Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Lífstíll

Kári og Morten ræða hjólamenningu

Í þættinum Dr. RÚV í dag var rætt við Kára Harðarson og Morten Lange um hjólamenningu. Kári er einn af bloggvinunum eins og sjá má hér til hægri.

Það er hægt að hlusta á þáttinn til annars í páskum.


Lognið hlær svo dátt

Ég átti leið framhjá Veðurstofunni fyrr í dag. Ég sá fólk að rölta eftir Bústaðaveginum en eitthvað stemmdi ekki alveg. Það var ekki fyrr en ég var kominn vestur í bæ að það kviknaði á perunni: Það hafði ekki baksað með eða á móti vindinum.

Það var logn á hádegi í dag og aftur núna undir kvöldið á Litlu-Öskjuhlíð, eða hvað sem veðurathugunarstaður Reykvíkinga er kallaður um þessar mundir.

Mér finnst þetta ekki hafa gerst síðan í október. Kannski er minnið farið að bresta og ég treysti á að haukfránir lesendur leiðrétti mig. Á meðan svelgi ég í mig lognið.

Á Litlu-Öskjuhlíð, líklega þar sem seinna kom vatnstankur við gamla golfskálann, fögnuðu Reykvíkingar nýjum aldamótum á síðasta degi ársins 1900. Þrjátíu árum síðar tóku þeir á móti pósti þar úr loftfarinu Zeppelin. Þar reyndi hópur fólks að búa til skíðabrekku, sem nú liggur milli Hörgshlíðar og Bústaðavegar, við mikið erfiði. 

 


Bjartsýni og svartsýni

Bjartsýnismaður trúir því að þetta sé besti heimurinn af þeim sem eru mögulega til. Sá svartsýni er hræddur um að svo sé.

Dagur heilags Davíðs, nei, þessi í Wales

Í dag, 1. mars er dagur heilags Davíðs, sem er þjóðardýrlingur Wales.

Í tilefni þess er hér söguleg upptaka frá þessum degi fyrir nítján árum í Cardiff, sem fólk tekur vonandi ekki allt of alvarlega.

Lagið Something good is going to happen fékk heilmikið að láni frá Kate Bush úr lagi hennar Cloudbusting, bæði í laginu og í upprunalega myndbandinu. Það var allt gert með leyfi söngkonunnar.

Lagið kom út 1992, þannig að velska danshetjan okkar hér hefur verið á undan sinni framtíð, eins og sagt er.

Something good is going to happen again 08 


FBR, fullorðin börn á Range Rover

Ein tegund fólks mun fara illa út úr samdrætti ef hann skellur á. Það er sú tegundin sem kom sér vel fyrir á raðgreiðslum.

Einn hluti raðgreiðslufólks er tekjuhár og samfélagið skuldar þeim að heilsa þeim á götu. Það sem stoppar almenning í að sýna þeim virðingu er að þau eru blanda af sæmilega gefnu fólki í mörgu og algerum vitleysingum í fjármálum.

Með yfirdráttinn stilltan á yfir milljón og fullnýttan, með raðgreiðslur á svipuðum nótum í hverjum mánuði, með skuldir hér og skuldir þar, er þetta fólk ómetanlegt fyrir hluthafa bankanna. Þetta eru fullorðin börn á Range Rover, FBR.

Þau borga stóran hluta af 70 milljörðum sem Íslendingar greiða fyrir yfirdrátt árlega og greiðslukortafyrirtækin væru verr sett án þeirra.


Eniga meniga, allt snýst orðið um peninga

Ég fór einu sinni á tónleika með Megasi. Þetta var í hátíðarsal MH og þeir hétu Drög að sjálfsmorði. Næstu árin bar lítið á skáldinu. Mér kom á óvart þegar ég heyrði árið eftir að hann hefði kvatt þennan heim, því daginn áður hafði ég séð hann á sýningu í Fjalakettinum.

Nú eru haldnir tónleikar með Megasi í nafni Kreditkorta, held ég. Ég fer að minnsta kosti ekki.

Það kemur undurfurðulega við mig að sjá auglýsingu fyrir fjármálastofnun undir lagi og ljóði Ólafs Hauks, Eniga meninga, sem Olga Guðrún söng. Á yfirborðinu var þetta barnalag en ég held að það hafi átt að vera ógurlega pólitískt, enda átti pólitíkin erindi til allra. Var það ekki ádeila á neysluhyggju?

Æi, það eru 30 ár síðan. Og nú eiga allir nóg af peningum. Eða, vilja það að minnsta kosti.


Vinsældir Kiljansnafnsins í Frakklandi

Mannanafnalögum var breytt í Frakklandi fyrir um tuttugu árum. Þá kom í ljós að þjóðin var þyrst í breytingar. Árið 1992 var nafnið Kevin vinsælast með drengbarna, og hafði ekki verið talið franskt nokkrum árum áður, eins og sjá má á Meilleurs Prenoms.

Nú er annað nafn, skylt Kevin, nokkuð vinsælt í Frakklandi eins og sjá má á grafinu sem fylgir hér. Það er nafnið Killian. Halldór hefur líklega lítið með þetta að gera, því hann er þekktur undir Laxness-nafninu af þeim sem nú lesa hann.

Dýrlingurinn Killian var írskur trúboðsbiskup og má sjá minjar um hann víða um Evrópu. Nafnadagur Killians er 8. júlí.

Á nafnadag gefa franskir foreldrar börnum gjarnan litlar gjafir og halda upp á daginn sem eins konar auka-afmælisdag.

Smellið á grafið til að sjá það stærra.

Vinsældir Kiljansnafnsins


mbl.is Piu og Sven hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er nóg til af heitu vatni?

Fyrsta áhyggjuefni fólks varðandi Orkuveituna er líklega hvort það sé til rafmagn á heimilinu og síðan hvor það sé til heitt vatn þar. Þetta er ansi fjarlægt áhyggjuefni, eða hvað? Nóg til af rafmagni í landinu og mörg ár síðan síðast varð rafmagnslaust í betri hverfum Reykjavíkur lengur en nokkar mínútur.

Ég velti þó fyrir mér heita vatninu. Ef það þarf að skrúfa fyrir sundlaugar við 10° frost, hvað þá ef hér kemur alvöru kuldakafli? Meginhluti þjóðarinnar býr kringum 64° norðlægrar breiddar. Þar ríkir 20-40 gráðu frost meginhluta vetrar á öðrum slóðum en við Golfstrauminn og ekkert sem útilokar að hér komi nokkurra vikna kafli með 10-15 gráðu frosti. Hvað þarf að skrúfa fyrir þá?

Ég hélt að með tilkomu Nesjavallavirkjunar, þegar kælivatn af hverflum hennar bættist við heitavatnsbúskap Orkuveitunnar (þá HR) hefði komið nóg af heitu vatni. Síðan þá hefur fjölgað á svæði Orkuveitunnar, en einnig komið viðbótarvatn af Hellisheiðarvirkjun.


mbl.is Fundargerðir Orkuveitunnar birtar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veður og vetur af venjulega taginu

Nú má heyra í íbúum á höfuðborgarsvæði að þetta hafi verið voðalegur vetur. Hann er reyndar rétt byrjaður, vetur byrjar eftir jól, á nýju ári. Víst er að veðrið fyrir jól var hundleiðinlegt, sífellt hvassviðri, en þetta er búið að vera ágætt eftir þau.

Svolítill snjór liggur á götum en ekki svo mikið að ég geti ekki hjólað. Ég held að það hafi verið verra bæði 1983 og 1984. Það má eflaust fletta upp einhverjum verri mánuðum 1991, þegar ég þurfti að leggja hjólinu og eitthvað var víst leiðinlegt árið 2000.

Þetta veður síðan í október er það sama og ég ólst upp við. Venjulegur íslenskur vetur er hundleiðinlegur hér sunnan heiða. Þeim sem líkar ekki við hann þurfa að finna sér vetrarhús sunnar á hnettinum, eða búa á Akureyri þar sem veðrin eru stilltari og veturinn hvítur. Nú hjóla ég í bæinn.


Um handbolta, hóflausa drykkju og Kusturica

Á fimmtudagskvöld, meðan þjóðin horfði á handboltaleik í Þrándheimi, fór ég í bíó. Það var einfaldlega of nöturlegt að horfa á öll mistökin og eftir hálftíma var ég búinn að fá nóg. Eins og góður maður sagði, þá spilaði íslenska liðið eins og kjánar.

Fyrr á árum gat ég dottið í það eins og það kæmi ekki dagur eftir þann dag, föstudags- og laugardagskvöld flestar helgar ársins. Svo hætti ég að hafa gaman af því og þá var það búið. Þegar drykkjan var búin og svefninn tók völd, tók við ruglingslegur draumur.

Þann draum sá ég í bíó á fimmtudagskvöldið og hann heitir Lofaðu mérá íslensku, Promets moi á frönsku. Ég veit ekki hvað myndin er að gera á franskri kvikmyndahátíð, líklega framleidd af Frökkum. Þetta er serbnesk mynd, um brjálaða Serba, og er eftir Emir Kusturica. Fyrir þau sem eru að sjá Kusturica í fyrsta skipti er þetta hin besta skemmtun.

Frásagnarmátinn er teiknimynd, leikin á tjaldi, slapstick. Það vantar pólitíska broddinn sem hann sýndi í Neðanjarðar, dýpri tilfinningar sem hann sýndi í Svartur köttur, hvítur köttur, eða þá að þetta fari fyrir ofan garð og neðan hjá Íslendingi og að Serbarnir sjái kannski einhverja ádeilu sem við skynjum ekki. Fyrir okkur er þetta bara Buster Keaton með ávæningi af Dusan Makavjev. Sem er ekki slæmt, þetta var hin ágætasta skemmtun.

Það var ágætt að ganga út af fylleríinu en sjálfur áfengislaus.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband