Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Að njóta ekki þjónustu sérsveitarinnar

Oft lætur fólk vita að því sárni að greiða fyrir alls kyns þjónustu hins opinbera með sköttum, en njóta hennar ekki. Þannig njóta þeir trúlausu ekki þjónustu kirkjunnar, antisportistar njóta ekki þess sem látið er renna til íþróttahreyfingarinnar og hestlausir fá varla notið reiðleiða.

Maður heyrir samt ekki kvartað undan öllum svona útlátum. Til dæmis hafa þeir sem eiga fyrir eigin útför varla gert athugasemdir við hvernig þeir eru greftraðir sem ekkert eiga. Það gæti haft með þá staðreynd að gera að þetta fólk er ekki lengur á lífi, en hver veit?

Mér finnst þó langt til seilst að kvarta undan því að hafa ekki sérsveit lögreglunnar í nágrenninu, eins og það sé einhver þjónusta sem maður óski sérstaklega eftir. Með fullri virðingu fyrir störfum þeirra þá þakka ég ekki þeim dögum sem þeir þurfa að sinna sérsveitarstörfum. Sem betur fer eru þeir við fremur friðsamleg, venjuleg lögreglustörf flesta daga ársins.


mbl.is Víkingasveitin verði skipuð 52 lögreglumönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað skiptir máli í menntun?

Skiptir eignarform á skólum öllu máli eða skiptir það máli hvernig menntun er þar? Margir stjórnmálamenn tala eins og það skipti öllu máli hvaða rekstrarform er á skólunum.

Ég held að þessir sömu stjórnmálamenn hafi ekki eyru annarra en kennaranna og einungis sumra þeirra. Ég held að fólk sé löngu farið að sjá hversu miklu máli góð menntun skiptir og að það fari að gera kröfur til skólastjórnendanna um meira en það sér í dag. Þetta mun aukast núna þegar menntunarstig þjóðarinnar hækkar.


Stórt og smátt í íþróttum

Þessa helgina eru víða miklar keppnir. Mikilvægasti leikur ársins í Skotlandi er að baki, fyrsti Old Firm-leikurinn á leiktíðinni og Rangers sigruðu Celtic. Ég vil taka fram að hvorugt liðið ber nafn Glasgow eins og sjá má á vefjum þeirra.

Leikurinn var á Ibrox, heimavelli Rangers, sem eru frískari af liðunum tveimur þessa dagana og unnu 3-0. Barry Ferguson, fyrirliði Rangers, hefur þrátt fyrir þetta sagt Celtic líklegra að vinna deildina, en ég held að hann sé að stappa stálinu í sitt fólk.

Gengi þessara tveggja liða í Evrópu og uppgangur skoska landsliðsins eru björtu hliðarnar á skoska fótboltanum. Því miður virðist ekkert af hinum liðunum ætla að ógna þeim fremur en fyrri daginn. Hibs eru hressari af Edinborgarliðunum en Hearts virðast hafa lokið sínum góða spretti án þess að marka djúp spor í þetta skiptið. Það er kannski rétt að taka fram að þau lið heita lengri nöfnum, Hibernian og Hearts of Midlothian fullu nafni. Það síðarnefnda tekur nafn af sögu eftir Walter Scott.

Sunnan við landamærin hafa Englendingar fylgst með landsliðinu í ruðningi (rugby union) tapa fyrir liði Suður-Afríku, sem var einfaldlega var líkamlega sterkara, í úrslitaleik um heimsmeistaratitil þetta árið. Á sunnudag fylgjast Englendingar og kannski fleiri með hvort Hamilton tekst að ná í heimsmeistaratitil í Formúlu 1.

---

Á meðan er undirstrikað hversu smá þessi þjóð er, og þá á ég ekki við tap karlalandsliðsins gegn Liecthenstein. Örþjóðir geta komið á óvart með nokkrum öflugum leikmönnum. Bæði Beck og Frick sýndu sitt besta gegn Íslandi á Rheinstadion.

Nei, smæðin var undirstrikuð með kjöri á leikmanni ársins í kvennaboltanum. Það er svo óumdeilt að Margrét Lára er yfirburðakona í deildinni, á stóran hluta í velgegni kvennalandsliðsins og gengi Vals í deild, bikar og Evrópukeppni, að þetta kjör hefur sett ofan.

Það er því grátlegra að gengi kvennalandsliðsins og kvennaliðs Vals eru einmitt björtu hliðarnar í íslenskri knattspyrnu þessa dagana. Það verður bara að vona að þetta batni og Margrét Lára hljóti þá viðurkenningu sem henni ber. 


Snjógerð

Það er fátt sem lýsir betur breyttum tímum en að helsti vaxtarbroddur norðanlands sé snjóframleiðsla.

Framkvæmdastjóri Skíðasambandsins lýsir því með stolti að ekki einungis Akureyringar, heldur einnig Dalvíkingar og Sauðkrækingar framleiði núna snjó sem aldrei fyrr. 


Milljón tonn af síld

Eru það ekki fréttir lengur að milljón tonn af síld séu gengin í Grundarfjörð, samanber þessa frétt í Skessuhorni, fréttamiðli á Vesturlandi?

Þetta er stórfrétt, hvernig sem á það er litið. 


Hljóð og mynd í Kiljunni

Hvers vegna að halda sig við þessa íhaldssemi að tengja hljóð við mynd? Ja, líklega vegna þess að það gengur betur, samanber Kiljuna í kvöld, 17/10.

Það sést að það hefur gengið illa að fá gott fólk í útsendingarstjórn á RÚV undanfarið. Ég get slegið því föstu að Siggi Hrellir var ekki við stjórnvölinn þarna þetta kvöld, bara með því að sjá og heyra Kiljuna. 

Annars hleyp ég ekki eftir því að heyra Kiljuna, þar er ekkert nýtt. Matthías og Guðbergur og Kiljan og Kolbrún og Bragi Kristjóns eru öll fín. Ég hef bara heyrt þetta allt áður.

Egill gæti líklega náð í eitthvað ferskara ef hann vildi. Það er nóg að koma út.


Röskvukynslóðin við völd

Þegar ég sá fyrst til Dags B. Eggertssonar, var það í háskólapólitíkinni. Hann var í framlínusveit Röskvu með Vilhjálmi Hans Vilhjálmssyni, Guðmundi Steingrímssyni og Dagnýju Jónsdóttur.

Guðmundur hefur líklega verið þekktastur þeirra á þessum árum, bæði vegna uppruna og harmonikkuleiks. Dagný varð þeirra fyrst að fara á þing og er núna fyrst til að fara af þingi, hvað sem síðar verður.


Í bókatíð

Nú kemur sá tími að maður finnur eitthvað nýtt íslenskt efni á hverjum degi eða því sem næst, í bókabúðunum. Það má því finna mig í Máli og menningu á Laugavegi 18 eða Eymundsson í Austurstræti 18 þegar kvöldar.

Kaffið á báðum stöðum er gott. Eymundsson hefur vinninginn í augnablikinu, vegna þess að maður getur rölt með kaffið og virt fyrir sér varninginn á meðan, sem er ágætis tilfinning. Súfistinn er með gott kaffi, en heimtar að maður kúldrist á agnarsmáum borðum eins og hæna á priki.

Þegar ég skrifa þessa færslu berast þær fregnir að írska skáldkonan Anne Enright hafi hlotið Man Booker-verðlaunin þetta árið. Hún var ekki talin líklegust til þess og keppti við þungaviktarskáld eins og Ian McEwan.


mbl.is Enright hlaut Booker verðlaunin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

REI ehf.

Borgarfulltrúar til hægri og vinstri hafa talað eins og þeir sem völdin höfðu og völdin munu fá þessa viku sem var að líða. Þeir telja sig geta skákað til REI og málum í OR eins og samviska þeirra býður. Nú er OR aðeins undir óbeinni stjórn kjörinna borgarfulltrúa, hvað sem verður í framtíðinni. Áhrif borgarfulltrúa eru þar með aðeins óbein, eins og ljóslega hefur komið fram.

Aðalbitbeinið, REI, er síðan fyrirtæki á vegum opinbers hlutafélags og annarra fjárfesta. Það er gert til að leiða saman þekkingu sem hefur skapast í vinnslu á jarðvarma og annarri orkuvinnslu annars vegar, og hins vegar fjármagn. Það fjármagn hefur bæði komið úr einkageira og opinbera geiranum. Inntak fyrirtækisins er því þekkingin á orkuvinnslunni. Hún er augljóslega bundin í kolli verkfræðinganna og annarra starfsmanna, og þeim skjölum sem þeir hafa búið til.

Ef viðbrögð nýs borgarstjórnar-meirihluta verða að ætla að binda þetta fyrirtæki í opinberri eigu, hvað er það þá sem heldur aftur af þessum starfsmönnum að stofna eigið fyrirtæki utan um starfsemina? Þeir vita að fjármagn úr einkageiranum muni standa þeim til boða.

Miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir sé ég ekki neina meinbugi á þessu. Mér sýnist líklegt að fólk vilji síður vera í hlutverki bitbeinsins, og fremur að vinna að þeim hlutum sem það hefur gert vel. Bitbeinin hljóta að verða leið á að vera milli tannanna á fólki og vilja fá vinnufrið. Ef fjárfestarnir bíða við dyrnar er fátt til að halda aftur af þeim. Iceland Energy Invest ehf. getur þess vegna verið orðið til þegar þetta er skrifað.

Það vekur svo upp spurninguna, að ef REI var aðeins stofnað til að virkja þekkingu og átti aðeins að starfa erlendis, hvað er það þá sem stöðvar að stofnað verði hlutafélag án opinberrar þátttöku um þann rekstur? Málinu hefur verið stillt svona upp, og fyrst ekki er orðið til ehf. utan um reksturinn, má álykta að fleira hangi á spýtunni, eitthvað sem almenningur hefur ekki verið upplýstur um, almenningur sem á þó að heita eigandi bæði OR og stórs hluta HS. Einhver hluti skýringarinnar gæti verið umræddur samningur OR og REI.


mbl.is Borgarstjóri upplýstur um samning til 20 ára þann 23. september
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndir þú kaupa notaðan bíl af þessu fólki?

Ég ætla ekki að væna neinn borgarfulltrúa Reykvíkinga um óheilindi, ósannsögli eða óværu af neinu tagi. Það eru nógir aðrir í þeim slag.

Ég er hins vegar ekki sannfærður, eftir framgöngu þeirra allra undanfarna viku, að þeir séu nægilega vel í stakk búnir að stjórna því mikla fyrirtæki sem Reykjavíkurborg er.

Var þetta fólk það besta sem stjórnmálaflokkarnir gátu boðið upp á? Líklega hefur færni þeirra til að fyrta sem fæsta í sínum flokki fleytt þessu fólki áfram í prófkjörum. Góð kosningavél hlýtur að vera gulls ígildi, og greinilega freistandi að verðlauna vélstjórana með einhverjum ráðum að kosningum loknum. 

Stjórnun opinbers rekstrar er jafn mikilvæg stjórnun og í einkafyrirtækjum.


mbl.is Nýr meirihluti nýtur stuðnings 56,5% borgarbúa samkvæmt könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband