Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

MacBook Hot Air

Það er þriðjudagskvöld og á heimili mínu er eitthvað að gerast. Ég birtist með venjulegt A4-umslag og opna það, og dreg út ... MacBook heimilisins.

Hún er í hvítu plasti og heilum sentimetra þykkari en tækniundrið sem Steve Jobs var að kynna fyrr í kvöld vestur í Kaliforníu. Auk þess er hún með hraðari gjörva (cpu), stærri harðan disk og jafnstóran skjá. Bíddu við, og kostar líklega rúman helming af því sem MacBook Air í sínu fína pússaða áli mun kosta.

Ef maður kaupir útgáfuna af MacBook sem kom í verslanir fyrir jól, má fá 2,2 Ghz Core 2 Duo gjörva með 800 Mhz braut, svokallað Santa Rosa chipset, fyrir 130.000 krónur. Það er í Apple-búðinni, sem mér skilst að sé ein okurbúlla.

Maður getur fengið sér Dell-fartölvu hjá EJS með sömu grunngerð, Dell Inspiron 1720, sem kostaði í haust 180.000 krónur. Hún kemur í fleiri litum. MacBook Air verður aðeins í pússuðu áli en verður varla ódýrari.

Kaupið, kaupið! 


Húsaníð

Viðtal Egils Helgasonar við Sigmund Gunnlaugsson í Silfri Egils á sunnudag hefur vakið sterk viðbrögð.

Sigmundur hefur sýnt með tiltölulega einföldum myndum hvernig falleg hús í Reykjavík hafa verið gerð að dauðum kumböldum. Því miður var það gert í góðri trú og sporin hræða.

Það sem kom þó fram sterkast hjá honum er að hvatinn er ennþá til að láta hús grotna niður og byggja nýtt og stærra á sömu lóð, selja og fara, endurtaka svo leikinn á næsta stað.

Þetta hefur komið fram áður en Sigmundur getur sett fram málefnið á þann hátt sem lætur fáa ósnortna. Það má því búast við viðhorfsbreytingu þegar þættir frá honum verða sýndir síðar í vetur.

Nú er rætt um að það þurfi að greiða skaðabætur til þeirra sem höfðu öðlast byggingarrétt þar sem nú á að friða. Þá verður manni hugsað til hvort borgarbúar eigi ekki rétt á skaðabótum frá þeim sem gerðu falleg hús að ljótum. Þannig gæti bankinn sem eignaðist hús Útvegsbankans við Lækjartorg bætt fyrir það sem þar var gert. Tryggingafyrirtækið sem eignaðist Almennar tryggingar og þar með húsið milli Hótel Borgar og Reykjavíkurapóteks gæti rétt hlut borgaranna eða átt á hættu að vera minnst fyrir þessa framhlið svo lengi sem fólk gengur um Austurvöll.

Einfaldar teikningar og samsettar myndir hafa orðið sterkt vopn í höndum húsfriðunarsinna. Teikning Snorra Freys Hilmarssonar af húsinu sem gæti komið við Laugaveg 51 (við hornið á Frakkastíg, þar sem nú er verslunin Vínberið) vakti mikla athygli. Einfaldar myndir Sigmundar þar sem hann sýndi áður falleg hús og óskapnaðinn sem við þekkjum í dag voru jafn sláandi.

Það má kalla ódýrt bragð að setja verstu húsgafla Reykjavíkur inn í fallega borgarmynd Kaupmannahafnar, en Sigmundur er að vekja athygli á málum sem þarf að mála í sterkum litum. Það er einfaldlega erfitt að sjá hvað er mögulegt á Laugavegi þegar maður er alinn upp við að þetta sé stræti sem allt of margir ganga illa um.

Það vekur athygli mína strax hvað önnur mynd er á húsum við Laugaveg sem eru lægri í dag en þau voru, þar sem gatan hefur fyllt upp í hálfa hæð. Svipur húsanna gerbreytist og það er augljóst af hverju lagt er til að lyfta þeim, það er búið að grafa þau að hluta niður!


Að byggja upp miðbæ Reykjavíkur

Það stendur miðbæ Reykjavíkur fyrir þrifum að þar fer fram ýmis konar barátta meðan það ætti að vera uppbygging, að byggja upp miðbæ.

Húsaverndunarfólkið stendur í skotgrafahernaði, varnarbaráttu upp á líf og dauða, eins og sjá má af greinum þeirra. Fjórtán daga frestur fenginn, það má ekki gerast að húsið verði rifið, í guðanna bænum sjáið að ykkur og látið þetta hús ekki hverfa.

Meginhluti borgarbúa vill ekki standa í baráttu í miðbænum, heldur að þar þrífist fólk.

Miðbæ þarf að byggja upp til langs tíma. Hann verður ekki byggður með því að taka afstöðu til hvers húss fyrir sig og ekki með því að fylgja stundarskoðunum. 


Húsavernd: Allt nema breytingar

Ég kem stundum á kaffihús við neðanverðan Skólavörðustíginn, sem fyrir löngu er orðið hluti af bæjarsögu Reykjavíkur. Þetta kaffihús þykir einkar hlýlegt og eigandinn vill að innréttingarnar verði friðaðar. Þið getið séð margar myndir þaðan á teikniblogginu, sem er krækt á hérna til hægri.

Á þessu húsi hitti ég fólk sem er mikið á móti því að við Laugaveg 4-6 rísi fjögurra hæða steinsteypuhús sem á að hýsa hótel, verslanir og veitingahús, svipað og Hótel Frón á Laugavegi 24.

Þau sitja sjálf í kaffihúsi í fjögurra hæða steinsteypuhúsi við Skólavörðustíginn, sem snýr baki að þessu húsi sem á að rísa á Laugavegi 4-6.

Það er fólk sem býr til sál í bæjum, ekki byggingarefni. Það skiptir miklu máli hvernig hús eru byggð og hvernig skipulag er í bæjum, en það er ekki sjálfgefið að hús og skipulag frá fyrri öldum henti núverandi starfsemi. Það gerir það reyndar ekki nema í bæjum sem taka afar litlum breytingum. 

Breytingar, breytinganna vegna er slæm lausn. Enn verra er að vera á móti öllum breytingum. 


Bærilegur hversdagsleiki hversdagsins

Nú nuddar þjóðin stírurnar og tekst á við hversdaginn, fyrsta mánudag ársins.

Ýmislegt horfir til betri vegar. Um áramót skrifaði ég um að fyrst og fremst yrði veðrið að batna, svo að það viðraði betur um okkur í útivistinni!

Það er sem betur fer að ganga eftir. Þannig lítur út fyrir að hjólið verði aðalsamgöngumátinn á heimilinu þessa vikuna. Það er í fyrsta skipti síðan í október.


Ef fitan er faraldur, hvað er þá gert í málunum?

Góðar heimildir segja að það sé offitufaraldur í gangi og styðja mál sitt með þekktum stærðum. Hlutfall þeirra sem eru með massahlutfall (BMI, body-mass index) hærra en 30, fer síhækkandi.

Þetta leiðir af sér þekkta sjúkdóma, skemmir líf þeirra sem búa við þessa þyngd og dregur þetta fólk til dauða fyrr en ella. Hér er þess vegna um alvarlegan heilbrigðisvanda að ræða.

Hvað er verið að gera? Ég þekki góð ráð frá Lýðheilsustöð, ummæli lækna um að taka upp betri lífshætti og góðan áróður víðs vegar.

Ég sé minna af ráðum til að auka raunverulega heilsusamlegt líferni, auka hreyfingu og færa mataræði yfir á þekkta hollustu.

Enn er ódýrasti maturinn bæði sætur, feitur og saltur. Feitmeti er niðurgreitt og séð er um að sætmeti sé á lágum tollum. Um leið er hollur matur flokkaður og tollaður sem lúxusfæði.

Er verið að gera eitthvert raunverulegt átak í að auðvelda umferð gangandi fólks og hjólandi? Ég spyr, vegna þess að ég nota bæði fætur og hjól og fæ góð orð í eyra, en lítið meira.

Spurningin er því: Hvað er verið að gera vegna offitunnar? Ef stjórnvöld ætla að reka stofnanir sem reka bara áróður fyrir hollari lífsháttum, meðan sömu stjórnvöld stefna gegn því með ódýrri óhollustu og óheilbrigðum samgöngum, þá verður vandinn til staðar.


Fyrst og fremst á nýju ári: Betra veður

Vilja ekki allir að nýtt ár verði betra en það síðasta?

Ég dvaldi eitt sinn ár meðal þjóðar sem var ekkert voðalega hrifin af 20. öldinni, hvað þá þeirri 21. Þeirra öld var og er sú 19. Þetta eru Bretar, sem fagna samt nýju ári en ekki eins og Íslendingar.

Íslendingar vilja aftur á móti að hlutirnir verði betri. Ég hef tekið eftir því. Þau undirstrika það með því að þvælast um bæina og sveitirnar í arfavitlausu veðri, drekka sig helst á skallann ef þau geta og heilsa nýju ári með timburmenn ársins. Leiðin getur eiginlega aðeins legið upp á við frá því.

Andlega heilsu má bæta með minnkandi sjónvarpsglápi. Þú getur notað einfalt próf. Hvað ef þú gætir sleppt því að ræða um skaupið á nýju ári, liði þér þá ekki betur?

Líkamleg heilsa líður fyrir fælni við íþróttahús hjá undirrituðum, sem hefur ekki heimsótt þannig stofnanir síðan hann varð 15 ára eitt vor fyrir löngu, löngu síðan og lauk síðasta leikfimiprófinu. Veðrið hefur síðan lagst á eitt með þessari fælni. Fyrst og fremst á nýju ári: Betra veður.


mbl.is Ráðleggur hvernig efna megi nýársheitin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að styrkja björgunarsveitirnar

Nú kaupa Íslendingar flugelda eins og lífið eigi að leysa þrátt fyrir afleita spá fyrir gamlárskvöld. Sem betur fer, fyrir björgunarsveitirnar.

Eins og Kristinn Ólafsson lýsti í fréttunum er þetta lífsspursmál fyrir þær og hagnaðurinn ekki í hendi fyrr en upp er staðið. Eins og Kristinn sagði, kannski óheppilega, fara björgunarsveitirnar ekki að fá í vasann fyrr en eftir hádegi á gamlársdag, því kostnaðurinn er líka mikill við allt umstangið.

Það er bara að vona að Íslendingar taki hann ekki á orðinu og mæti ekki fyrr, og segist bara vilja kaupa flugelda af þeim þegar það er hagnaður af því! Eftir hádegi 31. desember er farið sneyðast um bestu skoteldana og styttast í að verði lokað.

Það eru ekki allir jafn hrifnir af því að kaupa mikið af skoteldum. Sumum finnst þeir hættulegir, og kunna kannski slæmar sögur af óhöppum með þá. Flugeldar eru ekki beint umhverfisvænir, fullir af þungmálmum, geta myndað versta mengunarský ársins (ekki miklar líkur á því núna) og svo er bölvaður hávaði af þeim!

Ég hafði samband við Landsbjörgu fyrir þremur árum og vildi styrkja þá á annan hátt, og vildi helst að það væri auðveld leið til þess á vefnum hjá þeim. Sem betur fer hefur Landsbjörg sett þetta upp, sjá flipann „Styrkja félagið” hjá þeim. Það er hægt að velja hvaða björgunarsveit maður vill styrkja og þetta fé rennur um það bil allt til þeirra. Það er fremur einfalt að setja þetta á kort hjá sér, eða fá greiðsluseðil fyrir kortafælna.


Hoggið í ríkidæmið

Þær fregnir berast nú að margt fólk eigi í vanda vegna þess að þau hafi tekið lán fyrir hlutabréfakaupum sem þýði beint tap, eins og mál standa.

Sem betur fer er þetta ekki verst stæði hópur þjóðfélagsins, heldur fremur fólk sem á góð veð í húsi, lóð eða bíl. Vandinn er enn sem komið er ekki voðalegur og lýsir sér helst í að bankinn er kominn með hærra veð í húsinu, lóðinni eða bílnum, vegna þess að veðið í bréfunum dugir ekki eins vel og það gerði.

Hjá flestum er þetta þess vegna hálfgert lúxusvandamál. Fyrstu áhrifin af svona bakslagi eru að augljósasti lúxusinn verður skorinn niður. Þess vegna virðast nýársböllin verða færri en hefur verið undanfarin tíu ár eða svo.

Það verða þó einungis dýrustu böllin sem eru slegin af. Liðið hefur væntanlega efni á eins og einni eða tveimur flöskum og nokkrum rakettum, og getur skemmt sér eins og venjulegir Íslendingar.

En það verður súrt fyrir suma, sem héldu að þau væru komin í annan og ríkari hóp.


mbl.is Hlutabréf lækkuðu á árinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólabarnið Shane McGowan

Meðan mannanna börn fagna fæðingu Jesú fyrir 2007 árum, svona um það bil, þá verður annað jólabarn 50 ára.

Shane McGowan fæddist 25. desember 1957. Hann öðlaðist frægð með The Pogues. Tónlistin var kölluð þjóðlagapönk en ég kalla hana bara Pogues. Gróf en viðkunnaleg rödd Shane var það sem skildi Pogues að frá öðrum böndum á svipuðum slóðum, sem kom í ljós þegar þeir ráku hann og misstu vinsældirnar í kjölfarið.

Fyrir 20 árum áttu þeir næstvinsælasta lagið um jólin, Fairytale of New York. McGowan og Jeremy Finer sömdu lagið um drauma og vonbrigði írskra fyllibytta í New York.

Pogues fluttu lagið með Kirsty McColl. Á þessu ári vildi Radio 1 hjá BBC ritskoða skammaryrðin sem þau kasta á milli sín. Lagið fær sjarma sinn öðru fremur af kaldranalegum kveðjunum, þannig að þær hafa enn fengið að hljóma.

McGowan hefur ekki þótt lifa heilsusamlegu lífi. Það má frekar segja að hann hafi reykt það sem að kjafti kemur, drukkið allt sem rennur nema skíði og skauta, og ekki slegið slöku við í annarri neyslu.

Árangurinn er vel sjáanlegur þegar Pogues og Katie Melua fluttu Fairytale of New York jólin 2005. Maðurinn er 48 ára þar, kominn að grafarbakkanum og búinn að missa röddina. Það er ekki fallegt að sjá fólk dást að þessari hryggðarmynd. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband