Leita í fréttum mbl.is

Mest notaði rafbókalesarinn

Þegar umtalaðasta skýrsla síðari ára á þessu landi lítur dagsins ljós síðar í mánuðinum, velja flestir vefútgáfu hennar.

Rafbækur eru ekki bækur. Það er ein ástæðan fyrir því að þú heldur ekki á einni slíkri núna. Bækur eru fínar til síns brúks og eru ekkert að hverfa núna, ekki fremur en um síðustu aldamót þegar þú hefur kannski fengið að heyra að þær væru að hverfa.

Líkt og með pappírslausu skrifstofuna er stóra spurningin, til hvers? Þegar þú ert engu betur sett með rafbók en venjulega bók, þá kaupirðu hana ekki. Fyrst þarftu að setja pening í misdýra rafbókalesara eða að minnsta kosti fartölvu sem ræður við þetta. Helst viltu hafa græju eins og iPad, með alvöru skjá og sem ræður við meira en bara að birta bækur. Þar fóru 100 þúsund, og þú hefðir getað keypt 20 bækur í staðinn.

Svo er það spurningin um að eiga bækur. Allt viðskiptamódelið með rafbækur hefur gengið út á að fólk verði að kaupa sig inn í eitt eða tvö lokuð form, að sjálfsögðu þannig að fólk getur ekki afritað með góðu móti. Í raun kaupir fólk aðeins aðgangsréttindi að bókunum eða lesefninu. Dæmin hafa sýnt að bækur hverfa í orðsins fyllstu merkingu úr rafbókalesaranum þegar samningar milli dreifingaraðila bregðast. Það kórónaði kaldhæðni þeirra örlaga þegar bókin 1984 féll út af Kindle-lesurum eftir að Macmillan dró til baka leyfi til Amazon.

Mest notaði rafbókalesarinn er þó fyrir framan þig og þú ert að nota hann einmitt núna til að lesa þessi orð. Yfir 99% af öllu lesefni öðru en á pappír er lesið með vafra. Hann hentar vel til að lesa dæmigerðan texta á neti, þar sem fólk les stutta kafla og notar fremur til stuðnings en afþreyingar. Skáldsögur hafa alltaf verið mikill minnihluti þess sem fólk les hvort eð er, minna en 25% af bóksölu og aðeins örlítill hluti annars útgefins efnis. Það er gott að hafa í huga að metsölubók Íslands ár eftir ár (já það er Símaskráin) er núna að mestu notuð á neti. Þegar umtalaðasta skýrsla síðari ára á þessu landi lítur dagsins ljós síðar í mánuðinum, velja flestir vefútgáfu hennar.

Fólki er illa við að borga hátt verð fyrir lög, myndir eða texta sem er ekki til eignar. Búnaður fyrir aðgangsréttindi (Digital Rights Management, DRM) er ekki vinsæll hjá fjöldanum ef hann hamlar venjulegri notkun og afritun. Fólk vill ekki þurfa að nota sérstakt forrit eða sérstök tæki til þess eins að geta spilað lög, horft á myndir eða lesið texta. Fólki er illa við að borga jafnmikið fyrir rafræna útgáfu eins og prentaða bók. Fólk mun velja útgáfu sem það getur lesið og notað á hvaða tölvu sem er og þá er vafrinn hentugasta tækið. Útgefendur munu þurfa að finna verð, form og útgáfu sem er handhæg og aðlaðandi.

Tim O'Reilly segir hagnað af Safari-bókasafninu vera meiri en tölur sem oft sjást um heildarveltu rafbóka. Safari Books Online byggir á einfaldri áskrift, annað hvort að 10 bókum sem notandi velur í rafræna hillu í hverjum mánuði, eða aðgangi að öllu safninu. Að því leyti er þetta eins og áskriftarsöfnin sem borgarar í Bretlandi og Bandaríkjunum hafa rekið yfir tveggja alda skeið. Það virkar.

Dæmi um áskriftarsafn af gamla skólanum er London Library, 170 ára gamalt með um 7000 meðlimi. Áskrift kostar 395 pund á ári þegar þetta er skrifað. Safnið á gamlar og nýrri bækur og er auk þess með áskrift að rafrænum tímaritum og gagnasöfnum. Sjá http://www.londonlibrary.co.uk/.
Dæmi um áskriftarsafn á vef er Safari Books Online sem geymir tölvubækur O'Reilly, um 8000 titla og býður tvenns konar áskrift að rafbókum fyrir einstaklinga. Fyrir 23 dollara á mánuði má velja 10 bækur í sína hillu fyrir mánuðinn. Fyrir 43 dollara á mánuði má valsa um allt safnið auk þess að hafa aðgang að ýmsu stuðningsefni á vef. Nú er einnig í boði áskrift fyrir 20 dollara á mánuði að meira úrvali bóka og stuðningsefnis á vef. Sjá nánar á http://www.safaribooksonline.com.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband