Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Sjónvarp

Um handbolta, hóflausa drykkju og Kusturica

Á fimmtudagskvöld, meðan þjóðin horfði á handboltaleik í Þrándheimi, fór ég í bíó. Það var einfaldlega of nöturlegt að horfa á öll mistökin og eftir hálftíma var ég búinn að fá nóg. Eins og góður maður sagði, þá spilaði íslenska liðið eins og kjánar.

Fyrr á árum gat ég dottið í það eins og það kæmi ekki dagur eftir þann dag, föstudags- og laugardagskvöld flestar helgar ársins. Svo hætti ég að hafa gaman af því og þá var það búið. Þegar drykkjan var búin og svefninn tók völd, tók við ruglingslegur draumur.

Þann draum sá ég í bíó á fimmtudagskvöldið og hann heitir Lofaðu mérá íslensku, Promets moi á frönsku. Ég veit ekki hvað myndin er að gera á franskri kvikmyndahátíð, líklega framleidd af Frökkum. Þetta er serbnesk mynd, um brjálaða Serba, og er eftir Emir Kusturica. Fyrir þau sem eru að sjá Kusturica í fyrsta skipti er þetta hin besta skemmtun.

Frásagnarmátinn er teiknimynd, leikin á tjaldi, slapstick. Það vantar pólitíska broddinn sem hann sýndi í Neðanjarðar, dýpri tilfinningar sem hann sýndi í Svartur köttur, hvítur köttur, eða þá að þetta fari fyrir ofan garð og neðan hjá Íslendingi og að Serbarnir sjái kannski einhverja ádeilu sem við skynjum ekki. Fyrir okkur er þetta bara Buster Keaton með ávæningi af Dusan Makavjev. Sem er ekki slæmt, þetta var hin ágætasta skemmtun.

Það var ágætt að ganga út af fylleríinu en sjálfur áfengislaus.


Húsaníð

Viðtal Egils Helgasonar við Sigmund Gunnlaugsson í Silfri Egils á sunnudag hefur vakið sterk viðbrögð.

Sigmundur hefur sýnt með tiltölulega einföldum myndum hvernig falleg hús í Reykjavík hafa verið gerð að dauðum kumböldum. Því miður var það gert í góðri trú og sporin hræða.

Það sem kom þó fram sterkast hjá honum er að hvatinn er ennþá til að láta hús grotna niður og byggja nýtt og stærra á sömu lóð, selja og fara, endurtaka svo leikinn á næsta stað.

Þetta hefur komið fram áður en Sigmundur getur sett fram málefnið á þann hátt sem lætur fáa ósnortna. Það má því búast við viðhorfsbreytingu þegar þættir frá honum verða sýndir síðar í vetur.

Nú er rætt um að það þurfi að greiða skaðabætur til þeirra sem höfðu öðlast byggingarrétt þar sem nú á að friða. Þá verður manni hugsað til hvort borgarbúar eigi ekki rétt á skaðabótum frá þeim sem gerðu falleg hús að ljótum. Þannig gæti bankinn sem eignaðist hús Útvegsbankans við Lækjartorg bætt fyrir það sem þar var gert. Tryggingafyrirtækið sem eignaðist Almennar tryggingar og þar með húsið milli Hótel Borgar og Reykjavíkurapóteks gæti rétt hlut borgaranna eða átt á hættu að vera minnst fyrir þessa framhlið svo lengi sem fólk gengur um Austurvöll.

Einfaldar teikningar og samsettar myndir hafa orðið sterkt vopn í höndum húsfriðunarsinna. Teikning Snorra Freys Hilmarssonar af húsinu sem gæti komið við Laugaveg 51 (við hornið á Frakkastíg, þar sem nú er verslunin Vínberið) vakti mikla athygli. Einfaldar myndir Sigmundar þar sem hann sýndi áður falleg hús og óskapnaðinn sem við þekkjum í dag voru jafn sláandi.

Það má kalla ódýrt bragð að setja verstu húsgafla Reykjavíkur inn í fallega borgarmynd Kaupmannahafnar, en Sigmundur er að vekja athygli á málum sem þarf að mála í sterkum litum. Það er einfaldlega erfitt að sjá hvað er mögulegt á Laugavegi þegar maður er alinn upp við að þetta sé stræti sem allt of margir ganga illa um.

Það vekur athygli mína strax hvað önnur mynd er á húsum við Laugaveg sem eru lægri í dag en þau voru, þar sem gatan hefur fyllt upp í hálfa hæð. Svipur húsanna gerbreytist og það er augljóst af hverju lagt er til að lyfta þeim, það er búið að grafa þau að hluta niður!


Hversu lengi Ríkisútvarp?

Hversu lengi mun ríkið reka útvarps- og sjónvarpsstöðvar?

Allir vita að öryggishlutverki þeirra má hæglega gegna með því að almannavarnir geti komið inn í dagskrá þeirra stöðva sem eru með útvarpsleyfi, þegar það á við.

Það er ekki hægt að halda því fram að það sé stöðug neyð á Íslandi sem krefjist sérstakra ríkisstöðva árið um hring.

Áskriftin hefur verið bundin við þá sem eru með viðtæki, líkt og í Bretlandi og víðar, og hefur mörgum þótt það blóðugt. Þetta mun færast á nýtt stig þegar fastur nefskattur leggst á í janúar 2009. Af öllum sköttum er nefskattur yfirleitt óvinsælastur. Menntamálaráðherra hefur dregið aðeins úr óvinsældum skattsins með því að gera aldraða og lágtekjufólk (raunverulegt lágtekjufólk, athugið) undanþegið honum.

Eigi að síður má búast við að umræða um sérstakar ríkisstöðvar færist á nýtt stig fyrir næstu kosningar. 


Verkfall handritshöfunda í Hollywood

Mér reiknast til að verkfall handritshöfunda í Kaliforníu fari að hafa áhrif á Íslandi eftir um eitt ár. Við fáum þætti um hálfu til einu ári síðar en þeir eru sýndir í Bandaríkjunum.

Það er svipað og teiknimyndasögurnar í blöðunum. Þær eru í jólaskapi hér í maí, halda upp á Halloween hér um páska og eru um þessar mundir í Valentínusarskapi.

Einu sinni var þetta svipað með bíómyndir. Áhorfendur vildu sjá þær fyrr og bíóeigendur, þá aðallega Árni Samúelsson í SAM-bíóunum og síðar Jón Ólafsson, sömdu um að fá þær fyrr hingað.

Þetta var einfaldlega það sem kauprík þjóð bað um og þá fékk hún það. Þess vegna held ég að það fari eins með sjónvarpsþættina.

Fréttir af því að fyrsta myndin sem muni líða fyrir verkfallið sé undanfari (prequel) Da Vinci Code vekur engan grát.


Hljóð og mynd í Kiljunni

Hvers vegna að halda sig við þessa íhaldssemi að tengja hljóð við mynd? Ja, líklega vegna þess að það gengur betur, samanber Kiljuna í kvöld, 17/10.

Það sést að það hefur gengið illa að fá gott fólk í útsendingarstjórn á RÚV undanfarið. Ég get slegið því föstu að Siggi Hrellir var ekki við stjórnvölinn þarna þetta kvöld, bara með því að sjá og heyra Kiljuna. 

Annars hleyp ég ekki eftir því að heyra Kiljuna, þar er ekkert nýtt. Matthías og Guðbergur og Kiljan og Kolbrún og Bragi Kristjóns eru öll fín. Ég hef bara heyrt þetta allt áður.

Egill gæti líklega náð í eitthvað ferskara ef hann vildi. Það er nóg að koma út.


« Fyrri síða

Höfundur

Sveinn Ólafsson
Sveinn Ólafsson
Höfundur bloggar um lífið og tilveruna.

RSS-straumar

BBC News

RSS feed from the BBC news website

BBC News

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband