Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Fréttir komandi viku

Undanfarnar þrjár vikur hef ég boðið upp á sérstaka þjónustu, sem ég kalla Fréttir komandi viku.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að ég spáði ekki falli borgarstjórnarmeirihluta í síðasta pistli. Sá pistill var enda í styttra lagi. Þessi atburður setur náttúrulega mark sitt á næstu daga, ekki síst á þriðjudaginn 16. október þegar nýr borgarstjóri tekur formlega við. Það fer að fenna yfir þetta eins og annað þegar frá líður. Fólk sér fljótlega að það þarf að reka borgina svipað og áður og lítið svigrúm til stórra breytinga þar. Sjálfstæðismenn fara í hlutverk sem þeir höfðu í 12 ár og kunna vel.

Tvennt hefur fallið í skuggann á meðan:

  • Það fyrra er afgreiðsla fjárlaga með 16.000 milljóna króna aukafjárveitingum og 31.000 milljóna króna afgangi. Það kemur öðru fremur í ljós núna hvert er eðli stjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, vegna þess að í fjárlögum felst útfærsla á stefnumótun, framkvæmd á lögum.  Einhverjir kunna að hafa aðrar hugmyndir en að láta milljarðana 31 renna til að greiða niður skuldir.
  • Það seinna eru kjarasamningar um áramót. Það fer að hitna eitthvað í kolunum en enn má sjá Gylfa Arnbjörnsson og Vilhjálm Egilsson ræða í bróðerni fyrir framan Alþingishúsið.

Svo færist lif í lúkurnar.

  • Í næstu viku fyllist síðan bærinn af sérstöku fólki. Andstuttir Ameríkanar sem kunna eitt atviksorð og eitt lýsingarorð í ensku (wow, great!) og aðrir gestir sækja heim íslenska og erlenda rokkhunda á Airwaves.

Góðar stundir.


mbl.is Náttúruverndarmál rædd á Umhverfisþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt er að ná völdum og annað að halda þeim

Seint á síðustu öld átti Sjálfstæðisflokkurinn margt, en tvennt átti hann sem enginn annar átti;  Hann átti borgina og hann átti gott með að vinna innbyrðis.

Þetta breyttist fyrst 1978, þegar Alþýðubandalag vann óvænt 5 fulltrúa í borgarstjórn og leiddi vinstri meirihluta til 1982. Sjálfstæðisfólk var bæði reitt og sárt, því borgin hafði verið tekin af þeim, þeirra réttmæta eign. Því miður voru 8 manns í vinstri-meirihlutanum sem allir vildu ráða. Niðurstaðan varð að í öllum málum var valin sú leið sem allir gátu sæst á, lægsti mögulegi samnefnari. Þetta var pólitík sem vakti enga aðdáun, enda féll þessi meirihluti strax.

Davíð tók við og yfirgaf skútuna 9 árum síðar. Í stað þess að láta fólk í borgarstjórnarflokknum kljást um hver ætti að verða eftirmaður, skipaði hann Markús Örn Antonsson sem eftirmann sinn. Það er góð regla að skipa ekki borgarstjóra í Reykjavík, heldur verður að kjósa hann. Þegar Markús Örn yfirgaf fleyið skömmu fyrir næstu kosningar fékk Árni Sigfússon loks að spreyta sig. Lýðum var ljóst að hann naut ekki stuðnings Davíðs, sem þá var formaður flokksins og forsætisráðherra.

Þá hafði flokkurinn bæði tapað borginni og hæfileikanum til að gera út um innbyrðis mál svo hægt færi. R-listi náði völdum og hélt þeim í 12 ár. Fyrst var kjörinn borgarstjóri, sem fór eftir 9 ár, skipaði eftirmann sem var svo látinn fara. Þá voru komnir brestir í samstarfið og flokkarnir misstu hreinan meirihluta.

Að lokinni þeirri eyðimerkurgöngu Sjálfstæðisflokksins fékk flokkurinn aðeins 43% fylgi og 7 fulltrúa. Það er ljóst að samheldnin er enn ekki nægileg. Flokkurinn hefur þó vaknað til lífs eftir að hafa setið sár og í gærdag og virðist ætla að veita öfluga mótspyrnu. Það er ein forsenda þess að vinna næstu kosningar, önnur er að sannfæra fólk um að hlutir hafi í raun gengið betur í stuttri valdatíð Vilhjálms, sem er núna eini borgarstjórnartími flokksins síðan 1994, og þriðja er að ná upp gamalli samheldni.

Vinstriflokkar mega vara sig á því sem hefur gerst tvisvar áður, að meirihluti með marga oddvita  hefur náð ekki meiru en lendingu í mikilvægum málum, pólitík sem dæmd er til að verða metin léttvæg í næstu kosningum.


mbl.is Svandís: „Valhöll getulaus í erfiðum málum"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynslóðaskipti í stjórn borgarinnar

Þegar Davíð Oddsson tók við sem borgarstjóri að loknu fyrsta valdatímabili vinstriflokka í borginni 1982, var hann ekki gamall maður. Hann lauk störfum 9 árum síðar, gerðist forsætisráðherra og var það lengur samfellt en nokkur annar hefur verið, lauk þeim störfum og gerðist Seðlabankastjóri. Hann er varla enn orðinn gamall maður.

Þegar hann hafði setið eitt kjörtímabil sem borgarstjóri var blásið til kosninga. Þá brá svo við að margir listamenn skrifuðu undir stuðningsyfirlýsingu við hann, listamenn sem taldir höfðu verið í einkaumráðum vinstri flokka þangað til. Nokkrir þeirra fengu tiltal fyrir tiltækið.

Það sem hafði gerst var að fyrsti forystumaður landsins af eftir-stríðsára-kynslóð hafði tekið við völdum og mótað annars konar stjórn en áður gerðist. Þetta er kynslóð sem kennd er við baby boom í Bandaríkjunum, fædd 1946-1964. Þau elstu eru því nýorðin sextug og þau yngstu að vera 45 ára bráðum. 

Þegar Davíð fór úr Ráðhúsinu í Stjórnarráðið börðust þrír menn aðallega um að taka við af honum; Árni Sigfússon, Júlíus Vífill Ingvarsson og Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson. Vilhjálmur þótti nokkuð gamaldags á þessum árum, Júlíus reyndist ekki sterkur í slagnum og Árni virtist hafa yfirhöndina þar til Davíð skipaði Markús Örn Antonsson. Þegar hann fór frá og Árni tók við var fólki ljóst að Árni hefði ekki fullan stuðning flokksins. Um leið buðu vinstrimenn fram saman í fyrsta skipti og niðurstaðan varð 12 ára valdatími R-listans.

Þegar Vilhjálmur fyrir þrautseiglu varð oddviti Sjálfstæðismanna að Birni Bjarnasyni gengnum fór það því fram hjá mörgum að Vilhjálmur var enn af kynslóð sem hafði verið sagt bless við um tuttugu árum fyrr, og að það skipti máli. Það var kynslóð sem var sagt bless við vegna þess að Sjálfstæðisfólk vildi segja bless við þau gildi sem þá réðu. Þegar kynslóð Vilhjálms talaði um frelsi til athafna átti hún við að auðvelt væri að stofna fyrirtæki og að Sambandið gini ekki yfir öllu athafnalífi á stórum svæðum landsins. Þegar Sjálfstæðisfólk sem fæddist eftir 1950 talaði um athafnafrelsi átti það við afgreiðslutíma allan sólarhringinn, að hið opinbera væri ekki að búa til ný fyrirtæki, hvort sem það er ríki eða sveitarfélög, að skattar séu í raun lágir og þar fram eftir götunum.

Ekki síst var það þó stjórnunarstíll sem var um margt gamaldags hjá Vilhjálmi. Á stundum spurði maður sig hvort hann hefði einhverja ráðgjöf, eða hvort hann hlustaði á samherja sína. Hvað sem líður samheldni borgarstjórnarflokksins fyrir framan myndavélar að kvöldi fimmtudags var ljóst að átök höfðu orðið. Ef Vilhjálmur hefði eytt meiri tíma í samræður við samherja hefðu mál þróast hægar og öðruvísi. 

Eins og yngri kynslóðir áttu margt sameiginlegt með ungum borgarstjóra á 9. áratugnum, er ekki ósennilegt að ungt fólk á miðjunni verði framtíðarfylgi Dags B. Eggertssonar, ef hann heldur rétt á spöðunum. Það hægrafólk sem hristir hausinn yfir þessu skyldi muna að Davíð tókst að ná í fylgi úr flestum flokkum.


mbl.is Sviptingar í borgarstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er hann, Dagur sá?

Hver er hann, dagur sá, er nú lítur okkur nær?

Hvar er hann, dagur sá, er nú, nú er okkur fjær?

- spurði Egill Ólafsson um það leyti sem Dagur, sonur Bergþóru og Eggerts leit nafna síns ljós. Hann tók móðurnafn til viðbótar við föðurnafn um það leyti sem hann var að brjóta sér leið í háskólapólitíkinni og er síðan nefndur Dagur B. Eggertsson.

Ég hef alltaf haft ótrú á fólki sem að öllu leyti hefur pólitískast í HÍ og farið beint þaðan í kerfisverk hjá sínum flokki eða á hans vegum. Það er komið að Degi að afsanna þessa ótrú fyrir mér og ég frýja honum ekki vits. Vilhjálmur Vilhjálmsson var maður margra góðra verka, en hann réð illa við stór mál.

Það sem helst vekur athygli núna er þó ekki Dagur, Svandís, Margrét eða Björn Ingi, heldur að Sjálfstæðisflokki tókst ekki að vera í meirihlutasamstarfi nema 17 mánuði eftir 12 ára setu R-lista.

Það tvennt verður ekki síður athyglivert að borgin verði í samstarfi félagshyggjuflokka og að forystumenn verða af annarri kynslóð en Vilhjálmur er.

Dagur er þegar farinn að sanna sig, því hann dregur Björn Inga upp úr flensunni. Það er greinilega ekki ónýtt að hafa lækni á stóli borgarstjóra. 


mbl.is Samkomulag um nýjan meirihluta handsalað klukkan 14
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almennur lagarammi og reglurammi um allan opinberan rekstur

Fólk telur margt breytast við það eitt að breyta um rekstrarform. Allt í einu er talið að opinbert fyrirtæki þurfi ekki að sinna upplýsingaskyldu þegar það er gert að hlutafélagi, eða hlutsfélagi (opinber hlutafélög eða ohf. eru oftar en ekki með aðeins einn hlut).

Margt annað er greinilega talið breytast en mér er ekki ljóst hvernig breyting á rekstrarformi þýðir að allar reglur upphefjist, eða hverfi, eins og víða gerist.

Almennur reglurammi um opinberan rekstur er varla ofrausn þegar hið opinbera sinnir 40% alls rekstrar. Á  undanförnum 20 árum hafa komið fram fleiri form á þessum rekstri en áður var, og verða til fleiri á næstu árum. Allt er þetta samt enn opinber rekstur og hlýtur að fylgja reglum sem fylgja því að vera í eigu almennings.   


Hvað kenna skólarnir?

Búa skólar nemendur undir starf á 21. öldinni? Nú, þegar kennarar krefjast launahækkana fyrir sitt mikilvæga starf er ástæða til að skoða framlag þeirra fyrir þessi laun.

Skólarnir virðast því miður vera að mörgu leyti að búa til fyrirmyndarfólk fyrir síðustu áratugi en kenna lítið af þeirri leikni sem er mikilvæg í dag og verður enn mikilvægari á morgun.

Ég hef kennt stundakennslu í KHÍ, HÍ og á Bifröst. Kennaranemar og kennarar í námsleyfi stóðu greinilega langt að baki öðrum háskólanemendum um notkun á rafrænum gagnasöfnum, leitartækjum og almennri tölvunotkun. Þeir voru afskaplega opnir og ræddu mikið um þessi mál en gerðu minna af því að nota tækin.

Ég hef séð á notkunartölum landsaðgangsins að svona er þetta ennþá. Nú er það þannig með alla leikni að fólk getur aðeins lært svo og svo mikið af sjálfu sér. Nám með góðri kennslu tekur alltaf fram öðru námi. Því miður lætur fólk oft eins og upplýsingaleikni sé eitthvað sem nemendur eigi bara að læra af sjálfum sér. Það er alveg eins hægt að senda fólk út á götu að læra.


Á móti efnishyggjunni, en þurfa samt kauphækkun

Mikið er nú gott að sjá hvað margir geta lýst fyrirlitningu sinni á kaupréttarsamningum. Þetta er ein af þeim leiðum sem fólk notar til að halda starfsfólki ákveðinna verkefna við efnið, að gefa þeim hvata til að standa sig betur. Þetta hugtak er lokað mörgum sem halda að öll vinna sé rútína.

Rútínufólkið verður væntanlega meira áberandi þegar líður á haustið að krefjast hærri launa. Það er þegar búið að láta vita að það sé þungt hljóð í mörgum stéttum og engin ástæða til að búast við öðru en að kröfurnar muni hljóða upp á eins og 30% hækkun.


Smáar þjóðir geta líka skipt máli

Margir láta svo um mælt að Íslendingar eigi ekki að beita sér á alþjóðavettvangi af því við séum svo smá. Það er rétt að við erum örþjóð, meira lík klani eða stórfjölskyldu heldur en þjóð. Ef við hins vegar tökum þennan pól í hæðina, þá sannar sú staðhæfing sig sjálf.

Smáar þjóðir geta skipt máli. Stærsta stríð 20. aldarinnar hófst 22. júní 1941 og breytti gangi heimssögunnar. Innrás Þjóðverja og bandamanna þeirra í Sovétríkin stafaði af oftrú Hitlers á mátt þýskra herja og vanmætti Rauða hersins. Þessi oftrú stafaði aftur af hrakförum sovéskra herdeilda í Finnlandi. Óbeint urðu Finnar til að magna þá trú Hitlers að hann gæti sigrað Sovétríkin fyrir árslok 1941. Annað kom á daginn.

Smáar þjóðir geta líka skipt máli í friðsamlegu starfi, ef þannig er til í heiminum. Starf Norðmanna hefur gert þessa 5 milljón manna þjóð þekkta fyrir ýmislegt sem Íslendingar vildu gjarnan geta líka. 


Íslensk þjónusta á toppverði, börn að vinna

Á Íslandi greiðir fólk ekki bara hátt verð fyrir allar vörur, heldur einnig fyrir þjónustu. Sjálfur hef ég lítið á móti að greiða hátt verð fyrir fyrsta flokks þjónustu.

Í alltof mörgum verslunum færðu að greiða fyrsta flokks verð en fá fjórða flokks þjónustu. Eitthvað hlýtur þetta að segja í rekstri verslana. Það á að vera ánægjuleg upplifun fyrir fólk að fara að versla. Þegar fólk finnur ekki þessa upplifun fer það annað, sé verðið svipað. Til að finna ánægjulega upplifun fara Íslendingar út í lönd.

Undanfarið hefur verið rætt um það að aðrir en Íslendingar afgreiði í verslunum og bakaríum. Um leið og ég skil að þetta getur verið erfitt fyrir þá sem aðeins tala íslensku, þá verð ég feginn þegar ég sé þetta fólk. Það er fullorðið og kurteist, veitir iðulega langtum betri þjónustu en Íslendingar, og er himnaríki miðað við að fá barn til að afgreiða sig.

Ef verslunin gæti kennt fleirum en bara verslunarstjórum að umgangast viðskiptavini, gæti þetta breyst.


Íslensk bókamessa eða aðrir bókaviðburðir

Kristján B. Jónasson svarar grein minni úr Lesbók Morgunblaðsins á laugardag 5. október. Hann gefur ekki færi á andsvörum á sínu bloggi, sem er mér að meinalausu, þannig að ég tek upp þráðinn hér.

Hann bendir á að það sé ansi bratt að tala um bókamessur í Frankfurt og Gautaborg, enda séu þær stórfyrirtæki, þegar stungið er upp á íslenskri bókamessu. Hann telur að bókamarkaður á útmánuðum sé góður vettvangur sem megi útfæra til að kynna betur bækur og annað sem gefið er út á íslenskum markaði.

Það er athyglivert sem hann bendir á, að um leið og útgefnum bókum fækkar samkvæmt Íslenskri útgáfuskrá fjölgar þeim í Bókatíðindum. Það er greinilegt að vegur Bókatíðinda fer vaxandi og þau eru talin vettvangur til að koma þessu efni á framfæri fyrir jólin.

Það sem hann tekur ekki á er það sem greinin fjallar fyrst og fremst um. Það er sú staðreynd að stórir kaupendur fá ekki kynningu á bókum fyrir jólin, sem enn er aðalútgáfutíminn. Kynningar hafa verið fyrir fólk í útgáfubransanum. Með fullri virðingu fyrir því fólki er starfsfólk annarra útgáfa ekki stórir kaupendur að bókum.

Þar með vantar slíkan vettvang, að undanskildum Bókatíðindum. Útgefendur höfðu af einhverjum ástæðum gleymt þeim mikilvæga hópi sem er starfsfólk bókasafna þar til ég fór að ræða þessi mál við Kristján fyrir tveimur árum. Hann brást vel við.

Það kom í ljós að bókaverðir höfðu ýmislegt fram að færa þegar bókasafnafólki var boðið á ráðstefnu bókaútgefenda fyrr á þessu ári. Þá kynnti Ingibjörg Sverrisdóttir, sem nú er landsbókavörður, mörg þeirra verkefna sem ganga út á að skanna inn og gera leitarhæf tímarit og bækur gefnar út á Íslandi, sem nú má helst sjá á timarit.is. Ég heyrði að það kom fólki í útgáfum mikið á óvart hversu stór þessi verkefni eru.

Nú bendi ég á að hversu mikilvægur kaupendahópur bókasöfnin í landinu eru fyrir íslenska bókaútgáfu, og hef reyndar aðeins nokkrar stikkprufur úr Gegni að styðjast við. Síðan er ég ekki að biðja um neinn vettvang, aðeins að spá því að sá eða sú sem vilji ná forskoti á þessum markaði hljóti að fara að sinna þessum hópi og öðrum betur fyrir jólin. Hvort sá vettvangur muni vera kallaður bókamessa eða ekki er ekki aðalatriði í mínum huga.

Annars finnst mér ekkert nema metnaðarleysi að hafa ekki bókamessu á Íslandi. Eitt er að kalla sig bókaþjóðina og annað að standa undir því, greinilega. Er þetta kannski tveggja eða þriggja bóka þjóð?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband