Ljósið sést aðeins þegar það mætir einhverri hindrun og tekur þá lit.

Myrkrið er enn dularfyllra en ljósið. Það er hvorki eitt né neitt en við sjáum ekki í gegnum það!

Vetrarsólhvörf eru þegar jörðin hættir að velta sér til suðurs á snúningi sínum um sjálfa sig, um leið og hún þeystist kringum sólina, og með henni um miðju vetrarbrautar. Þetta er nóg fyrir hvern sem er til að fá hausverk, eins og vetrarmyrkrið sjái ekki um það.

Þetta er pendúlhreyfing sem tekur ár. Mínútan sem jörðin fer að snúa sér til norðurs er átta mínútur yfir sex á laugardagsmorgni 22. desember þetta árið. Eftir það fer dag að lengja, sem gerist hægt til að byrja með.


Fjallað um gosið í Lakagígum í Economist

Í jólahefti Economist sem kom út í London í morgun er meðal annars vitnað í Jón Steingrímsson, sem kallaður var eldklerkur.

Tilefnið er grein um gosið í Lakagígum 1783, móðuharðindin sem fylgdu í kjölfarið og áhrif gossins um heim allan.

Greinin sýnir hvernig gosið hafði áhrif á hitafar í Evrópu, Ameríku og líklega í Japan. Það hefur líklega orsakað breytingar á rennsli í Níl og leitt til hungursneyðar í Egyptalandi.

Á Íslandi urðu áhrifin mest. Stór hluti alls kvikfjár féll, og í framhaldi fjórðungur þjóðarinnar. 


Aldrei treysta hippa

Aldrei treysta neinum yfir þrítugu, sögðu hipparnir á sínum tíma.

Það er fínt að hafa þetta yfir við þá í dag, komnir vel á sextugsaldurinn. Pappírstígrarnir. 


Svo verðið megi haldast hátt

Verð á vöru skapast af framboði og eftirspurn. Aðstæður ráða hvor þátturinn verður ráðandi og þá hversu mikið.

Á Íslandi er núna eftirspurnarþjóðfélag. Allir eru með kaupæði og eru viljugir að borga meira en í gær. Launin hækka og það eru litlir möguleikar á því að þetta breytist neitt á næsta ári, nema þannig að verðið verður enn hærra.

Það er víst að kaupæði minnkar ekki. 


Vinur Víkverja á förnum vegi

Sagt er að Víkverji Mogga sé næst-óheppnasti maðurinn á landinu. Sá óheppnasti sé vinur Víkverja.

Sem betur fer er það ekki alltaf sami maðurinn eða konan sem er Víkverji dagsins, og vinir Víkverja þannig fleiri en einn, af báðum kynjum, úr ýmsum stéttum og á ýmsum aldri.

Samt hefur maður á tilfinningunni að Víkverji og vinir hans séu í anda, ef ekki raunverulega, á aldrinum fimmtíu til sextíu eða svo. Lífinu virðist eitthvað vera í nöp við þá, en samt bara nóg til að stríða þeim.

Ég hitti kunningja á förnum vegi í dag og talið barst víða. Það kom í ljós að hann þekkir vel blaðamann á Mogga og hafði einmitt verið vinur Víkverja við fleiri en eitt tækifæri.

Sem betur fer var miklu skemmtilegra að hlusta á hann segja sögur af hræðilegri þjónustu á landsbyggðinni en að lesa þetta í Víkverja.

Ég hef þá hitt óheppnasta mann á landinu, að sögn. 


Halló Ísafjörður

Nei, ég er ekki að ýja að því að Ísafjörður sé sérlega hallærislegur. Þvert á móti eru flestir sem heimsækja Ísafjörð á því að staðurinn komi á óvart.

Hér áður fyrr fóstraði Ísafjörður stjórnmálamenn. Þar átti Jón Sigurðsson mikið af fylgi sínu. Í seinni tíð eru frægastir Jón Baldvin Hannibalsson sem fæddist í Allanum, Jón Sigurðsson (A) sem var samtíða nafna sínum í Hannibalsskólanum, Hannibal faðir Jóns sem stýrði skólanum og kom við í nokkrum flokkum á vinstri vængnum, og Ólafur Ragnar sonur Gríms rakara. Og margir fleiri.

Í seinni tíð er bærinn frægari fyrir að fóstra söngvara af ýmsu tagi. Helgi Björnsson, Sigurjón Kjartansson og Örn Elías Guðmundsson skulu nefndir, en tónlistarmenn þaðan eru legíó og dugir varla Internetið til að telja þá upp, enda frábær tónlistarskóli á staðnum. Guðmundar eru kallaðir Muggar fyrir vestan, eða Muggi, jafnvel Mugi. Þannig fær Örn Elías nafnið Mugison. Hann er sem sagt kenndur við hafnarstjórann föður sinn.

Skoðanakönnunin hér til hægri er ekki sérlega marktæk, en ég treysti því að gott gengi Ísafjarðar sé engin tilviljun.

Ég fékk að eyða nokkrum góðum sumarpörtum í blómabúðinni í Hafnarstræti 11 hjá Ástu ömmu minni og telst hálfur að vestan. Arngrímur afi minn fæddist að Hafrafelli sem stendur innar í Skutulsfirðinum, meðan amma var alin upp í Skálavík og Bolungarvík. Fullorðinn kom ég vestur að gæta Hornbjargsvita sumarið 1988, eins og ég hef sagt áður frá hér.

 


Oið gleymist í hf.

Það er orðið ljóst að margir gera sér ekki grein fyrir að áhætturekstur opinberra fyrirtækja er ekki sjálfgefinn.

Það eru reyndar margir á móti þessum rekstri. Það sama gildir um annað sem fylgir þessum rekstri, til dæmis að upplýsingar um hann liggja ekki opnar.

Aðalatriðið er þó að stór hluti kjósenda telur að hlutverk hins opinbera sé að sjá um samfélagslega þjónustu eins og að mennta þjóðina, sjá um heilbrigði hennar, öryggi hennar og skapa ramma um efnahag. Þeir eru síðan til sem telja að hið opinbera eigi aðeins að sjá um öryggi þjóðar og að skapa ramma um efnahaginn. Hvorugur þessara hópa telur að hið opinbera eigi að sjá um áhætturekstur eða nokkuð það sem betur fer í einkarekstri.

Ef fólk telur að það sé nóg að búa til hlutafélag um opinberan rekstur og mega þá gera hvað sem er, þá er það ekki rétt. Það minnkar áhættu eigenda. Fyrirtæki sem er ohf. (opinbert hlutafélag) eða hlutafélag í eigu opinberra aðila hefur ákveðnum skyldum að gegna sem þýða að það eigi ekki erindi í áhætturekstur.

Það verður að gefa upp ákveðnar upplýsingar um rekstur þess vegna þess að almenningur er eigandi þess, sem þessi félög hafa ekki treyst sér til. Þau keppa við einkaaðila sem geta leyst þessi mál miklu betur eins og reynslan sýnir. Þau nota opinbert fé til áhættu. Þar með er hið opinbera farið að sýsla um mál sem það á ekki að gera.

Viðtal við forsætisráðherra sýnir að hann lítur ekki þannig á málið. Fyrir Geir skipti einungis máli hvernig var farið að hlutunum. Það var klúður hjá REI, sagði hann.

Það var klúður hjá hinum en hjá okkar fólki er það flott.

Málið er stærra en þetta. Það er stór hópur fólks í öllum stjórnmálaflokkum sem er einfaldlega á móti því að hið opinbera eða opinber fyrirtæki standi í svona rekstri. Undirritaður er á móti því að fólk telji sig geta upphafið allar reglur um opinberan rekstur með því einu að búa til hlutafélag, annað hvort ohf. eða hlutafélag í eigu opinbers fyrirtækis.


Er sparnaður af því að minnka útgjöld til sjúkrahúsa?

Við fyrstu sýn er þetta fáránleg spurning. Auðvitað lækkar útgjaldareikningur heilbrigðisráðuneytis við það að minnka útgjöld til sjúkrahúsa.

Á móti kemur að dregið er úr þjónustu. Er fylgst með hvað það kostar hvern og einn? Nú borga þeir sem byggja landið skatt til ríkis, sem nú ætlar að skila 39 milljarða afgangi. Sá tekjuafgangur fer ekki til heilbrigðiskerfisins samkvæmt fjárlögum sem voru samþykkt í vikunni. Sparar þá þjóðin sem ríkið er að þjóna?

Til hvers eru þessir 39 milljarðar? Þeir renna ekki til að mennta lýðinn, þeir renna ekki til að bæta heilsu lýðsins, en lýðurinn skal borga. Lýðurinn skal borga eða dæmast brotlegir við landslög.

Stjórnmál annað orð yfir það að ráða um samfélagslega þætti. Annað eru einkamál eða mál frjálsra félagasamtaka. Það er ekki auðvelt að skilja þá sem láta til sín taka í stjórnmálum með það eitt að leiðarljósi að vinna gegn samfélagslegum þáttum. Þá dæma þeir sig úr leik. Það gerist kannski ekki strax en dugir ekki til lengdar.

Heilbrigðisráðherrann hefur notið mikils fylgis innan flokks síns, sérstaklega hjá þeim yngri, þar sem þau sjónarmið þykja góð að draga úr samfélagsþjónustu. Þau rök kynnu að hljóma vel þar til kemur að því að ákveða hvar eigi að skera niður. Viltu fækka hjartaþræðingum? Þær eru dýrar. Viltu hafa kennara á lágum launum? Það segir til sín til langs tíma. Viltu skera niður? Þá áttu líklega ekki heima í stjórnmálum. Allir flokkar þurfa að athuga að þeir sækja fylgi sitt til almennings. Orðið samfélag má ekki verða að einhverju skammarorði ef fólk ætlar að vinna í stjórnmálum.


Að skera niður stjórnmálalegt traust

Hvernig á ekki að skera niður ríkisútgjöld?

Ég get skorið niður útgjöld hjá mér. Það er auðvelt. Eina spurningin er, til hvers? Ég hef hug á að standa sæmilega fjárhagslega og vil ekki eyða um efni fram.

Ef ég stæði í samfélagsþjónustu, væri þessi spurning meira aðkallandi. Hvers vegna að skera niður útgjöld? Það er skiljanlegt þegar illa árar. Það er ekki þannig ástand á Íslandi. Nú árar vel.

Ríkið hefur skilað afgangi undanfarin ár sem hefur verið notaður til að greiða upp skuldir, sem nú eru orðnar sáralitlar miðað við það sem áður var. Það er vel. Það er síðan spurning hversu langt eigi að ganga í þessu. Viljum við skera niður menntun eða heilbrigði til að eiga fé á reikningum ríkisins fyrir framtíðina?

Auður Íslands er einungis fólginn í fólkinu sem það byggir. Ríkið er ekki annað en samnefnari fyrir þetta sama fólk. Þess vegna er því falið að festa fé og vinnu í að byggja upp heilsu og menntun þegna þess.

Heilbrigðisráðherrann getur rekið sig illa á það ef hann ætlar að fresta frekar byggingu aðalsjúkrahúss landsins og skera niður fé til rekstrar þess. Fólki er alltaf að verða betur ljóst að heilsa er afar dýrmæt eign. Ef ráðherrann ætlar að skera niður fé til viðhalds þessarar eignar er flestum ljóst að ekki sparast neitt, heldur er útgjöldum aðeins slegið á frest. Þegar síðan þarf að framkvæma eru útgjöldin hærri. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband